Breytingar á stjórnarskrá Íslands hafa komið til tals að undanförnu. Hafa þær hugmyndir einkum snúist um hlutverk Forsetans og skemmtanafrelsi. Hins vegar hefur ekki komið til tals að undanförnu að bæta við tveimur ákvæðum sem hafa yfir sér alþjóðlegt yfirbragð og löngu er tímabært að bæta við. Fyrra ákvæðið er um beinar heimildir til framsals ríkisvalds við gerð þjóðréttarsamninga og hið síðara um skerðingu mannréttinda á hættutímum.
Stjórnarskráin er æðsta réttarheimild íslensks réttar. Hún trompar allar aðrar réttarheimildir t.d. sett lög frá Alþingi. Erfiðara er að breyta henni heldur en almennum lögum. Ef tillaga til breytingar á henni nær fram að ganga skal rjúfa þing þá þegar og boða til kosninga. Ef næsta þing staðfestir tillöguna óbreytta öðlast hún gildi. Stjórnarskrárgjafinn er því tvö þing. Af ofangreindum orsökum er ljóst að menn eru ekkert að breyta stjórnarskránni að gamni sínu. Þær reglur sem settar eru í hana eru hugsaðar til langframa. Stjórnarskráin er því augljóslega ekki ætluð undir stundarflipp og glens ráðamanna.
Alþjóðalög hafa verið að blása út í alþjóðlegri heimi enda eiga lögin að endurspegla raunveruleikann. Alþjóðleg samvinna verður sífellt viðameiri, fólk ferðast meira á milli ríkja, viðskipti milli ríkja verða sífellt meiri, alþjóðlegum stofnunum fer sífellt fjölgandi o.s.frv. Alþjóðlegar stofnanir hafa fengið æ meiri völd, sumar jafnvel yfirþjóðlegt vald t.d. ESB.
Íslenska ríkið aðhyllist svokallaða tvíeðliskenningu þ.e. að landsréttur sé eitt og alþjóðalög annað. Til að alþjóðalög hafa eitthvert vægi í landsrétti þarf að innleiða þau, þ.e. þýða þau á íslensku og gera að lögum, hvort sem er að heildstæðum lagabálki líkt og gert var við Mannréttindasáttmála Evrópu eða setja ákvæði inn í lagabálka. Önnur kenning nefnist eineðliskenningin. Sú kenning gengur út á að alþjóðalög og landsréttur séu eitt. Hollenska ríkið aðhyllist hana t.a.m.
21. gr. stjórnarskrárinnar er í samræmi við tvíeðiskenninguna en þar segir: „Forseti lýðveldisins [utanríkisráðherra] gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.“
Í íslensku stjórnarskránni er hins vegar ekkert ákvæði um beina heimild til framsals ríkisvalds til erlendra eða alþjóðlegra aðila eins og er í stjórnarskrám nágrannaríkja okkar sbr. 33. gr. finnsku stjórnarskrárinnar, 93. gr. norsku grunnlaganna, 5. gr. 10. kafla sænsku stjórnarskrárinnar. Ákvæði þessi fjalla um það þegar ríkið lætur einhvern annan aðila hafa völd, t.d. löggjafarvald, sem síðan sá aðili notar og getur knúið framseljandann til að fara eftir. Samkvæmt þessum ákvæðum þarf mikill meirihluti þingheims að samþykkja framsal ríkisvaldsins. Fyrrnefnd ákvæði komu inn í stjórnarskrá frændþjóða okkar löngu áður en þarlendir ráðamenn fóru að huga að inngöngu í ESB.
Íslenska ríkið hefur oft á tíðum framselt talsvert ríkisvald til alþjóðlegra aðila, t.a.m. Sameinuðu Þjóðanna en skv. 25. gr. stofnsamnings Sameinuðu þjóðanna verða aðildarríkin að fara eftir ákvörðun Öryggisráðsins. EES samningurinn var mikið hitamál m.a. hvort að aðild Íslands færi í bága við 2. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um þrígreiningu ríkisvaldsins. Við fullgildingu EES-samningsins hjá fyrrnefndum frændþjóðum voru fyrrnefnd stjórnarskrárákvæði nýtt. Af einhverjum ástæðum töldu íslensk stjórnvöld og flestir ráðgjafar íslensku ríkisstjórnarinnar samninginn standast 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þó heyrðust aðrar raddir.
