deCode á uppleið

Gengi deCode Genetics Inc., móðurfyrirtækis Íslenskrar erfðagreiningar, hefur verið á uppleið síðustu daga eftir að samstarfsaðili ÍE, Hofmann-LaRoche, hóf þróun nýrra greiningar- og meðferðarúrræða, sem byggð er á uppgötvunum ÍE í erfðafræði geðklofa og útæðasjúkdóms.

Gengi deCode Genetics Inc., móðurfyrirtækis Íslenskrar erfðagreiningar, hefur verið á uppleið síðustu daga eftir að samstarfsaðili ÍE, Hofmann-LaRoche, hóf þróun nýrra greiningar- og meðferðarúrræða, sem byggð er á uppgötvunum ÍE í erfðafræði geðklofa og útæðasjúkdóms. Þetta er fagnaðarefni fyrir stjórnendur fyrirtækisins og hluthafa þess og um leið vitnisburður um getu og framtíðarmöguleika fyrirtækisins. Þótt ólíklegt sé að gengi hlutabréf í deCode rjúki umsvifalaust upp í þær hæðir sem það var í á gráa markaðnum hér heima áður en bréfin voru skráð á Nasdaq, er Íslensk erfðagreining smám saman að festa sig í sessi sem traust og vel rekið fyrirtæki með mikla möguleika.

Mitt í öllu gróðabraski spákaupmennskunnar gleyma menn því oft, að traustur rekstur er undirstaða hlutabréfaverðs og þar duga ekki væntingarnar einar saman. Mörg fyrirtæki um heim allan hafa farið og eru að fara flatt á því, að ekki var innistæða fyrir öllum væntingunum og fjárfestingarnar reyndust á sandi reistar. Skýrt dæmi um þetta eru hin svokölluðu dottkom fyrirtæki. Öfugt við þessi fyrirtæki hefur Íslensk erfðagreining frá stofnun staðist í grófum dráttum þær væntingar sem gerðar voru til fyrirtækisins.

Verðlagning hlutabréfa á gráa markaðinum hér heima var auðvitað út í hött og í því efni er ekki við stjórnendur ÍE að sakast. Lækkun bréfanna hefur reynst mörgum þungbær en inn í hana spilar stærri sveifla í gengi líftæknifyrirtækja almennt. Þeir sem nú þegar hafa tapað miklum peningum á fjárfestinum í deCode geta engum öðrum en sjálfum sér kennt um. Þeir ætluðu að hagnast í skyndi og því fylgir alltaf áhætta. Hlutabréf eru langtímafjárfesting og ekki er viturlegt að selja þakið ofan af höfðinu á sér í skammsýnni gróðavon. Það er vissulega hægt að hafa samúð með þeim sem þannig er fyrirkomið um, en þeir geta með engu móti kennt öðrum um ófarir sínar, allra síst stjórnendum ÍE.

Í 1. tbl. 1. árgangs DEIGLUNNAR var fjallað um samning Íslenskrar erfðagreiningar við Roche-risann. Þar sagði m.a.: „Kári Stefánsson og félagar hjá Íslenskri erfðagreiningu hafa tekið stökk inn í framtíðina og menn munu í framtíðinni líta til gærdagsins, 2. febrúar 1998, sem dagsins þegar íslenska þjóðin hélt á vit nýrrar aldar.“ Þessi orð eru enn í fullu gildi.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.