Landssíminn, lögfræðingar og Don Corleone

Einkavæðing Landsímans hefst innan skamms. Samgöngumálaráðherra hefur ákveðið að fyrirtækið skuli selt í einu lagi. Þannig mun brátt verða til símafyrirtæki sem í senn er keppinautur allra annarra símafyrirtækja og nauðsynlegur samstarfsaðili þeirra.

Einkavæðing Landsímans hefst innan skamms. Samgöngumálaráðherra hefur ákveðið að fyrirtækið skuli selt í einu lagi. Þannig mun brátt verða til símafyrirtæki sem í senn er keppinautur allra annarra símafyrirtækja og nauðsynlegur samstarfsaðili þeirra. Ákvörðun samgöngumálaráðherra felur það í sér að hver sá sem sér möguleika á að bjóða símþjónustu á betri kjörum en nú tíðkast þurfi fyrst af öllu að hafa samband við Landsímann og tilkynna um áform sín, gefa viðeigandi skýrslur og útfylla dopíu af eyðiblöðum. Þannig hlýtur eitt hans fyrstu verka að fela í sér algjöra afhjúpun á viðskiptaáætlun sinni gagnvart stærsta samkeppnisaðilanum. Þórarinn Viðar Þórarsinsson, forstjóri Landssímans, verður því ekkí í ólíkri aðstöðu og Vito Corleone í Godfather myndunum en tilvonandi glæpamenn þurftu á blessun hans að halda áður en þeir hófu starfsemi sína („As long as your interests don´t conflict with mine“, bætti hann við).

Landsímanum er skylt að veita fyrirtækjum aðgang að grunnnetinu. Þó má gera ýmis formleg skilyrði og vafalaust mun hver einasti samningur sem Landsíminn gerir við önnur símafyrirtæki verða hinni vaxandi stétt fjarskiptalögfræðinga mikið gleðiefni. Ég treysti því að Landsíminn muni að mestu forðast lögbröt þegar fyrirtæki falast eftir aðgangi að grunnnetinu, en vafasamt er að viðmót fyrirtækisins muni einkennast af Dale Carnegískri þjónustulund.

Að mínu viti hefði verið skynsamlegra að skipta Landssímanum upp. Annars vegar væri um að ræða Landssímann og hins vegar Landsnet, rekstraraðila grunnnetsins. Bæði fyrirtækin ættu að sjálfsögðu að vera einkarekin og mætti hugsa sér að haldið yrði uppboð þar sem rekstur á Landsneti væri boðinn út til nokkurra ára í senn. Vissulega myndi þetta draga úr verðmætum Landssímans en verðmæti Landssímans og Landnets yrði væntanlega svipað og Landssímans nú.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður, hélt því reyndar fram í umræðum um málið að ef grunnnetið fylgdi ekki Landssímanum þá væru þjónustustöðvarnar og Landssímahúsið við Austurvöll einu verðmætin sem verið væri að selja. Þessi fullyrðing er algjörlega út í bláinn. Verðmæti Landssímans felast fyrst og fremst í því að næstum því hver einn og einasti landsmaður er í viðskiptum við fyrirtækið.

Þá má ekki gleyma því að það var ekki Landsíminn hf, samkeppnisfyrirtæki, sem byggði fjarskiptanetið á Íslandi heldur var það Póst- og símamálastofnun, ríkiseinokunarfyrirtæki, sem stóð fyrir uppbyggingunni í krafti almannafjár. Það er því ekki hægt að líta svo á að einkavæddur Landssími hafi nokkuð tilkall til grunnnetsins. Hér verður að horfa til hagsmuna þjóðarinnar fremur en hagsmuna Landssímans.

Samkeppni í símaþjónustu væri mun betur tryggð ef öll símrekstrarfyrirtæki þyrftu að eiga samskipti við eigendur grunnnetsins á jafnræðisgrundvelli. Eignarhald Landssímans á grunnnetinu tryggir ekkert annað en töluverð uppgrip hjá lögfræðingum símafyrirtækjanna sem munu nú geta tekið undir með syni Vito Corleone, Michael, þegar hann sagði: „I don´t need tough guys. I need more lawyers“ – nema ef hvort tveggja skyldi vera.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.