Hinir miklu hagsmunir

togari.jpgÍ Fréttablaðinu á þriðjudag birtist frétt þess efnis að á vegum viðskiptaráðuneytis væri verið að útfæra tillögur um að afnema hömlur á fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi. Haft var samband við Kristinn H. Gunnarsson fyrrverandi þingmann Alþýðubandalagsins og núverandi þingmann Framsóknarflokksins sem lýsti endalausum áhyggjum sínum af þessum máli. Ástæðan fyrir þessum áhyggjum Kristins var sú að „miklir hagsmunir væru í húfi“.

togari.jpgÍ Fréttablaðinu á þriðjudag birtist frétt þess efnis að á vegum viðskiptaráðuneytis væri verið að útfæra tillögur um að afnema hömlur á fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi. Haft var samband við Kristinn H. Gunnarsson fyrrverandi þingmann Alþýðubandalagsins og núverandi þingmann Framsóknarflokksins sem lýsti endalausum áhyggjum sínum af þessum máli. Ástæðan fyrir þessum áhyggjum Kristins var sú að „miklir hagsmunir væru í húfi“.

Kristni tókst þar með að sameina einkenni þeirra tveggja stjórnmálahreyfinga sem hann hefur starfað fyrir: almenna óbeit róttækra vinstri manna á hvers kyns fjárfestingum og almenna hræðslu framsóknarmanna við hið óþekkta.

En hverra hagsmunir eru það sem eru „í húfi“?

Hagsmunirnir eru auðvitað hagsmunir þeirra sem í dag eiga fyrirtæki í sjávarútvegi en mundu ekki eiga þau áfram eftir breytinguna. Hvaða fólk er það? Það eru þeir einstaklingar sem reka fyrirtæki sín ekki með nógu hagkvæmum hætti. Venjuleg markaðsrök hljóta að eiga við um sjávarútveg, sem aðrar greinar atvinnulífsins!

Hömlur á fjárfestingar eru eins og hverjar aðrar hömlur. Þær eru aðferð sem þjóðir nota til að gera sjálfar sig fátækari. Tollar eru leið til að fá neytendur til að sætta sig við verri og dýrari innlenda framleiðslu á kostnað erlendrar. Hömlur á uppsögnum starfsmanna eru leið til að neyða vinnuveitendur til að halda í vondan starfsmann fremur en að reka hann og ráða góðan.

Hvers vegna ætti þá ekki líka að banna útlendingum að reka verslanir, skóla eða kvikmyndahús? Ja, eða álver? Væri það ekki mikilvægt til að vernda þá miklu „hagsmuni“ sem „í húfi eru“?

Í dag birtist svo önnur grein um málið í Fréttablaðinu. Þar var rætt við einn „hagsmunaaðilanna“, framkvæmdarstjóra LÍU. Hann segir m.a.:

„Ef útlendingar ná yfirráðum færist arðurinn út. Erlendis er hugsunarhátturinn víðast hvar annar en gerist meðal íslenskra og sjómanna og útgerðarmanna og birtist okkur í ofveiði og slæmri umgengni um lögsöguna.“

Lengi vel hefur Ögmundur Jónasson sungið vísu um hina illkvittnu auðmenn sem fara inn í fyrirtæki til að „hafa út úr þeim arð“. Flestum markaðssinnum hefur þessi vísa þótt fremur kjánaleg. Nú er hins vegar svo komið að Ögmundarlygin virðist hafa náð eyrum forsvarsmanna stærstu útflutningsgreinar landsins. Hinir vondu útlensku auðjöfrar ætla nú að fara inn í íslensk fyrirtæki og „taka út úr þeim arð“ og skilja þau síðan eftir í sárum sínum.

Þótt að útlendingar ættu íslensk sjávarútvegsfyrirtæki þyrftu þeir auðvitað að fara að lögum við nýtingu auðlindarinnar. Rökin um ofveiði eru því fremur kjánaleg. Það er síðan auðvitað ekki þannig að íslendingar reki fyrirtæki sín af einhverri göfugri hugsjón. Þau fyrirtæki sem eru vel rekin eru rekin í gróðaskyni. Vissulega eru alltaf til menn sem setja skammtímagróða ofar langtímaáætlunum en slíkt á við um allar greinar atvinnulífsins og takmarkast alls ekki við útlendinga.

Nú væri kjörið fyrir frjálshyggjufólk að láta í sér heyra um þetta mál. Sérstaklega þar sem þeir tilheyra flestir þeim flokki sem oft hefur verið sakaður um að vera málpípa útvegsmanna. Ég fagna því skriði sem komið er á umræðuna og voni að hún skili sér í sem mestu frjálsræði þegar fram líða stundir.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.