Niðurgreiðsla íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er sannkallað réttlætismál – eða hvað…?

Íbúar höfuðborgarinnar standa höllum fæti gagnvart landsbyggðarbúum þegar kemur að kaupum á húsnæði, og þetta sérstaklega við um ungt fólk sem er kaupa sína fyrstu eign. Oftar en ekki er um að ræða fólk sem fætt er og uppalið á höfuðborgarsvæðinu og vill hvergi annars staðar vera.

Íbúar höfuðborgarinnar standa höllum fæti gagnvart landsbyggðarbúum þegar kemur að kaupum á húsnæði, og þetta sérstaklega við um ungt fólk sem er kaupa sína fyrstu eign. Oftar en ekki er um að ræða fólk sem fætt er og uppalið á höfuðborgarsvæðinu og vill hvergi annars staðar vera. Af einhverjum ástæðum er íbúðarverð margfalt hærra á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Fyrir ungt fólk á landsbyggðinni er það tiltölulega lítið mál að koma þaki yfir höfuð sér á meðan ungir höfuðborgarbúar þurfa að rogast með myllusteina um hálsinn til að búa í eigin húsnæði. Það hlýtur því að vera eðlileg krafa ungra höfuðborgarbúa að ríkisvaldið jafni þennan mikla aðstöðumun og þar með lífsskilyrði þessa tveggja hópa.

Eða hvað?

Vinstrimenn í Framsóknarflokknum og Græningjum hafa nú sett fram þá kröfu að ríkisvaldið leggi sérstaklega til fjármuni til að niðurgreiða dreifingu ýmissa blaða og tímarita á landsbyggðinni. Það er víst réttlætismál að Íslendingar geti lesið sömu blöð og tímarit hvar á landinu sem þeir búa – á sama verðinu. Og þar sem það kostar peninga að flytja blöð hundruð kílómetra til að hægt sé að lesa þau á tilteknum stað, þá skulu skattborgarar ganga undir bagga og borga brúsann. Í því felst auðvitað hið endanlega réttlæti og sanngirnin sjálf.

En á ekki ungi Reykvíkingurinn skilið aðstoð skattborgaranna, svo hann geti keypt sér húsnæði á sama verði og jafnaldri hans á Súgandafirði? Hvurslags óréttlæti er það, að sá fyrrnefndi þurfi að borga margfalt hærra verð fyrir steinsteyptan kubb, bara af því hann er á tilteknum stað á landinu?

Menn velja sér búsetu eftir sínu eigin gildismati. Þannig er margt fólk sem fremur kýs að búa í frjálsri víðáttu landsbyggðarinnar, í umhverfi sem ekki er jafn þjakað af streitu og asa höfuðborgarinnar. Börn njóta sín hvergi betur en í því „lífsrými“ sem þeim gefst á landsbyggðinni. Þar er líka ódýrt húsnæði. Gegn þessu þurfa menn að greiða meira fyrir hvers kyns vörur, þ. á m. Bleikt & Blátt, Vikuna og Gestgjafann.

En íbúi höfuðborgarsvæðisins, sem þola má þungar afborganir af dýru húsnæði, umferðarteppu á hverjum einasta degi, slítandi hraða og streitu, býr hins vegar við þann „lúxus“ að þurfa að greiða minna fyrir þessi tímarit, auk þess sem hann getur farið í bíó og á Sinfóníutónleika reglulega án þess að leggja í mikinn kostnað vegna ferðalaga.

Um þessar mundir kjósa fleiri síðarnefnda kostinn en gildismat fólks breytist frá einum tíma til annars. Byggðaþróun er eðlilegt og sjálfsagt fyrirbæri. Hún á einmitt að ráðast af gildismati fólks á hverjum tíma, eins og hún hefur gert í þúsundir ára, en ekki duttlungafullum hugmyndum stjórnmálamanna um hvar sé best að koma landslýð fyrir.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.