Borga neytendur alltaf brúsann?

samkeppniDavíð Oddsson heldur því fram í Vísbendingu að sektun olíufélaganna fyrir samráð komi bara niður á neytendum því olíufélögin hækki bara verðið hjá sér. Getur þetta verið rétt?

samkeppniÍ nýjasta hefti vikuritsins Vísbending heldur Davíð Oddsson því fram að samkeppnisyfirvöld virki ekki sem skyldi. Hann telur að ef öll olíufélögin verði sektuð fyrir samráð muni það ekki breyta samkeppnisstöðu þeirra innbyrðis og að í rauninni skipti ekki máli hvað sektirnar verði háar þar sem verðið á eldsneyti hækki bara sem nemur sektinni. Þetta eru athyglisverðar kenningar og vert að skoða þær nánar.

Þegar spáð er fyrir um viðbrögð fyrirtækja við breytingum á starfsumhverfi þeirra gefst oft vel að gera ráð fyrir að þau hámarki hagnað. Sókn fyrirtækja eftir hámarkshagnaði gerir það að verkum að þau bjóða viðskiptavinum sínum upp á eins hátt verð og þau komast upp með án þess að missa þá til samkeppnisaðila eða út af markaðinum.

Þegar mikil samkeppni ríkir á markaði berjast fyrirtæki um viðskiptavini með því að bjóða lága álagningu. En þegar lítil samkeppni ríkir komast fyrirtæki hins vegar upp með að leggja mun meira á vöruna. Það er þó alltaf svo að fyrirtæki leggja eins mikið á vöru og þau komast upp með. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að álagning fyrirtækja fer ekki eftir því hvað þau þurfa að fá hátt verð fyrir vöruna heldur hvað þau geta fengið hátt verð fyrir vöruna.

Það að olíufyrirtækin hafi lagt eins mikið á vöruna og þau gátu fyrir sektirnar gerir það að verkum að þau geta ekki hækkað verðið þegar þau eru sektuð. Ekki nema að sektirnar sjálfar minnki samkeppni í olíudreifingu.

Ég á því erfitt með að sjá hvernig fullyrðingar forsætisráðherra standast. Þær myndu standast ef forsætisráðherra hefði haldið því fram að sektirnar auðveldi samráð í framtíðinni eða auðveldi olíufélögunum með öðrum hætti að halda niðri samkeppni. En hann segir þvert á þetta að hann telji að innbyrgðis samkeppnisstaða þeirra breytist ekki.

Sektirnar lækka jú hagnað olíufélaganna. Einhver kann að spyrja hvort olíufélögin þurfi þá ekki að hækka verðið hjá sér til þess að ná hagnaðinum aftur upp? En bíddu, við vorum búin að gera ráð fyrir að þau væru þá þegar að hámarka hagnaðinn hjá sér. Það er við vorum búin að gera ráð fyrir að þau hefðu þá þegar valið það verð sem leiðir til meiri hagnaðar en öll önnur verð.

Þetta þýðir að ef þau hækka verðið hjá sér enn frekar mun það einungis leiða til þess að hagnaður þeirra dregst saman enn meira þar sem verðhækkunin leiðir til þess að eftirspurnin þeirra minnkar meira en sem nemur verðhækkuninni.

Starfsemi Samkeppnisstofnunar leiðir til lægra vöruverðs að svo miklu marki sem hún gerir fyrirtækjum erfiðara fyrir en ella að stunda ólöglegt samráð eða beyta öðrum brögðum til þess að draga úr samkeppni. Besta leiðin til þess að lækka verð á olíu væri hins vegar að settar væru nýjar reglur um verðskrár olíufélaganna eins og lýst var í eftirfarandi pistli á Deiglunni fyrir tæpum tveimur árum:

Samkeppni í olíudreifingu

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.