Forsetakosningar í Rússlandi

Síðustu vikur hefur forval forsetakosninga Bandaríkjunum vakið mikla athygli enda líkur á því að hart verði tekist á á milli frambjóðenda demókrata, John Kerry’s og núverandi forseta George W. Bush. Aðrar kosningar í öðru risaveldi hafa vakið minni athygli heimspressunnar þó nú séu aðeins 3 dagar þangað til að Rússum býðst að ganga að kjörborðinu.

Síðustu vikur hefur forval forsetakosninga í Bandaríkjunum vakið mikla athygli enda líkur á því að hart verði tekist á á milli frambjóðenda demókrata, John Kerry’s og núverandi forseta George W. Bush. Aðrar kosningar í öðru risaveldi hafa vakið minni athygli heimspressunnar þó nú séu aðeins 3 dagar þangað til að Rússum býðst að ganga að kjörborðinu.

Samkvæmt skoðanakönnunum í Rússlandi er fátt sem getur komið í veg fyrir að Pútin haldi völdum þar sem hann mælist nú með um 80% fylgi. Hafa því margir af andstæðingum hans dregið sig út úr baráttunni, þar á meðal Genady Zyuganov, leiðtogi kommúnistaflokksins og þjóðernissinninn og Íslandsvinurinn Vladímír Zhírínovskí. Því er þess ekki að vænta að Íslendingar þiggi laun fyrir að hýsa fanga á næstunni… . Eina sem gæti komið í veg fyrir sigur Pútins er almennt áhugaleysi almennings í Rússlandi sem er fylgifiskur lítillar samkeppni kosninganna. Kjörsókn þarf að fara yfir 50% sem er lágmark löglegra kosninga. Þó er ólíklegt er að stjórnin í Kreml láti hanka sig á slíku og hvetur því fólk til að kjósa með öllum tiltækum ráðum s.s. með auglýsingum, happdrættum og hugmyndasamkeppnum.

Heitustu málefni rússneskra stjórnmála um þessar mundir snúa að afstöðu til frjálsra viðskipta og ríkisafskipta, sérstaklega í tengslum við olíuútflutning sem á undanförnum árum hefur getið af sér nokkra af ríkustu kaupsýslumönnum heims. Hefur Pútin viljað ná stærri hluta af afkomu náttúruauðlinda til ríkisins og koma þannig í veg fyrir miklir fjármunir séu fluttir úr landi. Virðist stefnan falla í ljúfan jarðveg á meðal almennings, sem almennt býr við bág kjör, og hefur hún skapað honum afgerandi stöðu í rússneskum stjórnmálum.

Pútin hefur þó jafnframt verið harðlega gagnrýndur, bæði innanlands og alþjóðlega. Hefur hann verið sakaður um að draga úr trausti fjárfesta til stjórnmálalegs ástands í Rússlandi, hægja á þróun í lýðræðisátt og koma í veg fyrir ábata frjáls markaðskerfis. Segja má að steininn hafi tekið úr þegar Mikahail Khodorkovsky, ríkasti maður Rússlands og einn af helstu gagnrýnendum ríkisstjórnar Pútins, var handtekinn síðasta haust.

Pútin gekk þó skrefi lengra nú í lok febrúar og nýtti heimild forseta í stjórnarskrá landsins til að leysa forsetisráðherra landsins, Mikhaíl Kasjanov, frá störfum. Kasjanov, sem upphaflega var skipaður í ríkisstjórn af Boris Jeltsín, hafði hann nokkru áður lýst yfir óánægju sinni með handtöku auðjöfursins Khodorkovsky. Tók Pútin fram að hann væri þannig séð ekki óánægður með störf ríkisstjórnarinnar en Rússar ættu heimtingu á að vita hverjir myndu sitja í ríkisstjórn hans eftir kosningar 14. mars.

Fyrst og fremst er þó talið að skilaboðin hafi verið ætluð pólitískum andstæðingum um að Pútinn sæti einn að kjötkötlunum.

Nú í síðustu viku réð Pútin síðan Mikael Fradkov í stöðu forsætisráðherra en hann er af flestum er talinn dyggur stuðningsmaður forsetans og ekki líklegur til að rugga bátnum. Er honum lýst sem hógværum “já-manni” með takmarkaðan metnað sem á án efa eftir að styðja forsetann í deilunni um afskipti ríkissins af olíuviðskiptunum. Þess ber þó að geta að Pútín sjálfum var lýst með svipuðum hætti þegar hann tók fyrst við stöðu forsætisráðherra í stjórn Borisar Jeltsín fyrir fimm árum.

Þó að margt hafi þokað lýðræðisátt á síðustu áratugum í Rússlandi hafa valdahafar í Kreml ítrekað sýnt að enn hefur forræðishyggjan sterk íttök í landinu og gildi lýðræðis má sín lítils þegar á hólminn er komið. Dæmi um það eru kosningar í Tsjetsjeníu síðast haust þar sem rússneskir hermenn tóku fullan þátt í kosningum um samband ríkissins við stjórnina í Moskvu. Eins má nefna sterk íttök Pútins í ríkisfjölmiðlum, sem hann nýtir óspart nú aðdraganda kosninganna.

Góð þátttaka í kosningum og afgerandi sigur Pútin í kosningunum 14. mars á eftir að auka völd hans enn frekar sem varla getur talist æskilegt. Þó að kosningarnar sjálfar geti ekki talist spennandi er vert að veita þessari þróun athygli þar sem margt bendir til að rússnesk stjórnmál stefnu að fyrri stjórnarháttum og fjær því sem við þekkjum í stjórnarfari vesturveldanna.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.