Being Júlíus Hafstein

sdfdÉg ætla að biðja lesendur um að leggja frá sér skriffæri, taka sér góða stöðu og koma með pistlahöfundi í stutt ferðalag um ankanaleg hugarfylgsni: Ímyndið ykkur í skamma stund að þið séuð stödd í heiladinglinum á Júlíusi Hafstein, skipuleggjanda Heimastjórnarafmælisins…

Ég ætla að biðja lesendur um að leggja frá sér skriffæri, taka sér góða stöðu og koma með pistlahöfundi í stutt ferðalag um ankanaleg hugarfylgsni: Ímyndið ykkur í skamma stund að þið séuð stödd í heiladinglinum á Júlíusi Hafstein, skipuleggjanda Heimastjórnarafmælisins. Sökum þessa, sjáið þið heiminn með augum Júlíusar (ykkar). Í fyrsta þætti grípum við niður á skrifstofu Júlíusar, þar sem Júlíus (þið), er í þann mund að leggja lokahönd á gátlista fyrir Heimastjórnarafmælið:

Gátlisti

1. Ráða Gísla Martein sem kynni, hann er alltaf svo hress og skemmtilegur.

2. Ráða Rúnar Frey, því ljóðalestur í beinni er svo (drepleiðinlegur) skemmtilegur.

3. Ráða Ólaf Teit sem þul.

4. Ráða Börk Gunnarsson sem leikstjóra heimildarmyndarinnar.

5. Ráða Hannes Hólmstein sem viðmælanda.

6. Fá Hannes til að fá mig til að ráða Börk svo Gísli geti kynnt Ólaf Teit fyrir Rúnari.

(Úff, kaffipása …)

Júlíus (þið): — „Tja, svei mér þá, lagsmaður — ég held þetta sé nú bara efni í vel heppnað gigg hjá okkur piltunum!“ – segir Júlíus og klappar sjálfum sér á bakið um leið og hann fær sér molasopa…

Lesendum Deiglunnar er núna óhætt að stíga út úr heiladingli Júlíusar, láta sem ekkert hafi í skorist og halda áfram að lesa pistilinn. Gott og vel, hátíðardagskráin var nú ekki beysin og mjög umdeilanlegt hvort viðlíka persónudýrkun á Hannesi Hafstein er smekkleg, en óumdeilt er að framkvæmdin var stórslys. En hvernig í guðsgaggandi ósköpunum fékk einhver þá hugmynd að sennilega væri hægt að redda gigginu fyrir horn — svo lengi sem Júlíus Hafstein væri fenginn til að skipuleggja það?

Í raun eru bara tveir kostir í stöðunni og annar þeirra er frekar glataður. Þannig kemur til greina að Júlíus hafi verið valinn af handahófi, á sama máta og Gísli Marteinn Hannesson, Rúnar Freyr Hannesson, Ólafur Teitur Hannesson og Börkur Hannesson voru valdir af handahófi. Líklegra er samt að menn í stjórnsýslunni hafi lesið yfir ferilskrá Júlíusar og komist að þeirri niðurstöðu að hann væri vanur að plana pottþétt partý. Ég vildi gjarnan koma höndum yfir gleraugun sem brúkuð voru við þann yfirlestur — enda í samanburði við slík gleraugu gefur svartur afgan mjög takmarkaða veruleikafirru!

En hvað var það nákvæmlega sem fékk menn til að ráða Júlíus Hafstein? Var það vegna þess að Kristnihátíð tókst svo vel? Var það vegna þess að undir styrkri forystu hans náðu íslendingar svo góðum árangri á Ólympíuleikunum í Atlanta 1996? Eða var það kannski vegna þess að áætlun Júlíusar, um framgang menningartengdrar ferðaþjónustu, hafi vakið svona stormandi lukku? Tja, persónulega fannst mér frekar pirrandi þegar Vernharð Þorleifsson tapaði uppreisnarglímu í 1. umferð á ÓL ‘96, það mætti enginn á Kristnihátíð — og ég hefi alltaf verið frekar skeptískur á að heimatilbúnir leikþættir eftir bændur í Rangársýslu eigi eftir að lokka ferðamenn í hrönnum til Íslands!

Og Hallur Hallsson! Hvert var nákvæmlega hlutverk hans í partýinu og hvers vegna í ósköpunum var hann ráðinn? Maðurinn er svo skemmtilegur að hvalur í hans umsjá, framdi sjálfsmorð, til þess eins að þurfa ekki að hitta Hall á nýjan leik; enda var hvalnum löngu ljóst að flugsyndar barnastjörnur fara til himna en útbrunnir flokksgæðingar fara til…

Kannski var hugmyndin dæmd til að mistakast og kannski er ómaklegt af pistlahöfundi að klína allri vitleysunni á Júlíus Hafstein. En kannski er pistillinn bara dulin ádeila á manninn sem alltaf talar undir rós! Það er nefnilega alltaf hægt að segja kannski — og að hlutir beri þess merki að hafa ákveðinn brag. En einhver verður að svara til saka og forsetinn er ekki á landinu!

Þrátt fyrir að hugmyndin hafi verið léleg var maður alveg tilbúinn að gefa þessari hátíð séns. Kannski er pistlahöfundur bara svona viðkvæmur, en hann fékk hins vegar alveg grænar bólur af því að horfa upp á þá Hannesarsyni maka krókinn á hátíðahöldunum. Ég segi nú bara eins og góður og gegn sveitasjálfstæðismaður sagði: „Mér leið svona eins og í fjósinu heima. Ég fann ekki fyrir skítafýlunni af því ég er svo vanur henni — en samt vissi maður alveg af henni“.

Og hvar var forsetinn? Fyrsta spurningin er náttúrulega hvað í ósköpunum var hann að gera á skíðum í Bandaríkjunum þegar Ísland á 100 ára Heimastjórnarafmæli, en jafneinkennilegt er, að enginn í stjórnsýslunni hafi haft rænu á að hringja í manninn — senda honum email, skeyti, bögglapóst — bara eitthvað!

Sjaldan hefur máltækið: Eitthvað er rotið í Danaveldi! — átt betur við en einmitt á Heimastjórnardaginn. En hvernig komum við í veg fyrir að þessi ósköp endurtaki sig og hringt verði í Júlíus Hafstein og hann fenginn til að stjórna enn einu ríkispartýinu? Jú, ég hefi einfalt og óbrigðult sex þrepa ferli sem ráðamenn þjóðarinnar verða hreinlega að fylgja: Þeir eiga að taka upp GSM-símana sína, velja MENU: PHONEBOOK: SELECT: Are you sure you want to delete HIS name?: — YES!

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)