Þjóðkirkjan og ríkistrúin

Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands og Björn Bjarnason kirkjumálaráðherra ítrekuðu báðir þá skoðun sína á Kirkjuþingi um helgina að ekki bæri að aðskilja ríki og kirkju. Í ræðum þeirra er aftur á móti lítið um sannfærandi rök fyrir því að ríkisvaldið skuli styðja og vernda þjóðkirkjuna umfram önnur trúarbrögð.

Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands og Björn Bjarnason kirkjumálaráðherra ítrekuðu báðir þá skoðun sína á Kirkjuþingi um helgina að ekki bæri að aðskilja ríki og kirkju. Í ræðum þeirra er aftur á móti lítið um sannfærandi rök fyrir því að ríkisvaldið skuli styðja og vernda þjóðkirkjuna umfram önnur trúarbrögð. Báðir leggja þeir áherslu á að kirkjan og hin kristnu grundvallargildi endurspegli sögu okkar, siði og menningu. Báðir benda einnig á að mikill meirihluti landsmanna sé í þjóðkirkjunni og vilji vera í kirkjunni og byggja á þeim gildum sem hún predikar. Það er aftur á móti erfitt að sjá að þótt ríki og kirkja verði aðskilin að meirihluti landsmanna muni ekki áfram vera í kirkjunni, þó hlutfallið verði kannski ekki alveg jafn hátt og nú er. Þá er það deginum ljósara að gildi kristninnar og kirkjunnar í sögu okkar og menningu minnkar ekki þó ríki og kirkja verði aðskilin.

Hér á landi er almennt talað um að það ríki trúfrelsi og vissulega er mönnum frjálst að iðka sína trú og skrá sig í sitt trúfélag. En á meðan hér er við lýði þjóðkirkja er varla hægt að halda því fram að hér sé trúfrelsi eða að jafnrétti ríki í trúmálum. Hin evangelíska lúterska kirkja nýtur sérstakrar verndar í stjórnarskrá Íslands sem vekur upp þá spurningu hvort stjórnarskráin sé ekki fyrir okkur öll, alla Íslendinga, hvort sem þeir eru kaþólskir, búddatrúar, múslimar eða trúleysingjar?

Það má vissulega deila um það hvernig á að hátta samstarfi ríkis og kirkju ef til aðskilnaðar kæmi og þá um leið samstarfi ríkis og trúarbragða yfir höfuð. Þetta er flókið viðfangsefni, en engu að síður viðráðanlegt. Grundvallaratriðið er að öll viðurkennd trúarbrögð landsmanna séu í sömu stöðu gagnvart ríkinu, hvort sem það felst í því að ríkið borgi laun presta og forstöðumanna trúfélaga, styðji við byggingu samkomuhúsa, sjái um að innheimta sóknargjöld eða skipti sér hreinlega ekki neitt af trúmálum landsmanna.

Pistlahöfundur dregur ekki í efa mikilvægi trúarinnar og mikilvægi starfs kirkjunnar í sáluhjálp og umönnun landsmanna. Enda ljóst að margir landsmenn munu með glöðu geði greiða sín sóknargjöld til kirkjunnar. En það fæst illa samrýmst skoðunum um frelsi einstaklingsins og trúfrelsi að þeir sem ekki eru kristnir séu beygðir undir það að: „hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda“. Þótt menn séu ekki skyldugir til að vera í þjóðkirkjunni nýtur hún engu að síður óeðlilegrar sérstöðu sem snertir alla landsmenn, kristna eða ekki.

Biskup Íslands virðist í ávarpi sínu á Kirkjuþingi um helgina sannfærður um mátt kirkjunnar og bendir á að 90% barna séu skírð og 90% unglinga fermist í þjóðkirkjuna. Þetta ýtir enn frekari stoðum undir þá skoðun að ekki sé nauðsynlegt að ríkisvaldið verndi hin evangelísku lútersku kirkju neitt sérstaklega umfram önnur trúarbrögð. Jafnvel þó til fullkomins aðskilnaðar ríkis og kirkju komi þá mun meirihluti þjóðarinnar án efa vera skráður í kirkjuna, skíra börnin sín, fermast, giftast og varðveita þau gildi sem felast í trúnni. Á meðan biskup telur víst að „meirihluti íslensku þjóðarinnar vilji að hér verði áfram unnið að því að móta og byggja upp menningu og samfélag sem byggir á þeim grundvallargildum sem kristin kirkja hefur rækt með þjóðinni í aldanna rás“ er ekki að sjá að hann eða kirkjumálaráðherra þurfi að hafa nokkrar áhyggjur af stöðu kirkjunnar eða kristinnar trúar þó til fullkomins aðskilnaðar við ríkið komi.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.