Að sem fæstir kjósi

Eftir eina viku munu stúdentar við Háskóla Íslands ganga til atkvæða og velja sér forystumenn. Röskva, sem samanstendur af félagshyggjufólki við HÍ, hefur setið við völd síðan Rocky-myndirnar voru nýjasta æðið.

Eftir eina viku munu stúdentar við Háskóla Íslands ganga til atkvæða og velja sér forystumenn. Röskva, sem samanstendur af félagshyggjufólki við HÍ, hefur setið við völd síðan Rocky-myndirnar voru nýjasta æðið. Síðustu ár hefur umboð Röskvu veikst jafnt og þétt og nú er svo komið, að hreyfingin situr við völd í skjóli um fimmtungs háskólanema. Lítil kjörsókn hefur komið Röskvu til góða, því kannanir hafa eindregið bent til þess, að mikill meirihluti háskólanema sé lítt hallur undir félagshyggju. Að frumkvæði lýðræðissinnaðra stúdenta, sem mynda Vöku, hefur ýmsu verið komið til leiðar að undanförnu, sem er til þess fallið, að auka kjörsókn. Með aukinni kjörsókn aukast líkurnar á því, að niðurstaða kosninganna endurspegli vilja stúdenta í heild með lýðræðislegum hætti.

Valdhafarnir í Röskvu hafa ítrekað spyrnt fótunum við þessum tilraunum Vöku. Það hlýtur að bera vott um nokkurn ótta þeirra um almennt fylgi Röskvu meðal háskólanema, að þeir telji meiri kjösókn en minni sér í óhag. Vaka lagði til að kjördagar yrðu tveir í stað eins og eftir mikið jaml, japp og fuður sáu forystumenn Röskvu sig tilneydda til að fallast á tillöguna. Þeir vildu vitaskuld ekki falla í þá gryfju, að útmála sig sem andstæðinga hinnar lýðræðislegu aðferðar. En það verður æ ljósara, að í þessari gryfju sitja þeir eins og púkinn á fjósbitanum. Tilvist Röskvu á valdastóli stendur og fellur með því, að sem fæstir taki þátt í kosningum til stúdentaráðs. Á meðan svo er mun Röskvu halda áfram, a.m.k. á borði, að berjast fyrir því, að kosningatilhögun verði með þeim hætti, að þeim nægi fulltingi um fimmtungs háskólanema til að halda völdum í stúdentaráði.

Það er líka nokkuð kyndugt að Röskva skuli beita sér með þessum hætti í háskólanum, á meðan móðurskipið – Samfylkingin – heldur hverja fundaröðina á fætur annarri um „virkt lýðræði“ eða „lýðræði í reynd“. Er lýðræðishjalið í Samfylkingunni bara hjóm eitt, eða er ungliðahreyfing Samfylkingarinnar í háskólanum, Röskva, að hlaupast undan merkjum? Ekki er víst að varaþingmaður Samfylkingarinnar á Vesturlandi, Eiríkur Jónsson, sem jafnframt er formaður stúdentaráðs, geti haldið báðum þessum merkjum á lofti í einu, þótt honum sé vissulega margt til lista lagt.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.