Ábyrgð á mannréttindabrotum

Pistillinn fjallar um þann úrskurð Hæstaréttar Chile að Pinochet væri ósakhæfur vegna heilsubrests. Mál hans hefur haft mikil áhrif á afstöðu ríkja til friðhelgi ráðamanna og lögsögu vegna tiltekinna brota.

Árið 1973 var stjórn Salvador Allende steypt af stóli og herinn, undir forystu Augusto Pinochet, tók völdin í Chile. Næstu sautján árin stjórnaði Pinochet landinu með harðri hendi. Á valdatíma sínum var hann talinn bera ábyrgð á morðum, pyntingum og mannránum á þúsundum manna.

Árið 1998 var Pinochet handtekinn í Bretlandi vegna framsalsbeiðnar spænsks dómara. Var honum gefið að sök að hafa staðið fyrir morðum og mannránum á spænskum ríkisborgurum. Deilur um hvort framselja ætti hann til Spánar stóðu í marga mánuði. Snerist ágreiningurinn einkum um hvort Pinochet ætti að njóta friðhelgi sem fyrrverandi þjóðarleiðtogi og hvaða dómstólar hefðu lögsögu í málinu.

Í þjóðarétti hefur lengi gilt regla um friðhelgi þeirra sem gegna tilteknum embættum, þar á meðal þjóðarleiðtoga. Aftur á móti kveða ýmsir alþjóðlegir sáttmálar á um að ekki sé hægt að komast hjá refsiábyrgð í skjóli tiltekinnar stöðu, þannig að friðhelgi geti fallið niður í vissum tilvikum. Einnig hafa ríki takmarkaða lögsögu varðandi afbrot sem framin eru af þegnum annarra ríkja og í öðrum löndum. Í alþjóðasáttmálum má hins vegar finna reglu um að varðandi tiltekna alvarlega glæpi gildi allsherjarlögsaga, þannig að þau mál heyri undir dómstól hvar sem hann er í heiminum.

Æðsta dómsvald í Bretlandi komst að lokum að þeirri niðurstöðu að fyrrverandi einræðisherrann Pinochet gæti ekki notið friðhelgi, vegna eðlis þeirra glæpa sem hann var sakaður um. Vakti þessi ákvörðun mikla athygli um allan heim. Framsalsbeiðni Spánar náði þó ekki fram að ganga. Innanríkisráðherra Bretlands leysti Pinochet úr haldi með þeim rökum að hann væri ekki fær að verja sig vegna heilsubrests og Pinochet sneri aftur til Chile.

Pinochet hafði látið skipa sig öldungardeildarþingmann fyrir lífstíð áður en hann lét af völdum og naut hann því þinghelgi. Hæstiréttur Chile svipti hann hins vegar þinghelginni og þar af leiðandi var hægt að lögsækja hann þar fyrir þau mannréttindabrot sem áttu sér stað á valdatíma hans. Fyrir rúmri viku úrskurðaði Hæstiréttur Chile að Pinochet væri ósakhæfur vegna heilsubrests. Þar með var ekki hægt að ákæra hann fyrir morð á pólitískum andstæðingum hans, sem áttu sér stað stuttu eftir valdarán hans. Dómurinn hefur væntanlega fordæmisgildi þannig að erfitt verður að sækja hann til saka vegna fjölda annarra ákæra sem bíða hans.

Það verður því hugsanlega aldrei skorið úr um ábyrgð Pinochet á þeim mannréttindabrotum sem framin voru í Chile á valdatíma hans. Hins vegar hefur mál hans haft mikil áhrif á afstöðu ríkja til friðhelgi ráðamanna og lögsögu vegna tiltekinna brota. Á sama tíma og Hæstiréttur Chile kvað upp úrskurð sinn yfir Pinochet, tók Rómarsamþykktin um Alþjóðlega sakamáladómstólinn gildi. Dómstólnum er ætlað að dæma í málum einstaklinga sem grunaðir eru um alvarlegustu glæpi gegn mannkyninu, þ.e. hópmorð, glæpi gegn mannúð, glæpi gegn friði og stríðsglæpi. Dómstóllinn er varanlegur og hefur almenna lögsögu. Með stofnun dómstólsins eru gefin skýr skilaboð; menn á borð við Pinochet munu framvegis ekki komast undan því að svara til saka fyrir mannréttindabrot.

Latest posts by Drífa Kristín Sigurðardóttir (see all)