Að ganga á guðs vegum

Svitadroparnir keppast við að þræða krákustíga andlitsins. Hitinn er óbærilegur. Miskunnarlaus sólin vægir engum. Vatn er af skornum skammti. Næsta vin er í órafjarlægð. Sandur.

Svitadroparnir keppast við að þræða krákustíga andlitsins. Hitinn er óbærilegur. Miskunnarlaus sólin vægir engum. Vatn er af skornum skammti. Næsta vin er í órafjarlægð. Sandur.

Búðirnar iða eins og ein lífræn heild. Allir hafa nóg á sinni könnu. Foringjarnir vilja ekkert gefa upp en sagt er að aðgerðir séu á næsta leiti. Eftir þrotlausar æfingar síðustu níu mánuði erum við loks að verða reiðubúnir. Ég er nú fullfær um að fljúga hjálparlaust og hinir þrír útvöldu eru ekki langt á eftir. Við hljótum allir sömu þjálfun svo aða auknar líkur séu á að ætlunarverk okkar nái fram að ganga – að koma höggi á óvininn.

Óvinurinn. Hann styður fjendur okkar dyggilega. Hann útvegar þeim vopn svo þeir geti myrt ættingja okkar og vini. Hann styður þá til að að eyðileggja akra okkar. Börnin okkar lifa við stöðugt hungur og örvæntingu. Hann leyfir sér að fordæma siðvenjur okkar á meðan siðspilling og voðaverk vaða uppi í heimalandi hans. Hann hefur kúgað okkur nógu lengi. Nú er tímabært að hann fái að gjalda. Hvað eru örfá mannslíf í samanburði við heilu kynslóðirnar sem ég hef þurft að horfa upp á veslast upp og deyja úr örbirgð? Hvaða rétt hefur hann til þess að gera atlögu að lifnaðarháttum okkar? Við munum ráðast á hann þar sem hann er veikastur fyrir og valda sem mestri eyðileggingu. Hann verður aldrei samur aftur. Hefndin er sæt.

Samt læðist að mér efi. Klerkarnir lofa mér eilífðarvist í Paradís ef ég klára dæmið. Ég er ekki viss um að ég hafi kjark til þess þegar á hólminn er komið. Ef ég bregst á ögurstundu þá er allt unnið fyrir gýg.

Guð hefur í raun blessað mið með miklum forréttindum. Ég var valinn úr stórum hópi umsækjanda. Í staðinn fyrir mín störf verður séð fyrir foreldrum mínum, konum og barni. Er það ekki draumur hvers manns?

Ég heyri fótatak og háreysti fyrir framan tjaldið. Þeir eru komnir til að ná í mig. Stundin er runnin upp. Nú er mál að linni; óvinurinn skal borga fyrir syndir sínar og ég mun rísa upp úr öskustónni eins og björt hetja. Ég hef engar áhyggjur, Guð mun leiða mig um rétta vegu.

„Enginn þjóð hefur farið í stríð án þess að vera viss um að Guð standi með þeim.“ – Árni Indriðason

Latest posts by Ari Tómasson (see all)