Ef-in of mörg

Ólíklegt er að nokkurn tímann verði hægt að minnast Williams Jeffersons Clintons í embætti Bandaríkjaforseta öðruvísi en að viðtengingarháttur komi þar við sögu. Ef-in eru einhvern veginn of mörg til að hann geti talist í hópi merkustu forseta Bandaríkjanna.

Ólíklegt er að nokkurn tímann verði hægt að minnast Williams Jeffersons Clintons í embætti Bandaríkjaforseta öðruvísi en að viðtengingarháttur komi þar við sögu. Ef-in eru einhvern veginn of mörg til að hann geti talist í hópi merkustu forseta Bandaríkjanna. En hann er tvímælalaust einn litríkasti forsetinn og örugglega í hópi hinna útsmognustu. Clinton er til að mynda fyrsti forsetinn í sögu Bandaríkjanna sem skýtur flugskeytum að annarri þjóð í þeim tilgangi einum að beina sjónum almennings frá erfiðleikum í einkalífi sínu. Stuðningsmenn Clintons munu ávallt vísa til þess, að hann stýrði þjóðinni á einu mesta hagvaxtarskeiði í sögu hennar – og um það er í sjálfu sér ekki hægt að deila. En það er samt ekki nóg til að Clinton verði demókrötum nokkurn tímann það sem Ronald Reagan er repúblikönum. Ef-in eru einfaldlega of mörg.

Bill Clinton var kjörinn forseti með stuðningi 43% kjósenda í nóvember árið 1992. Hann sigraði sitjandi forseta, George Bush, sem örfáum mánuðum áður hafði haft yfirburði í öllum skoðanakönnunum. Sigur Clintons byggðist einkum á þremur þáttum: Í fyrsta lagi skipti framboð Ross Perots geysilegu máli en hann fékk 18% (sbr. 2% fylgi Ralph Nader, sem „eyðilagði“ kosningarnar fyrir demókrötum nú) og ætla má að Perot hafi einkum sótt fylgi sitt til hefðbundinna stuðningsmanna repúblikana. Í öðru lagi var ríkjandi stöðnun á yfirborðinu í bandarísku efnahagslífi, þótt síðar kæmi ljós að efnahagsuppsveiflunni var seinkað með of strangri vaxtastefnu á árunum 1990-1991. Síðast en ekki síst átti Clinton sigur sinn miklum persónutöfrum og pólitísku innsæi sínu og aðstoðarmanna sinna að þakka. Óhætt er að fullyrða að nýtt tímabil í sögu almannatengsla hafi hafist með Clinton-stjórninni. Með framúrskarandi skipulagi, snilld og ósvífni hefur Clinton og ráðgjöfum hans tekist að beita fyrir sig bandarískum fjölmiðlum – og í raun hinum vestræna fjölmiðlaheimi – með slíkum hætti að seint verður leikið eftir.

En byltingin étur börnin sín og Clinton fékk sjálfur verulega að kenna á mætti nútímafjölmiðlunar þegar Monicu-málið stóð sem hæst. Þá rötuðu orð eins og „munnmök“ meira að segja á síður virðulegra blaða á borð við Morgunblaðið og roskna lesendur rak í rogastans. En þeirri erfiðu stöðu tókst Clinton að snúa sér í vil og þeir sem töpuðu almannatengslannastríðinu voru á endanum repúblikanar. Því hefur réttilega verið haldið fram, að sú þolinmæði sem almenningur sýndi dómstólarembingi demókrata að loknum forsetakosningunum í nóvember sl. eigi rætur í framgöngu repúblikana í garð Clintons, eða alla vega hvernig sú framganga var borin á borð af fjölmiðlum.

Líkt og George W. Bush nú var Bill Clinton óskrifað blað í utanríkismálum er hann tók við embætti í janúar 1993. Hann sinnti þessum málaflokki þó í meira mæli en flestir forverar hans í embætti og varð sá Bandaríkjaforseti sem mest hefur verið á faraldsfæti sem slíkur. Stuðningsmenn Clintons vísa gjarnan í farsæla utanríkisstefnu þegar gagnrýni beinist að rýrri uppskeru í innanlandsmálum, þar sem Clinton lagði svo að segja ekkert af mörkum. Tvennt hefur Clinton lagt hvað mesta áherslu á; annars vegar að koma á friði á N-Írlandi og hins vegar að stilla til friðar milli Ísraela og Palestínumanna. Segja má að þetta hafi að nokkru leyti gengið upp á N-Írlandi en það sama verður ekki sagt um Palestínumálið. Þótt Clinton verði vissulega ekki kennt um hvernig mál hafa þróast þar, er þó hægt að velta því fyrir sér, hvort sú mikla pressa, að því er virtist í þeim tilgangi einum að ná einhvers konar samkomulagi fyrir embættislok Clintons, hafi stuðlað að friði – eða kannski þveröfugt? Aðilarnir í málinu hafa staðið í stríði í mörg þúsund ár og þeir verða að ná sáttum á sínum eigin forsendum. Vandamálið er of djúpstætt til að það megi „fixa“, eins og annað sem almannatengsladeild Clintons tekur sér fyrir hendur.

Þrátt fyrir það sem að ofan er sagt er viss eftirsjá í Clinton. Margvíslegan lærdóm má draga af stjórnunarháttum og þrátt fyrir allt þá er það skoðun DEIGLUNNAR, að Clinton sé í raun mannvinur og vel meinandi stjórnmálamaður. Metnaður hans er hins vegar yfirsterkari öllum öðrum gildum og það er kannski þess vegna sem honum tókst að sigla í gegnum úfinn sjó í embættistíð sinni.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.