Innanflokkserjur í Repúblikanaflokknum

Þeir sem fylgdust með forsetakosningunum í Bandaríkjunum frá upphafi baráttunnar muna vafalaust eftir harðri rimmu á milli öldungadeildarþingmannsins John McCain og þáverandi fylkisstjórans George W. Bush. Þeir tókust á um hvor þeirra skyldi hljóta útnefningu Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum á síðasta ári. Nú eru úrslitin ljós og hreinsanirnar hafnar.

Þeir sem fylgdust með forsetakosningunum í Bandaríkjunum frá upphafi baráttunnar muna vafalaust eftir harðri rimmu á milli öldungadeildarþingmannsins John McCain og þáverandi fylkisstjórans George W. Bush. Þeir tókust á um hvor þeirra skyldi hljóta útnefningu Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum á síðasta ári. Slagurinn á milli þeirra var mjög harður sem kom á óvart þar sem talið var að George W. væri ósigrandi þar sem allar valdastofnanir flokksins stóðu með honum. Enginn forsetaframbjóðandi Repúblikana hefur haldið í forkosningar með eins heilsteypt bakland innan flokksins síðan Ronald Reagan árið 1984. Jafnvel George Bush hinn eldri hafði aldrei fullan stuðning Repúblikanaflokksins að baki sér og til marks um það fékk hann mótframboð frá Pat Buchanan árið 1992 þrátt fyrir að vera sitjandi forseti.

Framboð George W. Bush átti að tákna sameiningu stríðandi afla í Repúblikanaflokknum. Til marks um það lýstu nær allir þingmenn flokksins mjög snemma yfir stuðningi við framboð hans. George W. átti að vera maðurinn sem skilaði valdaklíkunni í flokknum forsetaembættinu. Það tókst á endanum en þó ekki fyrr en tekist hafði að losna við óþægilega steinvölu sem skyndilega gerði vart við sig í skó gulldrengsins. Það var John McCain. Kraftmikið framboð hans rústaði kosningaáætlun Bush og kom næstum í veg fyrir að Repúblikanar næðu Hvíta húsinu.

McCain lagði allt í sölurnar
Frammistaða McCain í forkosningunum kom flestum á óvart. Honum tókst að aðgreina sig frá Bush með því að höfða til neikvæðs viðhorfs almennings gagnvart stjórnmálamönnum og valdamiklum erindrekum sérhagsmunahópa. McCain tókst þetta, þrátt fyrir að hafa sjálfur starfað í Washington í hartnær tuttugu ár á meðan George W. Bush hafði takmarkaða stjórnmálareynslu en þeim mun meiri reynslu af ölvunarakstri og partístandi. Þótt McCain hafi starfað mun lengur í stjórnmálum þá var ljóst frá upphafi að Bush var verndari þeirra hagsmunahópa sem öll völd hafa í Repúblikanaflokknum. Sérstaklega réðst McCain á hægrisinnaða prédikara sem hafa mikil ítök í flokknum. Þessir prédikarar hjálpa Repúblikanaflokknum að vinna kosningar en frambjóðendurnir gera svo sitt besta til þess að hygla þeim á kostnað annarra trúarhópa þegar til Washington er komið (meðal þess fyrsta sem George W gerði sem forseti var að tryggja að trúfélög, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, gætu fengið fjárframlög frá hinu opinbera til þess að reka velferðarþjónustu). Árás McCain á Pat Robertson, vinsælan og hægrisinnaðan klerk í Suðurríkjum Bandaríkjanna, þótti merki um pólitíska djörfung en að sama skapi undirstrikaði hún að McCain ætlaði sér að brenna allar brýr að baki sér í kosningabaráttunni. Hann hefur eflaust talið að allt yrði fyrirgefið ef honum tækist að sigra Bush og vinna kosningarnar, rétt eins og Reagan á sínum tíma. Reagan var nefnilega ekki hluti af flokkseigendavélinni þegar hann ruddi sér leið í Hvíta húsið í kosningunum 1980 eftir að hafa sigrað George Bush eldri og fleiri í forkosningum. McCain gerði sér grein fyrir því að kosningasigrar breyta pólitískum vandræðamönnum í hugumdjarfar hetjur á svipstundu og var því tilbúinn að fórna öllu í forkosningunum.

