Sprellað í þágu alþýðunnar

asi.jpgVerkalýðshreyfingin hefur ákveðið að hefna sín á atvinnurekendum fyrir lífeyrisfrumvarp sem alþingismenn samþykktu. Útspilið er hrokafullt, þjóðfélaginu dýrt og samræmist líklegast ekki þeim væntingum sem launafólk hefur til næstu kjarabóta. En hvað um það, verkalýðshreyfingin verður víst líka að fá að sprella svolítið.

asi.jpgÞað alltaf hægt að stóla á smá fjör og öskur þegar laun þingmanna hækka og þrátt fyrir að þær raddir sem heyrast í hvert skipti eru oft á tíðum afar popúlískar og ófrumlegar eiga þær auðvitað fullkominn rétt á sér. Flest okkar þurfa að semja við einhvern annan um launin okkar. Stjórnmálamenn hafa hins vegar þá stöðu að geta samið við sjálfa sig, en á okkar kostnað. Það er því fullkomlega réttmætt að við skoðum þá samninga með sérstakri athygli og gagnrýni. Reyndar væri frábært ef fólk nálgaðist önnur opinber útgjöld af jafn mikillri tortryggni og laun stjórnmálamanna, þá væri útsvarið kannski annað en það er í dag og verðið á bjór væri einu núlli styttra.

Já, en allavega fór leikhúsið í gang. Menn veifuðu spjöldum á Austurvelli. Þingmenn stjórnardandstöðunnar misreiknuðu almenningsálitið og þurftu að andmæla sínu eigin frumvarpi og sátu svo flestir miskunnarlaust hjá þegar á hólminn var komið. En úr röðum stjórnarinnar bárust raddir um að frumvarpið gæfi mönnum sem starfað hafi lengi færi á að “hætta með reisn”.

Nei, ekki viljum við að stjórnmálamenn okkar endi órakaðir niðri í skítugri holu sem hulin er með frauðplastbút. Gott og vel, þeir skulu fá að hætta með reisn, en líkt og áður sagði eru þeir sjálfir sem ákveða þessa reisn sína en við hin greiðum svo eðlilegt er að fólk bendi á það sem því finnst rangt vera að staðið.

Stuttu eftir að “reisnarfrumvarpið” var afgreitt bárust fréttir frá mönnum hverra starfi fylgir einnig töluverður skammtur af hvers kyns reisn. Verkalýðshreyfingin hafði tilkynnt um að nú skyldu lífeyrismál vera aðalmálin í næstu kjaraviðræðum. Bara svona skyndilega. Voða fyndið og sniðugt. Nú skulum við sýna þessum ráðherrum í tvo heimana með því að hefna okkar á… ummm… atvinnulífinu.

Mér finnst þetta sjálfum bara ekkert sniðugt og ekkert fyndið. Að auki efast ég um að þessar áherslur samræmist væntingum hins almenna launþega sem vill eflaust frekar auka þúsundkallinn sinn núna en ekki eftir 40 ár. Þar fyrir utan hefur fyrri eftirlaunaaldur hingað til ekki þótt brýnasta kjaramál þessarar vinnusjúku þjóðar.

Framkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í nýlegu útvarpsviðtali að hann teldi flesta launþega hafa meiri hag af því að vera með háar tekjur um fertugt en um sjötugt eins og kröfurnar virðast vera í dag. Undir þetta er auðvelt taka. Eflaust hefðu flestir launþegar meira gagn af háum launum þegar þeir eru á unga aldri: þurfa að gefa börnum mat og klæða þau í hlý föt, eru að greiða af íbúð eða bíl fremur en þegar þeir eru komnir á áttræðisaldur. Ættu menn ekki að fá að njóta ávöxtunarinnar meðan þeir eru enn ungir og hafa heilsu til? Vilji menn leggja aukalega til gömlu áranna geta þeir gert það að sjálfsögðu en það ætti að vera þeirra val.

Það skal tekið undir það að samræma beri lífeyriskilyrði opinbera starfsmanna við það sem gerist á almennum markaði. Slíkt er fullkomlega sanngjörn krafa enda út í hött að almennir launþegar þurfi að bera aukinn kostnað vegna fólks sem valið hefur starfsframa hjá hinu opinbera. En samræmingin verður að vera í þá átt að ríkið breyti lífeyriskjörum sínum til samræmis við það sem gerist hjá einkaaðilum en ekki öfugt. Slíkt væri í takt við þær jákvæðu breytingar sem átt hafa sér stað í íslensku atvinnulífi undanfarin ár: einkavæðingu ríkisfyrirtækja og afnám hafta.

Það er ekki nóg með að kröfur verkalýðshreyfingarinnar séu vondar og samfélaginu dýrar heldur er það hvernig þær eru settar fram dæmi um hrokafulla framkomu manna sem fá að ráðstafa nauðungarfélagsgjöldum “félagsmanna” áratugum saman en engin virðist nokkurn tímann þurfa að kjósa. Eru launþegar ekki orðnir þreyttir á liði sem notar launabaráttu þeirra sem útspil í pólitískri baráttu? Sinni eigin pólitísku baráttu?

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.