Slæm stéttarvitund Baltasars

Sérstök ritdeila hefur verið háð á síðum Morgunblaðsins á síðustu dögum. Þar skiptast þeir á skoðunum hinn landsfrægi leikari og leikstjóri, Baltasar Kormákur, og einhver listaspíra sem heitir Hávar og vinnur á Mogganum.

Sérstök ritdeila hefur verið háð á síðum Morgunblaðsins á síðustu dögum. Þar skiptast þeir á skoðunum hinn landsfrægi leikari og leikstjóri, Baltasar Kormákur, og einhver listaspíra sem heitir Hávar og vinnur á Mogganum. Sá fyrrnefndi hefur verið, ásamt Magnúsi Geir Þórðarsyni, helsta driffjöður stóraukins áhuga Íslendinga á leiklist á síðasta áratug. Hann hefur staðið fyrir fjölmörgum leiksýningum og höfðað til breiðs hóps fólks sem aldei hefði annars stigið inn fyrir leikhúsdyrnar.

Hávar virðist þó ekki telja að þetta frumkvæði manna eins og Baltasar og Magnúsar Geirs sé sérstaklega af hinu góða. Í grein sinni þann 26. september gerir Hávar tilraun til þess hæðast að Baltasari Kormáki. Málið er nefnilega að Baltasar er víst enginn sérstakur leikhúsmaður af því hann setur á svið leikrit sem fólki finnst skemmtileg, fremur en leikrit sem fólki finnst leiðinleg. Slíkar sýningar eiga það til að laða að sér fólk sem hefur ekki vit á menningu – svona ómenningarlegu pakki sem ætti bara að vera heima hjá sér og horfa á Ally McBeal og hlusta á Britney Spears. Slíkt fólk á ekki heima í leikhúsum og að mati Hávars er það ömurlegt markmið leikhúss að bjóða fram hefðbundna afþreyingu fyrir „venjulegt“ fólk. Leikhús er fyrir elítuna sem hefur vit á leikhúsi og reyndar fyrst og fremst fyrir leikarana sjálfa og gagnrýnendur. Þess vegna gerir Hávar skýran greinarmun á því sem hann kallar markaðsleikhús og því sem hann kallar leikhús. Hann nefnir Flugfélagið Loft sem dæmi um markaðsleikhús og gefur því heldur bága einkunn. Í grein sinni segir Hávar m.a. um Leikfélagið Loft: „Þar var engin hugsjón, engin sannfæring, engin leit, ekkert af því sem gerir gott leikhús gott.“

Hávar hlýtur að hafa litið framhjá hugsjóninni um að færa leikhúsið nær fólki, sannæringunni um að allir ættu að geta notið leikhússins og hinni stöðugu leit eftir því að veita fólki þá menningarlegu afþreyingu sem það óskar eftir. Hann hlýtur að hafa verið að tala um leitina að listrænum óskiljanleika, sannfæringu um að leikhús hljóti að vera griðarstaður fámennrar menningarelítu og hugsjónina um að þannig skuli það vera. Hvort sem Hávar er líklegur til að gangast við því eða ekki þá skín óþolandi menningarhroki úr skrifum hans. Hann gerir sér enga grein fyrir því að fágaður smekkur hans á listum er ekkert annað en smekkur – og hans smekkur er ekkert merkilegri eða ómerkilegri en smekkur annarra. Honum finnst líklega að leikhúsgestir sem ekki hafa sökkt sér í fræðin eigi í raun alls ekkert heima í leikhúsi. Leikhús er leikvöllur hinna fáguðu, hinna upplýstu og hinna útvöldu. Þetta er þægilegur heimur fyrir hina ofurviðkvæmu stétt menningarelítuna sem kann best við sig í kokteilboðum með hinum skrautfuglunum og ljósmyndurunum frá Séð og heyrt.

Baltasar Kormák skortir því stéttarvitund. Hann neitar að vera dyravörður í þeim menningarsaumaklúbb sem leiklistarelítan vill eiga fyrir sjálfa sig. Metnaðarfullar sýningar á „háu listrænu plani“ eiga fullan rétt á sér. Það er hins vegar umhugsunarefni hvort ekki sé kominn tími til þess að láta markaðinn sjá um þessa þörf. Það er bara ekki á nokkurn hátt forsvaranlegt að skattgreiðendur séu neyddir til þess niðurgreiða leiðinleg leikrit en þrufi sjálfir að greiða fyrir þau skemmtilegu. Og það er ekki beint skemmtilegt heldur að verða sjálfkrafa bótaþegi við að hafa áhuga á menningu og listum.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.