Neytendavernd Deiglunnar

Í Speglinum á Rás 2 var fjallað um neytendavernd þann 10. apríl sl. Þar var rætt við fulltrúa Samkeppnisstofnunar og Neytendasamtakanna. Báðir voru fulltrúarnir á því að mikilvægt væri að skattgreiðendur létu meira fé af hendi rakna til þess að hægt væri að rækja það hlutverk að upplýsa neytendur um rétt sinn. Deiglan mun hins vegar sinna sínu neytendarverndarhlutverki endurgjaldslaust!

Í Speglinum á Rás 2 var fjallað um neytendavernd þann 10. apríl sl. Þar var rætt við fulltrúa Samkeppnisstofnunar og Neytendasamtakanna. Báðir voru fulltrúarnir á því að mikilvægt væri að skattgreiðendur létu meira fé af hendi rakna til þess að hægt væri að rækja það hlutverk að upplýsa neytendur um rétt sinn. Meðal þeirra hugmynda sem greinilega njóta fylgis í embættismannageiranum er að koma á nýju embætti, embætti umboðsmanns neytenda. Nokkrir framtakssamir framsóknarmenn hafa nýverið einmitt lagt fram þingsályktunartillögu um þetta þjóðþrifamál. Þar fer fremst í flokki Drífa J. Sigfúsdóttir, varaþingmaður, en hún nýtur liðsinnis þeirra Ísólfs Gylfa Pálmasonar, Kristins H. Gunnarssonar og að sjálfsögðu Ólafs Arnar Haraldssonar.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er fjallað um þá erfiðleika sem neytendur eiga við að glíma. Þar segir m.a. að “neytendur stand[i] höllum fæti við að ná fram rétti sínum gagnvart fyrirtækjum” og að “[s]amfélagið verð[i] sífellt flóknara og því erfiðara fyrir neytendur að átta sig á rétti sínum og réttarúrræðum”. Ætla mætti að staða neytenda hér á landi hafi versnað til muna á umliðnum árum og því sé nú orðið tímabært að hið opinbera taki sig nú til og stofni enn eina eftirlitsstofnunina sem hefur það hlutverk að flytja ábyrgð einstaklinganna yfir á herðar opinberra stofnanna. Þetta er til mikillar óþurftar. Staðreyndin er nefnilega sú að neytendavernd er mjög öflug hérlendis. Hún felst í því að neytendum er í flestum efnum frjálst að hætta viðskiptum við þá aðila sem þeim mislíkar við. Þetta á þó ekki við öll fyrirtæki því engum leyfist að hætta viðskiptum við t.d. Ríkisútvarpið og enginn kemst upp með annað en að taka þátt í kostnaði við rekstur leikhúsa og Sínfóníuhljómsveitarinnar.

Neytendur eru ekki fífl og það er engum til góðs að komið sé fram við fólk í landinu eins og það sé upp til hópa ósjálfbjarga. Drífa Sigfúsdóttir og félagar, sem standa að þingsályktunartillögu um stofnun embættis umboðsmanns neytenda telja hins vegar greinilega að fólk sé fífl. Drífa sagði m.a. í ræðu sinni þegar tillagan var kynnt: “Ég hugsa að ekki hafi allir hér í salnum lært t.d. á myndbandstækin sín”. Vissulega kunna ekki allir á allar stillingar á myndbandstækjum sínum en ákveða þó að festa kaup á slíkum tækjum vegna þess að þeir telja sig geta notið góðs af eigninni án þess að nýta sér hana til fulls. Staðreyndin er sú að fólk lærir það sem það vill læra og rétt eins og engum dytti í hug að kvarta yfir því að fólk með litla þekkingu á hlutbundinni forritun kaupi sér tölvur þá er það ákvörðun hvers og eins myndbandstækjaeigenda hversu vel hann vill læra á tækið sitt.

Deiglan vill ekki láta sitt eftir liggja í neytendaverndinni. Deiglan bendir því neytendum á þann sjálfsagða rétt sinn að kaupa ekki þær vörur sem þeir kunna ekki að nota eða vilja ekki nota. Þessa ábendingu gefur Deiglan af samfélagslegri skyldurækni og væntir ekki fjárhagslegs stuðnings frá skattgreiðendum fyrir vikið.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.