And now for something completely different

Tony Blair hefur tilkynnt bresku þjóðinni að nú muni hann hætta að treysta á glæsilegar umbúðir í málflutningi sínum en einbeita sér frekar að innihaldinu. Þetta er áhugaverð yfirlýsing hjá einum fremsta stjórnmálamanni heims – og kannski merkilegast að hann skuli telja sig þurfa að taka þetta fram.

Tony Blair hefur tilkynnt bresku þjóðinni að nú muni hann hætta að treysta á glæsilegar umbúðir í málflutningi sínum en einbeita sér frekar að innihaldinu. Þetta er í alla staði hin furðulegasta yfirlýsing hjá forsætisráðherra Breta og ýtir enn frekar undir þá skoðun að stjórnmálin í Bretlandi séu mestmegnis innihaldslítið blaður. Raunar hefur The Economist fjallað um að stefnur Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins séu í megindráttum nákvæmlega eins en rifist sé um smávægileg áhersluatriði. Allt kapp er lagt á að reyna að aðgreina sig frá hinum.

Stjórnmálin í Bretlandi einkennast öðru fremur af kappræðum og dylst engum sem fylgst hefur með fyrirspurnartímum forsætisráðherra í þinginu að þar er það ekki innihaldið sem skiptir máli heldur hnyttnar athugasemdir, eftirminnilegar móðganir og frumlegir útúrsnúningar. Þannig geta heilu umræðutímarnir snúist upp í rifrildi um hvort hjúkrunarfræðingum í Hull hafi fjölgað um 50 eða 70 á síðustu árum, eða hvort Tony Blair, eða William Hague, hafi einhvern tímann í fyrndinni haft aðra afstöðu til mála en nú. Hið margrómaða umræðuform í breska þinginu býður vissulega upp á skemmtun en óhætt er að fullyrða að tilgangslausara blaður er vandfundið. Þetta blaður hefur orðið kjölfestan í breskum stjórnmálum og kosningabaráttan snýst því í raun um lítið annað en einhvers konar ímynd – eða illskilgreinanlegt traust.

Ætli það sé ekki álíka hættulegt fyrir Tony Blair að hætta að treysta á sjarmann eins og það væri fyrir William Hague að byrja á því. Í öllu falli verður það að teljast áhugavert að Blair hafi nú tilkynnt kjósendum að í fjögur ár hafi hann ekki byggt málflutning sinn á málefnalegum rökum heldur óaðfinnanlegri glansímynd – eða væri kannski hræsni að halda því fram að þessi yfirlýsing sé í raun til marks um að yfirborðsmennskan hafi náð áður óþekktum hæðum?

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.