Er Giuliani spaðaásinn?

giuliani.jpgAthygli manna beinist nú í ríkari mæli að forsetakosningunum sem fram fara í Bandaríkjunum næstkomandi haust. Reyndar eru forsetakosningar hér á landi í millitíðinni og þó svo að hvorki George Bush né John Kerry séu sérstaklega tilkomumiklir stjórnmálamenn, þá hafa þeir engu að síður vinninginn fram yfir Ólaf Ragnar Grímsson og Ástþór Magnússon.

Rudolph Giuliani: Hægrimaður með „vinstrikjörþokka“?

Athygli manna beinist nú í ríkari mæli að forsetakosningunum sem fram fara í Bandaríkjunum næstkomandi haust. Reyndar eru forsetakosningar hér á landi í millitíðinni og þó svo að hvorki George W. Bush né John Kerry séu sérstaklega tilkomumiklir stjórnmálamenn, þá hafa þeir engu að síður vinninginn fram yfir þá kumpána Ólaf Ragnar Grímsson og Ástþór Magnússon.

Í skoðanakönnunum vestanhafs mælist Kerry nú með afgerandi forskot á Bush og svo virðist sem sá fyrrnefndi eigi raunhæfa möguleika á forsetaembættinu. Ekki verður þó séð að Bush sé beinlínis óvinsæll því hann er í hópi þeirra Bandaríkjaforseta sem njóta vinsælda hjá yfir helmingi kjósenda á síðasta ári kjörtímabilsins – og engum þeirra hefur mistekist að ná endurkjöri.

Kerry hefur eðlilega verið mjög mikið í sviðsljósinu síðustu vikur vegna forkosninga demókrata. Í erindi sínu á fundi félags stjórnmálafræðinema sl. mánudag benti Jake Siwert á að framundan væri hugsanlega erfiðasti tíminn í kosningabaráttu Kerrys, en Siewert þessi var í starfsliði Clintons í Hvíta húsinu frá 1996 og er að eigin sögn náinn ráðgjafi Kerrys.

Það sem Siewert átti við með þessu er að Bush hefur yfirburðastöðu sem forseti gagnvart mótframbjóðenda sínum. Hann hefur stöðu til að láta góð verk tala, hann getur verið stöðugt í fjölmiðlum með því einu að ganga út lóð Hvíta hússins og segja nokkur orð, og hann er í þeirri stöðu að leiða landið ef einhver áföll dynja yfir, svo sem hryðjuverkaárás. Auk þess er Kerry nú auralaus eftir dýrar forkosningar en sjóðir forsetans barmafullir af skotsilfri.

Kerry á því á hættu að týnast hreinlega á næstu vikum og mánuðum, hann á ennfremur á hættu að sæta hörðum árásum andstæðinga sinna og taldi Siewert að repúblikanar myndu verja miklum fjármunum á næstu vikum til að ráðast gegn trúverðugleika Kerrys.

Það sem á hinn bóginn kann að ráða úrslitum í kosningunum í nóvember er val frambjóðendanna á varaforsetaefni. Fátt bendir til að Dick Cheney verði áfram varaforsetaefni Bush enda ýmis óþægileg mál að dúkka upp í tengslum við Cheney, svo sem fáheyrður gróði fyrirtækis, sem hann stýrði fyrir stuttu, vegna framkvæmda í Írak. Segja má að ætlunarverki Cheneys sem varaforseta sé lokið með þeim árangri sem að var stefnt.

Mjög líklegt þykir að Kerry velji einn af keppinautum sínum úr forkosningum demókrata og af þeim er John Edwards talinn líklegastur. Hann væri góður kostur fyrir Kerry sem þarf nauðsynlegt að efla sig í Suðurríkjunum, en Kerry er „yankee“ í orðsins fyllstu merkingu, hvítur yfirstéttarmaður frá Nýja-Englandi. Edwards er hins vegar „self-made“ milljarðamæringur úr suðrinu og höfðar í málflutningi sínum mjög til þeirra efnaminni.

Hins vegar er alls óvíst að Edwards hafi nokkurn áhuga á því að fara fram með Kerry. Hann kann að hugsa sér gott glóðarinnar ef Kerry tapar fyrir Bush, því Edwards er ungur að árum og gæti komið sterkur inn í kosningabaráttunni 2008. Fari hann hins vegar fram með Kerry nú og tapar, bíða hans líklega sömu ömurlegu örlög og Joe Lieberman hefur nú mátt þola.

En hver verður varaforsetaefni forsetans? Nafn Condolezzu Rice hefur ítrekað verið nefnt, enda myndi tiltölulega ung blökkukona í embætti varaforseta marka þáttaskil í bandarískri stjórnmálasögu. Rice er góður og gegn repúblikani og þykir hörð í horn að taka. Hún þykir hins vegar ekki hafa vaxið af störfum sínum og blettur Íraksstríðsins situr einna mest á henni af öllum samstarfsmönnum Bush, hvort sem það er verðskuldað eða ekki.

En Bush á spil uppi í erminni – spáðaásinn. Ef honum tækist að sannfæra Rudolph Giuliani, fyrrum borgarstjóra New York, að veita sér liðsinni sem varaforsetaefni gæti það skipt sköpum í kosningabaráttunni í haust. Giuliani er repúblikani sem nýtur fádæma vinsælda í New York og höfðar til fólks í öllum stéttum og af hvaða uppruna sem er. Hann er eiginlega steríótýpan af því sem stundum er kallað „hægrimaður með vinstrikjörþokka“. Með Giuliani sér við hlið gæti Bush hugsanlega unnið einhvern af stórum pottunum, þéttbýlisríkjunum New York eða Kaliforníu. Ólíklegt er talið að dreifbýlisríkin, hin trúðu ríki svokölluðu, hverfi frá stuðningi sínum forsetann. Með því að vinna í New York og fá allan þann fjölda kjörmanna sem stórborgin gefur, myndi Bush að öllum líkindum gersigra Kerry.

Stóra spurningin er hins vegar þessi: Hefur Giuliani einhvern áhuga á því að fara fram með Bush? Væri ekki hyggilegra fyrir Giuliani að bíða til 2008 og taka titilinn sjálfur?

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.