Neysla slikks veldur offitu, jafnvel dauða

Bresk stjórnvöld íhuga nú að leggja sérstakan „fituskatt” á óhollan mat til þess að bregðast við vaxandi offituvandamáli hjá þjóðinni. Hugmyndir hafa verið settar fram um að merkja matvörur á þann hátt að ekki fari á milli mála hvaða matur sé óhollur og hver ekki. Sérstaklega eru hér hafðar í huga neysluvörur á borð við hamborgara, kartöfluflögur og gosdrykki.

Bresk stjórnvöld íhuga nú að leggja sérstakan „fituskatt” á óhollan mat til þess að bregðast við vaxandi offituvandamáli hjá þjóðinni. Hugmyndir hafa verið settar fram um að merkja matvörur á þann hátt að ekki fari á milli mála hvaða matur sé óhollur og hver ekki. Sérstaklega eru hér hafðar í huga neysluvörur á borð við hamborgara, kartöfluflögur og gosdrykki.

Við fyrstu sýn eru þessar hugmyndir ef til vill ekki svo galnar. Það liggur fyrir að vestrænar þjóðir heims fitna sífellt og lifa munaðarlífi, meðal annars hafa skammtar sífellt verið að stækka á skyndibitastöðum „samkvæmt kröfum markaðarins” eins og eigendur þeirra staða halda fram. Má í þessu sambandi nefna skýrslu sem nýverið var birt í Bandaríkjunum og leiddi í ljós að um 75 milljarðar dollara á ári fara í offituvandann, meðal annars er helmingur þess fé greitt með skattpeningum almennings. Þetta er víst álíka há upphæð og sú sem þarf til vegna sjúkdóma sem hljótast af reykingum í Bandaríkjunum. Vandinn er sem sagt sambærilegur, að minnsta kosti í krónum talið.

Menn sjá þetta þá í hendi sér. Við höfum jú Tóbaksvarnarráð…

Og af hverju ekki að ganga næsta skref: Sérstakur skattur á óholla matvöru, sem og sérstakar merkingar, sem gefa til kynna að neysluvaran sé óheilsusamleg. Það mætti til dæmis skylda framleiðendur til þess að hafa hvítan texta á svörtum grunni, sem þekur 1/3 af umbúðum vörunnar. Á Mars-súkkulaðinu gæti staðið: „Neysla veldur offitu, jafnvel dauða.”

Þjóðhagslegur ávinningur er augljós, rekstrarvandi heilbrigðiskerfisins minnkar, fólk lifir lengur og getur eitthvað í íþróttum. Allt yrði merkt nema grænmetisbarinn og kannski kjúklingar og fiskur.

Sanngjarnara væri þó, til þess að þeir sem eru að auka kostnaðinn beri hann sjálfir, að hafa ríkisfitumælingar árlega, þannig að skattprósenta einstaklinga, og þar með framlög til heilbrigðiskerfisins, hækki í réttu hlutfalli við fituprósentu. Væri það ekki upplagt?

Það er æskilegt að allir lifi heilsusamlegu lífi – burt með sígarettur og óhollan mat – erum við samt ekki að gleyma áfenginu? Þarf ekki að fara að banna það, að minnsta kosti eru merkingar bráðnauðsynlegar!

Löngu er orðið ljóst að offita er vandamál, en er ekki best að láta hvern um sig vinna úr sínum vandamálum, fremur en að löglegar neysluvörur séu skattlagðar og merktar sérstaklega svo ljóst sé að þær séu ekki æskilegar til manneldis. Ef fólk vill borða á sig gat og ferðast milli staða í hjólbörum, þá er það þeirra mál. Þetta vandamál, eins og mörg önnur, er ekki æskilegt að leysa með miðstýrðum aðgerðum.

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)