Ólympíuleikar í almannatengslum

Fáir heimsviðburðir, ef nokkur, hafa sömu áhrif og Ólympíuleikarnir. Hvergi má sjá viðlíka samhug meðal ólíkra þjóða. Þar koma saman þúsundir íþróttamanna, sem fátt eiga sameiginlegt nema ævilangan draum um tækifæri til þess að taka þátt í þessum mesta íþróttaviðburði veraldar.

Fáir heimsviðburðir, ef nokkur, hafa sömu áhrif og Ólympíuleikarnir. Hvergi má sjá viðlíka samhug meðal ólíkra þjóða. Þar koma saman þúsundir íþróttamanna, sem fátt eiga sameiginlegt nema ævilangan draum um tækifæri til þess að taka þátt í þessum mesta íþróttaviðburði veraldar. Og þótt víst sé að djúpt í hugum allra íþróttamannanna leynist draumur um að standa á efsta stalli og sjá þjóðfána sinn dreginn að húni þá er stærsti draumurinn einfaldlega sá að fá að vera með. Það er því tilfinningaþrungin stund fyrir íþróttamennina og áhorfendur um heim allan þegar Ólympíuleikar eru settir. Sú hugsun læðist að manni: Af hverju er heimurinn ekki alltaf svona?

Íþróttamenn frá þjóðum sem há styrjaldir sín á milli fallast í faðma og þakka hver öðrum fyrir drengilega keppni. Hefðbundnir fordómar falla í skugga virðingar fyrir dugnaði og hæfileikum einstaklinganna – því þegar fólk stillir sér upp hlið við hlið í samkeppni skiptir húðlitur ekki lengur máli. Einungis hversu hratt þú kemst. Ólympíuleikarnir sameina því virðingu fyrir einstaklingnum og samstöðu fjölda fólks um að njóta þess að taka sameiginlega þátt í hátíð og keppni – og eiga saman ógleymanlega daga. Þótt það sé klisja að aðalatriðið sé ekki að vinna heldur að vera með – þá á hún svo sannarlega við um Ólympíuleikana. Keppnin er markmiðið. Frammistaðan er bónusinn.

Umgjörðin um Ólympíuleikana ýtir mjög undir tilfinningagildi þeirra. Það þurfti t.a.m. nokkuð kaldhæðinn mann til þess að komast ekki við þegar Muhammed Ali kveikti á Ólympíueldinum við setningu leikanna í Atlanta 1996. Þar að auki er sífelld upprifjun á tilfinningaríkum stundum í sögu leikanna snar þáttur í þeim fjölmiðlapakka sem almannatengslagúrúar Ólympíunefndarinnar setja saman fyrir sjónvarpsstöðvarnar.

Gagnrýnisraddir heyrast nú víða vegna þess hvernig skipulagi Ólympíuleikanna í Sidney er háttað. Ekki er átt við praktísk atriði heldur hvernig stöðugt er reynt að spila á tilfinningar fólks – og hve langt ástralskir spunalæknar ganga til þess að viðhalda flekklausri ímynd skipuleggjenda leikanna.

Fyrir nokkru kom í ljós að mistök voru gerð við hönnun verðlaunapeninga á Leikunum. Listamanninum, sem falið var að hanna peningana, urðu á þau mistök að setja mynd af Colloseum í Róm á medalíuna í stað Panthenon hofsins gríska eins og um var beðið. Ástralskur blaðamaður að nafni Roger Maynard komst á snoðir um málið og lét í sér heyra. Hann uppskar reiði. Honum var hótað líkamsmeiðingum og yfirmaður ólympískra almannatengsla kallaði hann smánarblett á áströlsku þjóðinni.

Í vonlausri angist fundu spunalæknarnir leið til þess að snúa sig út úr þessari niðurlægjandi uppákomu með því að segja myndina á medalíunni vera einhvers konar frummynd af hringleikahúsi. Allt annað en að viðurkenna mistökin og hlæja með. Ef til vill er tíðarandinn svoleiðis að alltaf skuli hafa það sem betur hljómar. Við sjáum það í pólitík á hverjum degi og við sjáum það hjá stórfyrirtækjum íslenskum og útlenskum. Snjallir fjölmiðlafulltrúar eru þyngd sinnar virði í gulli – og þeir sem viðurkenna mistök eru eins og særð dýr í frumskóginum – óvarðir fyrir árásum rándýra og narti hrægamma.

Adolf Hitler gerði það sem hann gat til þess að gera Ólympíuleikana í Berlín árið 1936 að almannatengslaviðburði til að sanna yfirburði hins hvíta kynstofns. En veruleikanum gat hann ekki breytt. Jesse Owens, þeldökkur Bandaríkjamaður, vann fjögur gullverðlaun á leikunum og ávann sé vináttu og virðingu annarra íþróttamanna, þ.á.m. þýskra. Á sömu Ólympíuleikum lét yfirmaður Alþjóða Ólympíunefndarinnar, Henri Baillet-Latour, þau orð falla við Adolf Hitler að á meðan Ólympíufáninn blakti yfir þýskum leikvöngum þá tilheyri þeir ekki lengur Þýskalandi – heldur Ólympíu.

Í íþróttum, og sérstaklega á Ólympíuleikum, eru það íþróttamennirnir sem ráða. Vinátta þeirra og virðing hver fyrir öðrum ásamt heiðarlegri samkeppni koma vonandi alltaf til með að yfirvinna tilraunir almannatengslanna til þess að sigra heiminn. Og þótt hægt sé að setja á svið tilfinningaþrungin augnablik í skipulögðum seremóníum þá er hinu sönnu tilfinningar að finna inni á leikvellinum. Hin ósögðu orð sem hreyfa við heiminum í keppninni verða ekki til í hugskotum almannatengslafulltrúa. Hin dramatísku augnablik er ekki hægt að skipuleggja. Og engin leið er til þess að vita hver verður hetja dagsins, hvers lensk hún er eða af hvaða kynþætti.

Það er því óskandi að sannleikurinn og heiðarleikinn – jafnvel barnsleg einlægnin – fái notið sín. Að fólki fái, þótt ekki sé nema í tvær vikur á fjögurra ára fresti, að fá frí frá afbökuðum raunveruleikanum sem blasir daglega við. Og fá í staðinn ómengaðan draumaheim samstöðu og fordómaleysis. Og við getum leyft okkur að vona að einhvern tímann verði veruleikinn líkari draumaheiminum og draumaheimurinn veruleikanum.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.