Hundrað ára heimastjórn

hanneshafstein.jpgHundrað ár eru í dag frá því Íslendingar fengu stjórn eigin mála í hendur. Leiðtogi þjóðarinnar þá var maður sem ekki óttaðist breytingar heldur taldi að í umróti og stormi gæfist fólki og þjóðum tækifæri til að styrkjast og eflast. Sá boðskapur eldist vel.

hanneshafstein.jpgÍ dag eru eitt hundrað ár frá því að Hannes Hafstein varð fyrsti íslenski ráðherrann. Forsætisráðuneytið hefur staðið fyrir miklum hátíðarhöldum í tilefni dagsins og þykir mörgum fara vel á því að þessum tímamótum í sögu þjóðarinnar séu gerð góð skil þar sem 1. febrúar hefur löngum fallið í skuggan á öðrum merkum dagsetningum í sjálfstæðissögunni; 1. desember og 17. júní.

Það er hins vegar ljóst að baráttan fyrir því að Íslendingar eignuðust eigin ráðherra með aðsetur í Reykjavík var hatrammari en þau skref sem stigin voru síðar á öldinni.

Davíð Oddsson forsætisráðherra er mikill aðdáandi Hannesar Hafstein, fyrsta ráðherra Íslendinga og að því er fram kemur í viðtali við Davíð í Morgunblaðinu byggist hrifningin að miklu leyti á þeim boðskap sem Hannes færði þjóðinni í gegnum kveðskap sinn og orðræðu.

Kveðskapur Hannesar var uppfullur af lífskappi og bjartsýni, virðingu fyrir bæði manni og náttúru og almennri karlmennskulund. Þetta framúrskarandi lífsviðhorf Hannesar var einmitt það sem hin fátæka íslenska þjóð þurfti á að halda um aldamótin 1900 og árin þar á eftir.

Á sama hátt er bjartsýni um framtíð þjóðarinnar sennilega það sem gert hefur það að verkum að Davíð Oddsson hefur notið þeirrar hylli á síðustu áratugum sem raunin er. Skopteiknari Morgunblaðsins hefur ætíð teiknað forsætisráðherrann með sólgleraugu enda þótti flestum bjartsýni hans í kreppunni í byrjun tíunda áratugarins vera úr hófi mikil. En vandmálin sem íslenskt samfélag glímdi við þá eru nákvæmlega eins og öll önnur vandamál – þau leysast hraðar og betur ef von og bjartsýni ráð för fremur en böl og svartsýni.

Þær lausnir sem ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar lögðu til byggðust ekki á auknum höftum heldur voru duldir kraftar íslensks athafnafólks leystir úr læðingi með frelsisvæðingu á flestum sviðum.

Rétt eins og umrót var í íslensku samfélagi um aldamótin 1900 þá hafa breytingar í umhverfinu verið örar nú í kringum aldamótin 2000. Aukin samskipti við útlönd hafa opnað ógrynni tækifæra fyrir Íslendinga og þróun íslenskra stjórnmála hefur verið með þeim hætti að einstaklingarnir hafa sífellt betra ráðrúm til þess að finna kröftum sínum viðnám í viðeigandi verkefnum.

En það eru blikur á lofti. Á allrasíðustu árum hafa afturhaldsraddir kviknað á ný og til eru þeir sem ekki geta sætt sig við þær öru breytingar sem aukið frelsi í samfélaginu hefur leitt af sér. Mikilvægasta verkefni stjórnmálaleiðtoga í dag er að tryggja að Íslendingar hlaupi ekki í skjól einangrunarhyggju og stöðnunar til þess að forðast þær breytingar sem opið og frjálst samfélag getur óhjákvæmilega af sér.

Mikilvægt er að samskipti við umheiminn haldi áfram að vaxa og að íslenskt samfélag sé eins opið fyrir erlendum áhrifum og alþjóðlegum tækifærum og frekast má hugsa sér.

Breytingar eru ekki alltaf þægilegar og stundum getur jafnvægi raskast. Bjartsýnt fólk óttast ekki slíkan storm. Það hugsar eins og fyrsti ráðherrann okkar gerði og tekur hverri breytingu af opnum hug. Þannig hugsar frjálslynt fólk líka – það sættir sig við að skipulagt kaos markaðarins leiði oft til niðurstöðu sem ekki er fyrirséð – en trúir að frelsið sé réttlátt.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.