Vantraustskosningar í Kaliforníu II

Í dag fara fram kosningar í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Menn eru þó langt frá því að vera vissir um að úrslitin verði ljós strax. Kosningarnar eru sögulegar, en eftirmálarnir gætu orðið enn sögulegri og gætu haft mikil áhrif á pólitískt landslag og andrúmsloft næstu ára.

Arnold kann á myndavélarnar, en nú fær hann hugsanlega að reyna sig í sínu stærsta hlutverki hingað til.

Kosningarnar hófust nú klukkan 14 að íslenskum tíma, 7 að staðartíma. Bjartsýnustu menn telja að úrslitin verði ljós á morgun en margir minnast atburðanna í Flórída eftir síðustu forsetakosningar. Báðir stóru flokkarnir hafa gefið í skyn að úrslit eða framkvæmd kosninganna gætu farið fyrir dómstóla. Demókratar ætla að safna um 100.000 dollurum í sérstakan sjóð til að standa straum af lögfræðikostnaði í kjölfar kosninganna.

Innanríkisráðherra Kaliforníuríkis (secretary of state) þarf að staðfesta úrslit kosninganna, en hann hefur frest til þess til 15. nóvember. Að lokinni staðfestingu verður kjörinn ríkisstjóri að taka embætti innan tíu daga. Því er hugsanlegt að nýr ríkisstjóri hefji ekki störf fyrr en 25. nóvember. Repúblíkanar halda því fram að innanríkisráðherran, sem er demókrati, muni fresta því í lengstu lög að staðfesta úrslitin fari svo að Gray Davis verði settur af og repúblíkani kjörinn í hans stað.

Líkur eru á að það verði raunin, því flestar kannanir sýna að rétt rúmur helmingur kjósenda muni samþykkja vantrauststillöguna á hendur grey Davis. Af þeim 135 sem bjóða sig fram til að taka við embættinu er repúblíkaninn Arnold Schwarzenegger sigurstranglegastur en Cruz Bustamante vararíkisstjóri og helsta von demókrata fylgir fast á eftir.

Eins og fyrr sagði er þó líklegt að nokkrir eftirmálar verði af kosningunum og „fíaskóið í Flórída“ hafi einungis verið formáli að nýjum og sorglegum kafla í bandarískri stjórnmálasögu. Ef svo verður er hæpið að það dugi að endurskoða alla kosningalöggjöf í landinu. Siðferðileg viðhorf stjórnmálamanna til leikreglnanna eru stærra vandamál.

Nú þegar er farið að tala um næstu vantraustskosningar. Falli vantrauststillagan á hendur Davis er ekki hægt að fara fram á aðrar í sex mánuði. En hægt er að bera fram vantraust á nýjan ríkisstjóra strax og úrslit kosninganna verða staðfest.

Flókið reglukerfi í kring um kosningarnar sjálfar eykur líkur á mistökum og fjölgar kæruefnum. Til dæmis eru reglur um talningu atkvæða mismunandi á milli 58 sýslna Kaliforníuríkis. Sem dæmi um flækjustigið má nefna að kjörseðillinn má ekki vera eins í neinu af 80 kjördæmahverfum ríkisins. Frá 1975 hefur þurft að draga um stafrófsröð frambjóðenda og gildir hún í kjördæmahverfi nr. 1. Nafn efsta frambjóðandans færist neðst á seðilinn í hverfi 2 og þannig færast nöfn þeirra sem neðar eru ofar á seðililnn, koll af kolli. Hér fylgir til gamans kosningastafrófið fyrir þessar kosningar:

R W Q O J M V A H B S G Z X N T C I E K U P D Y F L

Kosningarnar í dag gætu ráðið miklu um pólitískt andrúmsloft í Bandaríkjunum næstu árin og því mikilvægt að framkvæmdin gangi vel fyrir sig. Allar líkur eru þó á því að næstu daga muni dynja á okkur fréttir um það sem miður hefur farið. Við getum prísað okkur sæl fyrir að hafa hingað til verið að mestu laus við svo farsakenndar kosningar, þótt nokkrar blikur gætu einnig verið á lofti hér.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)