Konunglegt danskt brúðkaup í vor

donaldson.jpgHinn hálffertugi Friðrik krónprins Danmerkur mun kvænast Mary Donaldson, rúmlega þrítugri, vel menntaðri og glæsilegri konu frá Ástralíu í vor. Eftir þessu hafði danska þjóðin og danska pressan beðið lengi, en Friðrik hefur tekið sinn tíma í að velja sér kvonfang, framtíðardrottningu Dana.

donaldson.jpgHinn hálffertugi Friðrik krónprins Danmerkur mun kvænast Mary Donaldson, rúmlega þrítugri, vel menntaðri og glæsilegri konu frá Ástralíu í vor. Eftir þessu hafði danska þjóðin og danska pressan beðið lengi, en Friðrik hefur tekið sinn tíma í að velja sér kvonfang, framtíðardrottningu Dana.

Friðrik og Mary hittust fyrst á ólympíuleikunum í Sidney fyrir um þremur árum. Krónprinsinn var þar ásamt bróður sínum Jóakim prins sem gestur og bar fundum hans og Mary saman í fjölmörgum teitum sem haldin voru vegna ólympíuleikanna. Síðan þá hafa myndir af þeim saman birst reglulega í dönsku tímaritunum og í sumar mátti greina á orðum Margrétar drottningar á blaðamannafundi í Caix í Frakklandi að hún ætti von á tengdadóttur.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá konungshöllinni munu Friðrik og Mary trúlofast, þann 8. október næstkomandi og giftast næsta vor, en sú dagsetning hefur ekki verið ákveðin. En það eitt að Friðrik og Mary játist hvort öðru nægir ekki. Hér koma fleiri að. Samkvæmt dönskum lögum þarf annars vegar drottningin sjálf að samþykkja ráðahaginn og hins vegar ríkisstjórnin. Ekki er búist við því að standi á samþykki þessara aðila, en þeir munu formlega gefa samþykki sitt á ríkisráðsfundi að morgni hins 8. október. Síðdegis þann dag munu Friðrik og Mary stíga á svið og veifa til fólksins fyrir framan Fredensborgarhöll. Að því loknu verður blaðamannafundur þar sem jafnvel er búist við því að Mary segi nokkur orð á dönsku, líkt og hin hong-kongska Alexandra Manley gerði þegar hún trúlofaðist Jóakim.

Fyrir nokkrum kynslóðum réði það úrslitum fyrir evrópskt konungborið fólk að finna maka sína í öðrum kóngafjölskyldum Evrópu og gat það á stundum reynst þrautin þyngri. Tímarnir eru hins vegar breyttir og þegar Friðrik krónprins gengur að eiga Mary Donaldson gerir hann nákvæmlega hið sama og aðrir af hans sauðahúsi í Evrópu gera nú á tímum; velur maka af borgaralegum ættum án nokkurs blás blóðs í æðum. Fjölmiðlamenn og spekúlantar hér í Danmörku eru sammála um að Mary Donaldson hafi þá eiginleika til að bera sem prýða eiga krónprinsessu og tilvonandi drottningu. Hún hefur heillað danskan almenning með glaðlegu og prúðu fasi, og ekkert hlaupið á sig í viðureigninni við ákafa ljósmyndara og blaðamenn glanstímaritanna sem hafa fylgst með hverju spori hennar. Hún er vel menntuð nútímakona með háskólagráðu í lögfræði og hagfræði. Þetta líkar Dönum.

Friðrik krónprins verður, ef allt gengur eftir, konungur Dana einn daginn – Friðrik X. (tíundi). Hann er nú 35 ára og hefur undanfarin ár, að mati danskra fjölmiðla, breyst úr óöruggum og feimnum ungum manni í vel menntaðan, alþýðlegan og nútímalegan heimsborgara. Hann er afar vinsæll í heimalandi sínu og í skoðanakönnunum vinsælastur í konungsfjölskyldunni. Honum hefur tekist að breyta viðhorfi almennings til sín því fyrir nokkrum árum var Jóakim prins vinsælli en hann.

Það er óhætt að slá því föstu að danskir lýðveldissinar, sem vilja sjá konungdæminu skipt út, eigi ekki sjö dagana sæla um þessar mundir. Konungsfjölskyldan hefur aldrei verið vinsælli en nú og ekki dregur hin nýja krónprinsessa Dana, Mary Donaldson, úr þeim vinsældum – þvert á móti.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)