Sögulegt bréf

Nokkuð merkilegur atburður í íslenskri réttarsögu varð í gær, þegar forseti Hæstaréttar svaraði bréfi forsætisnefndar Alþingis sem fól í sér í sér spurningu um inntak dóms réttarins í máli nr. 125/2000, s.k. Öryrkjamáli.

Nokkuð merkilegur atburður í íslenskri réttarsögu varð í gær, þegar forseti Hæstaréttar svaraði bréfi forsætisnefndar Alþingis sem fól í sér í sér spurningu um inntak dóms réttarins í máli nr. 125/2000, s.k. Öryrkjamáli. DEIGLAN var viðstödd umræður á Alþingi í gærkvöldi eftir að upplýst var um bréfaskiptin og óhætt er að segja, að þar hafi þung orð fallið. Í leiðara Morgunblaðsins í morgun er tekin sú afstaða til bréfaskiptanna, að mestu máli skipti efnisinnihald bréfsins sem taki í raun af öll tvímæli um að ekki sé óheimilt að skerða tekjutryggingu öryrkja vegna tekna maka. Þetta er vissulega skynsamleg afstaða í þessu máli en bréfaskiptin hafa væntanlega nokkuð víðtækari þýðingu hvað varðar íslenskt réttarfar almennt.

Það er ein grundvallarregla íslensks réttarfars að dómstólar verða ekki krafðir úrlausnar um lögfræðilegt álitaefni, nema fyrir liggi skýrt afmörkuð krafa í dómsmáli. Í reglunni felst að aðili getur ekki „tékkað á því“ hjá dómstólum hvort þetta eða hitt samræmist lögum eða ekki. Hann verður að höfða mál til að dómstólar taki afstöðu til álitaefnisins og í málinu verður hann að gera skýra og afmarkaða kröfu, ellegar kann máli að verða vísað frá. Spurningin í þessu máli er kannski þessi: Fellur það undir þessa meginreglu þegar talsmaður Hæstaréttar er beðinn um að skýra hvað í tilteknum dómi réttarins felst? Mikilvægt er að hafa hugfast, að forseti Hæstaréttar hafði samráð við aðra hæstaréttardómara áður en hann svaraði bréfinu, eins og fram kemur í viðtali við forseta réttarins í Morgunblaðinu í dag. Það þýðir að þótt hann skrifi einn undir bréfið, gerir hann það sem talsmaður Hæstaréttar, og bréfið inniheldur því niðurstöðu réttarins í heild.

Einnig verður að hafa í huga að mál þetta hefur valdið miklu írafári í fjölmiðlum og kröfur hafa komið fram um aðgerðir sem, ef framkvæmdar yrðu, gætu valdið stjórnarfarslegu uppnámi. Allt hefur það grundvallast á því, að ríkisstjórnin væri vitandi vits að setja lög sem brytu í bága við stjórnarskránna, eða í öllu falli dómsniðurstöðu Hæstaréttar í máli 125/2000. Nú hefur komið í ljós að málflutningur stjórnarandstöðunnar og forvígismanna ÖBÍ er úr lausu lofti gripinn. Bréf Hæstaréttar til forsætisnefndar Alþingis í gær staðfestir í raun, að sá skilningur sem ráðamenn lögðu í áðurnefndan dóm Hæstaréttar er í meginatriðum réttur. Það er það sem öllu máli skiptir hvað varðar þetta mikla hitamál.

Hitt er einfaldlega hitamál af öðrum toga, og í sjálfu sér óskylt umræddu öryrkjamáli, hvort bréfaskipti forseta Hæstaréttar og forsætisnefndar Alþingis brjóta í bága við meginreglur íslensks réttarfars. Að því leyti verður fróðlegt að fylgjast með umræðum um það mál, sem vonandi fara fram af meiri skynsemi, yfirvegun og viti en raunin var um öryrkjamálið.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.