Baksviðs á Deiglunni

backstage.jpgMargir lesendur velta því eflaust fyrir sér hvað gerist bak við tjöldin á einu ástsælasta vefriti þjóðarinnar. Ástir, örlög og rýtingsstungur á Deiglunni eru umfjöllunarefni Helgarnestis að þessu sinni.

backstage.jpgNú eru liðin meira en fimm ár síðan að deiglan.com hóf göngu sína á veraldarvefnum. Í fyrstu var það aðeins einn pólitískur einbúi sem hélt vefritinu uppi en síðan fóru fleiri að bætast við og nú er svo komið að yfir 40 manns skrifa á deigluna, mismikið þó.

Lengi vel var það nauðsynlegt skilyrði fyrir skrifum á Deiglunni að viðkomandi hafi einhvern tímann drukkið áfengi í grennd við ritstjórn blaðsins. Í seinni tíð virðist sem það skilyrði sé einnig orðið nægjanlegt og skýrir það hina miklu fjölgun penna að undanförnu.

Ólíkt vefritum á borð við frelsi og maddömuna er ekki treyst á að hvatvísi penna tryggi stöðugar uppfærslur. Menn fá úthlutað dögum sem þeir eiga að birta á ellegar fá einhvern til að gera það fyrir sig. Sumir nýta sér hégómagirnd ákveðinna afkastamikla og athyglissjúkra lúða sem alltaf eru til í að hlaupa í skarðið. Þetta er ástæðan fyrir þeirri sorglegu staðreynd að í dag birtast tveir pistlar eftir sama einstakling.

Skoðanir Deiglupenna eru æði fjölbreyttar sem og efnistök þeirra. Sumir þeirra kjósa að sigla lygnan sjó á meðan að aðrir meta gæði pistla eftir fjölda hatursbréfa sem í kjölfar hans koma.

Þannig hefur undirritaður gert það að íþrótt að skipulega grafa undan framtíð sinni á hægrivæng íslenskra stjórnmála með endalausu Evrópudaðri, „hérumbilandstöðu“ við hvalveiðar, ósanngjarnri gagnrýni á Björn Bjarnason og lágkúrulegum árásum á Heimdall, mekku íslenskrar nútímahugsunar. Til fullkomna svo verkið birtist í morgun pistill sem gagnrýndi LÍÚ. Nagli í líkkistuna.

Þetta hefur verið gert með hljóðlátu samþykki ritstjórnar enda kjörið tækifæri til að sýna fram á meinta „fjölbreytni“ og „óháðleika“ blaðsins og öðlast þannig traust framámanna í öllum flokkum og geta þarmeð stjórnað Íslandi án þess þó að þurfa nokkurn tímann að taka þátt í kosningum eða öðru eins veseni.

Félagslíf Deiglunnar skipar glæstan sess í starfi vefritsins. Þar erum við svo heppin að nokkrir pennanna eru einhleypir en vel hýstir sem er heppilegt þegar að hátíðarhöldum kemur. Undirritaður er einmitt nú um helgina á leiðinni í Septemberfest Deiglunnar og hlakkar til enda fjarri góðu gamni þegar Ágústfestið var haldið fyrir rúmum mánuði síðan.

Ég vona að lesendur hafi orðið einhvers vísari af þessum skrifum og taki þann létta og tilgerðarlega anda þeirra með sér út á lífið í kvöld og annað kvöld. Góða helgi!

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.