Lærdómur dreginn af „Kanasjónvarpinu“

Gamli sögukennarinn, Lipschultz, virðist stundum vera heldur hranalegur en af einum þætti af Boston Public um daginn var ágæt áminning um að hranaleg framkoma þarf ekki endilega að bera hörðu hjartalagi vitni.

Á Skjá einum er sýndur sjónvarpsþáttur sem heitir Boston Public. Þátturinn fjallar um lífið og tilveruna í unglingaskóla í Boston. Fylgst er með nemendum, kennurum og skólastjórnendum glíma við dagleg vandamál sem oft og tíðum eru hreint út sagt svakaleg. Þessi þáttur er að mínu viti eitt hið besta sjónvarspefni sem boðið er upp á um þessar mundir. Þótt hér sé um að ræða dæmigerða ameríska vandamálasápu þá sker hún sig úr fyrir það hversu þættirnir eru afbragðsvel leiknir og skrifaðir. Ég skammast mín ekki fyrir að segja að eftir að hafa horft á þessa þætti þá finnst mér ég jafnan skilja heiminn örlítið betur en áður.

Einn skemmtilegasti karakterinn í þáttaröðinni heitir Harvey Lipschultz. Hann er gamall gyðingur sem oft verður fótaskortur á tungunni og á það til að vera klaufskur í samskiptum þrátt fyrir góðan vilja. Í þætti sem sýndur var fyrir nokkrum vikum sagði Harvey við einn þeldökkan nemanda sinn eitthvað á þessa leið: “This old Jew is going to get your black ass into college.” Eins og gefur að skilja ollu þessi ummæli miklu fjaðrafoki í skólanum og hinir frjálslyndu kennarar skólans áttu ekki erfitt með að fordæma gamla manninn og mæla með brottrekstri hans. Harvey gamli vissi ekki hvaðan á hann stóð veðrið og hugsaði með sér að sennilegast væri það bara rétt hjá öllu þessu fólki að hann hlyti að vera óforbetranlegur rasisti en bætti því svo við að ef einhver rétti honum lista yfir nemendurna þá gæti hann ekki sagt til um hverjir þeirra væru þeldökkir og hverjir ekki. Það skipti hann nákvæmlega engu máli.

Mér hefur sjaldan orðið það eins ljóst í hverju fordómaleysi felst eins og við að sjá þetta væmnislega atriði í amerískum sjónvarpsþætti. Fordómaleysi felst ekki í því að vera blindur á það sem aðgreinir okkur heldur í því sjá það ekki sem ástæðu til að draga fólk í dilka.

Vissulega má segja að orð kennarans í ofangreindu dæmi séu óvarkárnisleg og hljómi fremur harðneskjulega – en hefði okkur brugðið eins mikið ef hann hefði sagt við hvítan nemanda: “I´m gonna get your white ass into college”? Eða finnst okkur setningin: “Nelson Mandela er svartur” fela í sér einhvers konar móðgun á meðan setningin: “Ísólfur Gylfi Pálmason er hvítur” ekki gera það? Ef svo er þá erum við að opinbera fordóma og fávísi. Litarhaft hefur ekkert að segja um innræti, gáfnafar eða mannkosti einstaklinga – ekki frekar en háralitur eða skóstærð.

Í pólitískri rétthugsun felst að okkur beri að fordæma menn á borð við þennan ágæta karakter í bandaríska sjónvarpsþættinum fyrir tungutak sitt en láta hegðun hans og innræti lönd og leið. Pólitísk rétthugsun getur því þjónað sem skálkaskjól fyrir þá sem fremur vilja fela fordóma sína en að vinna bug á þeim og hafna þeim. Þegar fólki lærist að virða einstaklinga eftir gáfulegri mælistikum en hörundslit og kynferði mun fólki einnig lærast að orðin “svartur” og “hvítur” eru ekki skammaryrði, þegar notuð eru um fólk, heldur eru þau algjörlega ógildishlaðin og ómerkileg lýsingarorð – rétt eins og “nefstór” og “innskeifur”.

Þess má geta að þættirnir Boston Public eru sýndir á Skjá einum á þriðjudögum kl. 20.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.