Hann Ari er lítill

Það getur verið pínlegt að vera ungur en þó er reyndar sérstaklega pínlegt þegar foreldrar, frændfólk og aðrir taka það upp hjá sér að rifja upp hina margvíslegu fávisku og klaufaskap sem einkenna bernskuna. Þetta er þó mun þolanlegra en þegar mæður og ömmur þrástagast á því hvað maður var sætur og krúttlegur sem barn. Þó verður að viðurkennast að það versta sem fyrir nokkurn mann getur komið er að barnaskapur þeirra og krúttlegheit verði efni í skáldskap – og ekki batnar það ef við ljóðið er samið lag og lagið verði að klassískri vögguvísu.

Það getur verið pínlegt að vera ungur en þó er reyndar sérstaklega pínlegt þegar foreldrar, frændfólk og aðrir taka það upp hjá sér að rifja upp hina margvíslegu fávisku og klaufaskap sem einkenna bernskuna. Þetta er þó mun þolanlegra en þegar mæður og ömmur þrástagast á því hvað maður var sætur og krúttlegur sem barn. Þó verður að viðurkennast að það versta sem fyrir nokkurn mann getur komið er að barnaskapur þeirra og krúttlegheit verði efni í skáldskap – og ekki batnar það ef við ljóðið er samið lag og lagið verði að klassískri vögguvísu.

Í þessu lenti drengur nokkur að nafni Ari. Ekki nóg með að Ari væri lítill átta ára trítill, heldur er einnig tiltekið í ljóðinu að hann sé sætur, jafnvel þegar hann grætur. Að hugsa sér – ekki nóg með að Ari væri spurull og sætur heldur var hann grenjuskjóða líka. Það er því ekki furða að fórnarlamb Stefáns Jónssonar í umræddu ljóði hafi haldið kjafti um hinn bitra sannleika í 52 ár. En að lokum leysti hann frá skjóðunni í þætti á Rás 2. Ari er nú sextugur verkfræðingur og upplýsti í viðtali að Stefán Jónsson hafi verið kvæntur móðursystur sinni og því líklegt að verkfræðingurinn sé yrkisefnið. Reyndar vildi verkfræðingurinn ekkert kannast við að allar lýsingarnar í ljóðinu ættu við sig og þurfti ítrekað að sverja af sér að hafa sjálfur spurt spurt þeirra spurninga sem fram koma í vísunni.

Þeim, sem hlustuðu á viðtalið, ætti að hafa verið ljóst að Ara verkfræðingi fannst það í meira lagi óþægilegt að berskjalda sig svona gagnvart alþjóð, en spyrlinum að sama skapi skemmtilegt að sauma að honum. Eftir að Ari hafði margsinnis tuggið það ofan í spyrilinn að hann hafi bara alls ekkert spurt einn né neinn um það af hverju himinninn sé blár, af hverju afi væri svo feitur o.s.frv. klikkti spyrillinn út með því að spyrja verkfræðinginn hvort hann hefði komist að því á langri æfi af hverju himinninn væri blár. Ari verkfræðingur þurfti þá enn einu sinni að vísa frá sér að spurningin í ljóðinu væri frá honum komin en sagðist síðar á ævinni hafa komist að því af hverju himinninn sé blár, þótt það væri auðvitað ljóðinu óvikomandi.

Umsjónarmanni þáttarins fannst þetta allt svo sætt og skemmtilegt að hún mátti vart gleði sína hemja, enda ekki á hverjum degi sem bókmenntalegar uppgötvanir á borð við þessa eiga sér stað. Nú er það bara næsta spurning sem umsjónarmenn Spegilsins þurfa að svara: Hver er þessi Grettir Sig. í Guttavísum? – þið munið – Grettir Sig. og bara hlær.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.