Ég verð að ná Sambandi

Árni Magnússon virðist telja að stjórnmálamenn ráði ekki nógu miklu og þurfi hugsanlega að endurskoða það frelsi sem þeir hafa „veitt” á undanförnum árum. Miðað við þetta getum við eflaust þakkað fyrir að hann komst ekki fyrr í ríkisstjórn – ella hefði hann kannski náð að skemma þann mikla árangur sem náðst hefur á síðustu áratugum. Og hver veit? Kannski væri Sambandið þá enn á lífi.

Hver veit nema Árna hefði tekist að stöðva frelsisvæðinguna á Íslandi – bara ef hann hefði komist fyrr í ríkisstjórn.

Sögð er sú saga af Winston Churchill að eitt sinn hafi þingmaður Verkamannaflokksins komið að honum í náðhúsi breska þingsins. Þar hafi Churchill staðið við mígildið og snúið sér undan þegar þingmaðurinn kom að honum. Þingmaðurinn á að hafa spurt: „Hvað er þetta Winston. Er eitthvað sem þú skammast þín fyrir?” Churchill svaraði: „Nei. Síður en svo. Ég sný mér undan af því að ég er hræddur.” „Hræddur? Við hvað,” spurði þá þingmaðurinn. „Ég er hræddur af því að í hvert sinn sem þið í Verkamannaflokknum sjáið eitthvað stórt þá heimtið þið að láta þjóðnýta það,” svarað Churchill að bragði.

Árni Magnússon félagsmálaráðherra hefur miklar áhyggjur af því þessa dagana að sumir hlutir á Íslandi séu orðnir of stórir. Í Fréttablaðinu í dag lýsir hann áhyggjum sínum af alþjóðavæðingunni og viðskiptafrelsi. Hann segist reyndar vera almennt stuðningsmaður viðskiptafrelsis og hann bendir á að það sé nú engin tilviljun að nú séu starfandi tvær nefndir til þess að rannsaka annars vegar eignarhald á fjölmiðlum og hins vegar eignatengsl og hringamyndanir í viðskiptalífinu.

Þessar yfirlýsingar ráðherrans koma beint í kjölfarið á ræðu ráðherrans á iðnþingi fyrir helgina.. Þar hélt hann því fram að íslenskir bankar stunduðu það að brytja niður fyrirtæki og spurði:

Er það raunverulega svo að eðlilegt sé að einstakir viðskiptabankar verji mestum kröftum sínum og fjármunum, jafnvel með stórkostlegum erlendum lántökum, í að brytja niður fyrirtæki í íslensku viðskiptalífi, til hagnaðar fyrir sjálfa sig? Er það tilgangur þeirra?

Ljótt er ef satt reynist. En hvar býr félagsmálaráðherra? Hvar hefur hann orðið vitni af slikum óhæfuverkum? Hvaða félög hafa verið „brytjuð” niður í gróðaskyni fyrir bankana? Er ég svona blindur að sjá ekki það sem allir sjá – eða er það tóm óskhyggja að halda að aðkoma bankanna að íslensku viðskiptalífi á síðustu misserum hafi fyrst og fremst stuðlað að því að brjóta upp eignatengsl og koma fyrirtækjum undir stjórn aðila sem hafa séð færi á því að skapa meiri verðmæti en áður var gert?

Og er það raunverulega svo að eðlilegt sé að einstakir stjórnmálmenn verji mestum kröftum sínum og tíma, jafnvel með stórkostlegum gífuryrðum og ýkjum, í að brytja niður traust manna á viðskiptabönkum og frjálsræði í viðskiptum til pólitísks hagnaðar fyrir sjálfa sig? Er það tilgangur þeirra?

En Árni telur sig vafalítið vera að „standa vaktina” af þeirri ábyrgð og festu sem einkenna þarf framtíðarleiðtoga Framsóknarflokksins. En þessi ágæti ráðherra, sem raunar hefur lofað fjári góðu á fyrstu mánuðum sínum í ríkisstjórn og á þingi, virðist því miður hafa býsna sérkennilega sýn á hlutverk stjórnmálamanna í frjálsu og opnu samfélagi. Í viðtalinu í Fréttablaðinu í dag segir hann:

Þessi ríkisstjórn hefur auðvitað stuðlað að þessu aukna frelsi í viðskiptum en það er ekki sama hvernig farið er með það frelsi. Ef okkur finnst þróunin í viðskiptalífinu ekki í þá átt sem best er fyrir land og þjóð er það ekki síður skylda okkar að koma því á rétta braut en að hafa opnað fyrir þetta á sínum tíma.

Hann semsagt álítur það hafa verið gjöf ríkisstjórnarinnar til athafnamanna að hafa snúið frá skelfilegum höftum og fyrirgreiðslupólitík til þess að færa samfélagið í þá átt sem nú er. Þetta er ákaflega öfugsnúin og hrokafull afstaða. Það er einnig einstaklega dapurleg afstaða hjá ungum manni sem er nýkominn á þing að detta strax í forræðishyggjupakkann og telja sig vera þess umkominn að vita betur en markaður og almenningur hver niðurstaða frjálsrar samkeppni á opnum markaði eigi að vera.

Kannski langar hann bara til þess að Samband íslenskra samvinnufélaga komi aftur – að það sé ef til vill heppilegra og betra fyrir „okkar litla samfélag” að það sé bara Framsóknarflokkurinn sem stjórni sem mestu bæði í atvinnulífi og stjórnmálum?

Er það bara ég – en ræður Framsóknarflokkurinn ekki nógu samt?

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.