Af stríðsæsingi

WinstonÍ aðdraganda heimsstyrjaldarinnar síðari skiptust breskir stjórnmálamenn í tvö horn. Annars vegar fylgdu menn stefnu Chamberlain um eftirlátssemi gagnvart Hitler og hins vegar stóðu þeir við hlið Churchill sem treysti nasistaforingjanum ekki fyrir horn. Churchill hafði rétt fyrir sér en Chamberlain ekki. Þeir stjórnmálamenn sem styðja stríð í Írak eru óragir við að rifja þetta upp.

WinstonSíðari heimsstyrjöldin er í hugum flestra ágætt dæmi um stríð þar sem munurinn á hinum rétta málstað og hinum ranga er augljós. Allir eru sammála um að málstaður bandamanna, sem börðust gegn þriðja ríki Hitler, hafi verið réttlátur málsstaður og að fórnirnar sem færðar voru til þess að stöðva úbreiðslu fasismans hafi verið þess virði. Heimurinn er betri af því að öfl lýðræðis, mannréttinda og mannkærleika stöðvuðu útþenslu stjórnarherra sem ólu á hatri og mannfyrirlitiningu.

Þegar yngri kynslóðir lesa um aðdraganda síðari heimsstyrjaldar er varla hægt annað en að hneykslast á hegðan breska forsætisráðherrans Neville Chamberlain sem fór til Munchen og samdi við Hitler um að honum yrði leyft að ráðast inn í Tékkóslóvakíu og hernema landið. Ódauðleg, og alræmd, eru orð hans um að með þeim samningi hefði hann tryggt “frið um vora daga”. Sá friður hélt auðvitað ekki lengi.

Hin hliðin á Chamberlain peningnum er auðvitað Winston Churchill. Hann var orðinn einangraður og útskúfaður í breskum stjórnmálum þegar hann sagði hverjum sem heyra vildi að Bretland hefði beðið algjöran ósigur og hegðað sér af vansæmd með því að umbera yfirgang nasista. Churchill sá það sem aðrir þorðu ekki að sjá. Hann sá að samningar við Hitler gætu aldrei orðið annað en gálgafrestur; og síðar sagði hann að ef Hitler réðist inn í helvíti myndi hann vafalaust taka upp málstað satans í breska þinginu.

Þeir Bretar, sem töldu sig geta komist undan stríði við Hitler með eftirgjöf, hafa verið kallaðir “appeasers” – menn sem vildu stilla til friðar með því að láta undan kröfum óvinarins.

Þeir sem ekki þorðu að horfast í augu við þær erfiðu ákvarðanir sem Bretar stóðu frammi fyrir hafa síðan þá þjónað sem staðalmynd fyrir hugleysingja í stjórnmálum – og allir stjórnmálamenn vita hver örlög fær sá sem hörfar frá réttlátum málstað í eftirsókn eftir friði.

Andstæðingar stríðsrekstrar Bandaríkjanna og Breta í Írak hafa mátt heyra það sagt um sig að þeir séu sambærilegir við Neville Chamberlain og þeim sem fylgdu honum að málum. Saddam Hussein er við hvert tækifæri líkt við Hiter og því var haldið á lofti í aðdraganda stríðsins að Hussein væri líklegur til þess að leggja undir sig önnur lönd ef honum yrði ekki steypt með utanaðkomandi afli.

En hvaða vit er þessari samlíkingu?

Lítið. Heimsbyggðin brást við því af mikilli hörku þegar Írak réðst inni í Kúveit og hernam landið. Alþjóðalög hafa einfaldlega fests það vel í sessi að biluðum þjóðarleiðtogum er aldrei gert kleift að hernema önnur lönd án þess að brugðist sé við því af alvöru; enda var Írökum skóflað út úr Kúveit nokkrum mánuðum eftir að þeir komu þangað inn. Í kjölfarið var að auki séð til þess að Íraksstjórn hefði ekki burði eða tækifæri til þess að byggja upp herafla til þess að fara út í aðrar slíkar trakteringar. Persaflóastríð hið síðara leiddi það vel í ljós að daglegar loftárásir í tíu ár og viðskiptabann á Írak skiluðu tilætluðum áhrifum; og höfðu raunar margháttaðar miður geðslegar aukaverkanir.

Nasistar í Þýskalandi höfðu hins vegar mörg ár til þess að byggja upp hersveitir og hergögn og undirbúa sig fyrir innrásarstríð í nágrannaríkin. Heimsbyggðin svaf á verðinum.

Ef Churchill væri uppi í dag er líklegt að hann hefði sömu ímugust á einræðisherrum og hann hafði þá. Hann hefði vafalaust einnig sömu ímugust á stríði og hann hafði þá; því ólíkt þeim leiðtogum sem nú vilja leiða Vesturlönd í hvert árásarstríðið á fætur öðrum hafði Chruchill sjálfur verið þátttakandi í stríðsátökum. Hann vissi vafalaust að til þess að geta réttlætt morð fyrir málstað þyrftu menn að vera tilbúnir að deyja fyrir hann.

Staðreyndin er því miður sú að stríðsæsingamenn gera alltaf það sem í þeirra valdi stendur til þess að tortryggja friðarsinna. Þeir gefa til kynna að þeir séu hugsjónalausir vinglar og gungur. Þeir minnast með lotningu þeirra sem þorðu að fara í réttlátt stríð á meðan aðrir stungu höfðinu í sandinn. Það er réttmætt. En þeir gleyma því kannski stundum að mannkynssagan minnist einnig þess hvort menn sögðu satt eða ósatt – og engum dylst að það var Churchill sem sagði satt um hættuna sem stafaði af Þjóðverjum; en Chamberlain sagði ósatt.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.