Ási á Á, á á.

Umræðan um SPRON málið er ekki sú allra einfaldasta. Hvað eru sparisjóðirnir og hver á þá? Er rekstrarform þeirra hentugt eða hreinlega eðlilegt og hafa stjórnarmenn þeirra óeðlilega mikil völd?

Hver man ekki eftir þessari skondnu setningu um hann Ása sem bjó að Á og átti rolluskjátu? Álíka skýr og þessi gamli málfræðibrandari er umræða síðustu daga um Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Þannig er erfitt að átta sig á því yfir höfuð um hvað umræðan snýst um en einnig hver á hvað og hvar það er.

Það er í raun enginn sem á SPRON lögformlega. Í upphafi voru peningar lagðir í púkk í þeim tilgangi að gera fólki og fyrirtækjum auðveldara með að eiga bankaviskipti. Stofnendurnir áttu að fá arð af því sem þeir lögðu inn í upphafi en það sem eftir varð af hagnaðinum átti að renna til líknar- og menningarmála. Stofnendur sjóðsins skipuðu svo stórn til að fara með daglegan rekstur hans. Þannig er ljóst að þótt eignaraðild stofnendanna hafi ekki verið lögformleg réðu þeir öllu um reksturinn og hvernig átti að ráðstafa arðinum.

Eftir stofnun SPRON hafa fleiri stofnfjáreigendur bæst í hópinn þótt þeir hafi ekki komið að stofnuninni sem slíkri. Þeir hafa keypt stofnhlut, fengið arð og átt þátt í að skipa stjórn sjóðsins. Það sem er þó skrýtnast við þetta allt er að þeir eru í raun valdir af stjórn sjóðsins. Þannig geta stjórarmenn valið hverjir það eru sem kjósa þá. Það eru mikil völd og satt að segja nokkuð dularfullt fyrirkomulag þar sem ekki er um eignaraðild að ræða.

Sjálfseignarstofnun getur verið gott rekstrarform, hún hefur stofnskrá þar sem markmið hennar er tilgreint og skýrt afmarkað. Þetta hefur til dæmis átt vel við Rauða krossinn, Félagsstofnun stúdenta og sjálfseignarstofnun sem rekur Verslunarskólann og HR. Í öllum þessum tilfellum er um mjög afmörkuð svið að ræða með skýr markmið og hagnaður ekki hafður að leiðarljósi. Þetta form á því vel við um það sem í útlandinu er kallað “non-profit organisation”.

Sjálfseignarformið á þó alls ekki við þegar um viðskiptabankaþjónustu er að ræða. Í tilfelli SPRON hefðu upphaflegu stjórnarmennirnir getað haldið völdum og krýnt arftaka sína með þeim tækjum er þeir höfðu til þess og þannig ráðið öllu um reksturinn. Þannig hefði stjórnin í raun ekki starfað í umboði eigenda heldur í umboði eigin valdatækja.

Það er því mjög æskilegt að breyta sparisjóðunum í hlutafélög. Það er eðlilegast að saman fari ábyrgð og eignarhlutur þegar um svona mikla fjármuni og völd er að ræða. Þannig er tryggast að viðskiptaleg sjónarmið séu höfð að leiðarljósi í öllum aðgerðum og ákvörðunum stjórnar og yfirmanna SPRON, því hvergi eiga slík sjónarmið betur við en í rekstri banka. Að reka banka á öðrum forsendum væri annað hvort til að þjóna hagsmunum stjórnenda hans eða bara grín. Það að vel hefur tekist til með rekstur SPRON er því ekki forminu að þakka, heldur virðist stjórnendum hafa tekist að ná árangri þrátt fyrir formið.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)