Forgangsröðun mannréttinda

Þegar hinn vestræni heimur losnaði undan áþján einveldisins og ofríkis sem því fylgdi, komu borgararnir sér saman um grundvallarreglur sem skyldu verja hendur þeirra gagnvart ríkisvaldinu.

Þegar hinn vestræni heimur losnaði undan áþján einveldisins og ofríkis sem því fylgdi, komu borgararnir sér saman um grundvallarreglur sem skyldu verja hendur þeirra gagnvart ríkisvaldinu. Þessar reglur heita mannréttindi og kváðu þau þá á um rétt borgaranna til að fá að vera í friði fyrir afskiptum ríkisvaldsins. Í dag eru þessi upphaflegu mannréttindi kölluð neikvæð mannréttindi til aðgreiningar frá svokölluðum jákvæðum mannréttindum.

Með hinum síðarnefndu er átt við þann rétt sem borgararnir telja sig eiga gagnvart ríkisvaldinu, um athafnskyldu af þess hálfu þeim til hagsbóta. Þessi réttindi er einnig nefnd efnahagsleg, menningarleg og félagsleg réttindi, en þau fyrstnefndu stjórnmálaleg og borgaraleg réttindi. Á síðustu áratugum hefur hinum jákvæðu mannréttindum vaxið fiskur um hrygg og sífellt háværari verða þær raddir sem krefjast athafna af hálfu ríkisvaldsins til að koma til móts við mannréttindi hinna og þessara hópa. Því lengra sem menn teygja sig í þessa átt, því meiri gengislækkun verður á hinu upprunalega mannréttindahugtaki. Þetta tengist umræðunni um hvort mannréttindi séu síbreytileg eða ævarandi og er of langt mál að rekja það hér.

Þó er það svo, að hin upprunalegu mannréttindi, eins og persónufrelsi, friðhelgi einkalífsins, tjáningarfrelsi og eignarréttur, verða ekki fyllilega varin án atbeina ríkisvaldsins. Þótt þessum réttindum hafi upphaflega verið ætlað að standa vörð um hag borgaranna gagnvart ofríki ríkisvaldsins, þá reynir nútildags ekki síður á þau í samskiptum milli borgaranna. Það hlýtur að vera krafa borgaranna að ríkisvaldið standi þéttan vörð um mannréttindi þeirra á borð við friðhelgi einkalífsins, rétt eins og það gerir til mannréttinda sem kveða á um framfærslu og menntun. Því miður sinnir ríkisvaldið fyrrnefndu hlutverki sínu illa en hinu síðarnefnda of vel.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.