Bush neyddur til stefnubreytingar
Vegna baráttunar við McCain þurfti Bush að endurskilgreina sjálfan sig margoft á leið sinni frá Texas til Washington. Upphaflega áætlunin hjá flokkseigendafélaginu í Repúblikanaflokknum var að senda Bush af stað í kosningabaráttuna með óskorað umboð frá flokknum auk kosningavænnar stefnu sem höfðað gæti til miðjukjósenda. Hugtakið “Compassionate conservatism” átti að tryggja þetta. Hin harða mótspyrna McCain gerði það hins vegar að verkum að Bush þurfti að skilgreina sig lengra til hægri en hann hafði viljað því kjósendur í prófkjörum Repúblikana eru mun hægrisinnaðri en kjósendur flokksins í forsetakjöri. Hin fullkomlega hannaða ímynd óskabarnsins frá Texas var því ekki svo óflekkuð lengur og nú þurftu ímyndarsmiðir Bush að upphugsa nýjar leiðir til þess að tryggja stuðning hinna mikilvægu miðjukjósenda. Upphaflega áætlunin hafði gert ráð fyrir að ekkert þyrfti að gera fyrir hörðustu repúblikanana. Þeir myndu fylgja Bush vegna þess að þeir hefðu trú á sigri hans. Málefnin myndu ekki skipta þá neinu. Ef þetta hefði gengið eftir þá gætu öll málefnin snúist um þessa miðjukjósendur og demókratar hefðu færri tækifæri til þess að gagnrýna hægrisinnuð stefnumál repúblikana. En vegna árangurs John McCain þurfti Bush að taka afstöðu í mun fleiri málum en hann hafði ætlað sér og varð þannig auðveldara skotmark fyrir andstæðingana.

Forseti í útlegð
Flokkseigendafélagið í Repúblikanaflokknum hafði vilja sinn á endanum en sagan er ekki öll sögð. John McCain mætti á flokksþing Repúblikanaflokksins með fríðu föruneyti og lét ganga lengi á eftir sér áður en hann loks lýsti yfir stuðningi við George W. Bush. Til þess að bæta gráu ofan á svart hefur hann haldið áfram að vekja athygli á sér í fjölmiðlum eftir forsetakosningarnar fyrir frumvarp sitt um fjárreiður í kosningabaráttum (McCain-Feingold Campaign Finance Reform). Fjölmiðlahylli McCain dvínar ekki og hefur því verið varpað fram af andstæðingum hans að hann hegði sér eins og hann sé forseti í útlegð.

McCain heldur því áfram að baka Bush vandræði og kunna ráðamenn honum litlar þakkir fyrir. Sögur herma að stuðningsmenn Bush geri nú allt sem í þeirra valdi stendur til þess að einangra stuðningsmenn McCain innan flokksins. Þannig hefur Hvíta húsið t.a.m. reynt að koma í veg fyrir að öldungardeildarþingmaðurinn Jeff Sessions ráði John Weaver sem kosningastjóra sinn. Weaver var einn helsti ráðgjafi McCain í kosningabaráttunni innan Repúblikanaflokksins og þykir ákaflega hæfur.

Svo virðist þó sem fæstir repúblikanar ætli að taka þátt í hefndaraðgerðum Bush. Þeir telja sér betur borgið með því að ráða til sín fólk á eigin verðleikum. Sessions hefur lýst því yfir að hann muni ráða hvern þann sem honum sýnist og hirða lítt um það sem forsetanum kunni að þykja. Mál manna í Washington er að Bush beri að sættast við McCain þar sem bæði þingmenn og almenningur beri virðingu fyrir McCain og að Bush beri skylda til að setja hagsmuni flokks síns ofar persónulegum metnaði. Hefndaraðgerðir yrðu Bush of kostnaðarsamar auk þess sem þær grafi undan orðspori hans sem mannasættis. Ekki veitir þó af þeim hæfileikum hans því repúblikanar hafa aðeins eins atkvæðis meirihluta í Öldungadeildinni og nýverið mistókst Bush að koma skattalækkunarfrumvarpi sínu óbreyttu í gegnum þingið. Bush verður að kosta öllu til í því skyni að viðhalda einingu innan flokksins og víst er að tilraunir hans til að grafa undan stuðningsmönnum McCain ganga þvert gegn því markmiði.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.