Hugmynd þessi að stjórnarskrárbreytingu felur ekki í sér fullveldisskerðingu heldur felur hún í sér umhyggja fyrir fullveldinu. Í dag getur einfaldur meirihluti þingmanna framselt ríkisvaldið hingað og þangað. Yrði það torveldað með þessari breytingu.
Nauðsynlegt getur verið að skerða mannréttindi á hættutímum, t.d. skerðing á tjáningarfrelsi fjölmiðla sökum öryggissjónarmiða. Slík ákvæði eru í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum t.a.m. 15. gr. Mannréttindassáttmála Evrópu og 4. gr. Alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar er ekkert slíkt ákvæði. Eins og áður segir er stjórnarskrárin æðsta réttarheimild íslensks réttar. Geta því aðrar réttarheimildir ekki skert hana, þ.a.l. geta þessir samningar ekki skert þau réttindi sem getið er um í stjórnarskránni. Til stóð að setja ákvæði um skerðingu mannréttinda í íslensku stjórnarskránna við síðustu breytingu á henni en úr því varð ekki. T.a.m. beitti Íslandsdeild Amnesty International sér einhverja hluta vegna gegn slíku ákvæði.
Í íslenskum stjórnskipunarrétti er til svokallaður stjórnskipulegur neyðarréttur sem hægt er að grípa til þegar ríkið er að fara fjandans til. Felur þetta óljósa hugtak í sér m.a. skerðingu á mannréttindum. Ófært er að línur séu óskýrar í íslensku stjórnarskránni hvaða mannréttindi má skerða á hættutímum og hver ekki. Grundvallarreglur ríkja verða að vera skýrar sérstaklega þær reglur sem lúta að grunnréttindum borgaranna. Því hlýtur að teljast nauðsynlegt að festa ákvæði um skerðingu mannréttinda á hættutímum í stjórnarskránna. Líklegt er að fyrrnefnd ákvæði fyrrnefndra alþjóðasáttmála verði höfð að leiðarljósi. Sem dæmi þá segir í 15. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu:
2. Ákvæði þetta skal þó í engu rýra gildi 2. gr.(Rétturinn til lífs), nema þegar mannslát verða vegna löglegra hernaðaraðgerða, né heldur gildi 3. gr. (Bann við pyndingum), 4. gr. (1. mgr.) (Bann við þrældómi og þrælkun) og 7. gr.( Engin refsing án laga)
3. Hver sá samningsaðili, sem neytir þessa réttar til undansláttar, skal láta aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðs í té fulla vitneskju um þær ráðstafanir sem tekið hefur verið til svo og ástæður þeirra. Einnig skal hann tilkynna aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðs um það þegar beitingu slíkra ráðstafana linnir og ákvæðum samningsins er á ný framfylgt að fullu.
Hægt er að færa rök fyrir því að slíkt ákvæði í stjórnarskránni myndi auka mannréttindi þegnanna, þ.e. skýra óskýrar línur. Slíkt ákvæði myndi leiða til þess að ráðamenn geta ekki boycutað öll mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, pyntað og líflátið þegnanna án dóms og laga.
Ef til vill kann sumum að finnast að þetta ákvæði sé gjörsamlega óþarft. Það sé ekkert í náinni framtíð sem bendi til þess að allt fari fjandans til. Þeim er hægt að svara þannig, eins og hefur komið fram áður, að stjórnarskráin er hugsuð sem grundvallarplagg til langframa. Enginn veit sína ævi fyrr en öll er, hvað þá þjóðríki.
- Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? - 24. mars 2010
- …að vera eða vera ekki herloftfar… - 23. mars 2010
- Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ - 19. maí 2009