Partíið er búið – en það verður haldið annað

Þær breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi á síðustu árum hafa gert það að verkum að góðæristímabil framtíðarinnar gefa fleira fólki tækifæri til þess að nýta sér það og koma hugmyndum sínum í framkvæmd.

Góðærispartíinu er lokið. Um það deilir enginn þótt menn séu ekki á eitt sáttir um hversu alvarlegir timburmennirnir koma til með að verða. En vísast eru þó nokkurn veginn allir sammála um að leita þurfi skýringa og helst sökudólga. Margir samverkandi þættir verða til þess að markaðir rísa og falla með tilheyrandi afleiðingum en þar sem engin skilur það allt saman til hlítar finnst mörgum greinilega best og þægilegast að kenna Davíð Oddssyni um “ófarirnar” – en gæta þess þó að láta sem stefna hans og ríkisstjórna hans hafi lítið haft með hinn mikla árangur síðustu ára að gera.

Staðan í efnahagsmálum hérlendis er orðin nokkuð erfið. Gengislækkun krónunnar og aukin verðbólga bjóða einna helst upp á verulega vaxtahækkun, samkvæmt hefðbundinni hagfræði, en þar sem vextir hér eru þegar mjög háir má fullyrða að slík aðgerð kæmi til með að lenda á fjölskyldum og fyrirtækjum af óbærilegum þunga. Þetta háa vaxtastig bitnar auðvitað mjög á skuldugum fjölskyldum og einstaklingum en margir hafa spennt bogann æði hátt á undanförnum misserum í von um hlutdeild í ofsafengnum hækkunum á mörkuðum. Nú sitja margir uppi með verðlítil hlutabréf og miklar skuldir. Þetta er afleiðing þess að í síðustu uppsveiflu gafst almenningi á Íslandi í fyrsta skiptið tækifæri til þess að fjárfesta af einhverju viti í innlendum og útlenskum fyrirtækjum – og auðvitað gerðu ýmsir mistök. En aðalatriðið er að nú höfðum við tækifæri og því má ekki glata.

Íslendingar eru kappsöm og nýjungagjörn þjóð og þess vegna er ekki skrýtið þótt ýmsir lendi í vandræðum þegar skóinn kreppir í efnahagsmálum. Þetta þjóðareinkenni hefur sínar slæmu hliðar en jákvæðu hliðarnar eru þó ennþá mikilvægari ef rétt er að landsstjórninni staðið. Óttaleysi okkar gagnvart áhættu gerir okkur vel í stakk búin til þess að grípa tækifærin þegar þau gefast og sú seigla og þrautseigja sem menning okkar hefur í hávegum hjálpar okkur við að sjá fram úr erfiðleikum án þess að missa vonina.

Aðgerðir ríkisstjórna Davíðs Oddssonar á síðustu tíu árum hafa skilað okkur þjóðfélagi sem býður upp á miklu fleiri möguleika en nokkru sinni fyrr. Áföll í hagkerfinu eru tímabundin en þær breytingar sem orðið hafa á íslensku efnahagslífi á þessum tíma verða ekki svo glatt teknar til baka. Efnahagurinn mun batna á ný. Þá er mikilvægt að þjóðfélagið bjóði þegnum sínum upp á tækifæri til að nýta möguleikana sem bjóðast. Þess vegna er mikilvægasta verkefni þjóðarinnar nú um stundir að standa vörð um þann árangur og það frelsi sem aðgerðir ríkisstjórna Davíðs Oddssonar hafa skilað okkur. Því verðum við að láta holtaþokuvæl og leirburðarstagl þeirra stjórnmálamanna sem gera út á öfund og vonleysi sem vind um eyru þjóta því þótt partíið sé búið í bili þá verður haldið annað seinna og núna kunnum við a.m.k. aðeins betur að dansa.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.