Vantraustskosningar í Kaliforníu I

davisguns.jpgÞann 7. október n.k. fara fram mjög umdeildar ríkisstjórakosningar í Kaliforníu. 1,6 milljónir íbúa ríkisins skrifuðu undir beiðni um að haldnar yrðu aukakosningar, eða n.k. vantraustskosning vegna ríkisstjórans Gray Davis. Slíkar kosningar hafa aðeins einu sinni farið fram áður í Bandaríkjunum.

Gray Davis berst fyrir pólitísku lífi sínu…

Kosningin er tvíþætt. Annars vegar er kosið um vantraust á Gray Davis og þarf einfaldan meirihluta til að fella hann úr embætti. Hins vegar er kosið um arftaka hans, að því gefnu að kjósendur staðfesti vantraustið. A.m.k. 135 manns hafa gefið kost á sér í embættið. Til að knýja fram vantraustskosningar þarf undirskriftir 12% þess fjölda sem tók þátt í síðustu kosningum í ríkinu.

Umræðan um kosningarnar er á köflum farsakennd. Þar leika frambjóðendur stórt hlutverk, því listinn yfir þá er æði skrautlegur eins og sjá má hér. Þar má m.a. finna klámstjörnur, súmókappa og sjálfskipaðan talsmann reykingamanna.

Bæði Gray Davis og meint óháð samtök hafa reynt að fá kosningunum frestað, m.a. á þeim forsendum að stór hluti kjósenda þurfi að notast við samskonar kosningavélar og notaðar voru í Flórída. Í gær felldi alríkisdómstóll í San Francisco úr gildi fyrri úrskurð dómstóla um að fresta skyldi umdeildum ríkisstjórakosningum í Kaliforníu þangað til í mars. Því lítur út fyrir að kosið verði eftir tæpar tvær vikur, þó enn gæti komið til kasta hæstaréttar í þessu máli.

Gray Davis hefur einnig farið fram á að hann fái líka að vera í framboði til ríkisstjóra og því geti hann tekið við embætti sjálfur aftur ef vantraustið verður samþykkt. Af einhverjum ástæðum sáu dómstólar ekki ástæðu til að verða við þeirri beiðni.

Vantraustskosningar vegna ríkisstjóra á borð við þessar eru leyfðar í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna en hafa aðeins farið fram einu sinni áður. Það var í Norður Dakóta árið 1921, en þá var samþykkt vantraust á Lynn J. Frazier sem sakaður var um róttækan sósíalisma. En vildi ríkisvæða banka og hveitimyllur í baráttu við hríðlækkandi verð á landbúnaðarafurðum. Hann hlaut þó uppreisn æru strax ári seinna þegar hann var kosinn í öldungadeildina þar sem hann sat í 18 ár.

Öll nótt er því ekki úti fyrir Gray Davis þó hann verði settur af. En vaxandi skuldir ríkisins, hækkaðir skattar og aukið atvinnuleysi eru helstu ástæður þess að vantrausttillagan var lögð fram. Hann þykir líka harður í horn að taka og líklegur til að ætla sér enn meiri frama í pólitík.

… en andstæðingarnir eru óárennilegir.

Nokkrir eru nefndir til sögunnar sem líklegir arftakar Davis. Þeirra frægastur er hasarhetjan Arnold Schwartzenegger, en hann og Tom McClintock hafa verið mest áberandi frambjóðendur repúblikanaflokksins. Helsta von demókrata er hins vegar Cruz Bustamante vararíkisstjóri.

Hvernig sem fer er ljóst að kosningarnar eru þegar orðnar sögulegar og mjög skrautlegar. Þær verða eflaust til þess að einhverjir fá enn meiri skömm á stjórnmálum á meðan aðrir eru himinsælir með svo virkt lýðræði.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)