Ljúfa Ljósanótt

Á morgun laugardaginn 6. september verður haldin Ljósanótt í Reykjanesbæ. Hátíðin er einstaklega glæsileg í ár og ástæða fyrir alla til að leggja leið sína þangað um helgina. Eða eins og hið fornkveðna segir: „kvöldin þar þau eru engu lík…“

Ljósanótt í Reykjanesbæ verður á morgun haldin hátíðleg í fjórða sinn. Síðan árið 2001 hefur hátíð af þessu tagi verið haldin fyrsta laugardag septembermánaðar. Hátíðin hefur stækkað ár frá ári og að þessu sinni byrjaði dagskráin í gær.

Meðal dagskrárliða í gær var hnefaleikakeppni milli Dana og Íslendinga, púttmót og opnun ýmissa listasýninga. Í dag verða enn fleiri listviðburðir og má meðal annars nefna að Magnús Eiríksson og KK spila í Sparisjóðnum, unglingatónleika á stóru útisviði við nýuppgerða Hafnargötuna og að sjálfsögðu valið á ljósalaginu í Stapanum í kvöld.

Á morgun nær dagskráin hámarki og mikið um dýrðir. klukkan 16 verður s.k. stjörnuspor afhjúpað á Hafnargötunni í anda „Walk of Fame“ í Hollywood. Það er tileinkað Hljómum sem á 40 ára starfsafmæli á þessu ári. Annað kvöld verða svo bryggjusöngur og bæjarstjórnarbandið hitar upp fyrir tónleika Hljóma. Klukkan tíu verða svo ljósin á Berginu, sem hátíðin heitir eftir, tendruð. Þvínæst verður sérlega glæsileg flugeldasýning í boði Sparisjóðs Keflavíkur. Að sjálfsögðu verður svo líf og fjör um allan bæ fram eftir nóttu.

Ljósanótt hefur þegar öðlast fastan sess í hugum og hjörtum íbúa Reykjanesbæjar. Hugmyndin að lýsingu Bergsins og frumkvæðið að framkvæmdinni kom frá Steinþóri Jónssyni, athafnamanni og bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ, en hann er nú formaður undirbúningsnefndar.

Ég hvet alla til að leggja leið sína í Reykjanesbæ til að taka þátt í þessum einstaka og skemmtilega viðburði með bæjarbúum, enginn verður svikinn af því.

Hér er heimasíða Ljósanætur og dagskráin.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)