Ísland – Sækjum það heim

DalvíkÉg er áhugamaður um “krummaskuð” – íslensk krummaskuð. Ef til vill er það kyrrðin í sveitunum, mannfólkið eða sú staðreynd að pistlahöfundur er alinn upp á landsbyggðinni Hvað sem veldur er fjársjóður fólginn í því að ferðast um landið, leyfa sér að vera ferðamaður og njóta þessara margbölvuðu byggðarlaga.

DalvíkÉg er áhugamaður um “krummaskuð” – íslensk krummaskuð. Það hefur verið sérstakt markmið hjá undirrituðum að koma við á öllum þéttbýlissvæðum landsins, einungis til þess að skoða byggðalögin og ræða við gesti og gangandi. Ég geri mér ekki nákvæmlega grein fyrir því hvað veldur þessari áráttu. Ef til vill er það kyrrðin í sveitunum, mannfólkið eða sú staðreynd að undirritaður er alinn upp á landsbyggðinni, svokallaður “dreifari” á Reykvísku. Hvað sem veldur er fjársjóður fólginn í því að ferðast um landið, leyfa sér að vera ferðamaður og njóta þessara margbölvuðu byggðarlaga.

Erlendir ferðamenn sem koma hingað í skipulagðar ferðir, fara með leiðsögumönnum um landið og fræðast um borgina, geta eflaust sagt mörgum okkar meira um nánasta nágrenni en við sjálf. Við bara búum hérna, lifum af landsins gæfum og ógæfum og veltum lítið fyrir okkur hvernig land og borg byggðist. Á sama hátt getum við eflaust sagt íbúum Kaupmannahafnar meira um Kaupmannahöfn en þeir sjálfir. Við förum nefnilega flest ekki í ferðamannagírinn fyrr en við erum komin út fyrir landsteinana. En það er unaðslegt að geta fjarlægst hvunndaginn, farið út á land og leyft sér að vera “útlendingur” á Íslandi.

Ef ég ætti að lýsa dæmigerðu íslensku þorpi samanstendur það yfirleitt af byggð í kringum eina aðalgötu, oft nálægt höfn. Við aðalgötuna er helstu þjónustu að finna sem veitt er á staðnum: Myndbandaleigu, pizzastað/krá, bankaútibú, nýlokað pósthús og bensínstöð sem jafnframt er tengd skyndibitastað sem selur pulsur og “sveitta” hamborgara. Þjónustan er sú besta sem þekkist. Það má deila um fagmennskuna á einstaka veitingastöðum en velvildin og vinsemdin er með eindæmum. Bensínstöðin er uppspretta upplýsinga fyrir áhugasama ferðamenn til að fá augnabliksmynd af samfélaginu og íbúunum sem flestir bera stytt eftirnöfn eða kenniheiti: Hvað er að gerast, um hvað er talað, er að fjölga eða fækka í byggðinni, hvað er lítið að marka loforð stjórnmálamanna o.s.frv. Efnahagslífið er smátt í sniðum en endurspeglar jafnframt margbreytileika markaðshagkerfisins. Í glugga bensínstöðvarinnar má iðulega finna hvers konar miða, oft handskrifaða, er auglýsa margvíslega þjónustu án íburðar og markaðslegs prjáls:

Tek að mér að steypa neglur, set maska og snyrti augabrúnir. Til í alls konar litum frá Connelli.

Kolla Sæ. 824-4598

Rúllur til sölu. Uppl. í síma 457-9632.

Maggi í Efra.

Vorum að fá nýjar vörur. Tískuvík, Borgarsandi 8.

Ég hef verið iðinn við að heimsækja íslensk smáþorp og bæi. Þó eru nokkrir staðir á landinu sem hafa ekki enn verið sóttir heim því þrátt fyrir smæð þjóðarinnar og þá staðreynd að helmingur landsmanna býr á höfðborgarsvæðinu er landið dreifbýlt með ólíkindum og byggðalögin mörg. Sveitarómantíkin hrífur mig allan en sorglegt er að sjá hvert stefnuleysi landsins í byggðamálum leikur sveitirnar grátt. Atvinnuástand er víða bágborið og enginn íslenskur stjórnmálflokkur treystir sér til þess að horfast í augu við vandamálin og móta stefnu til framtíðar. Skilgreina þarf kjarnabyggðarlög og fylgja eftir með aðgerðum og markmiðum er gera þau að veruleika. Við getum byggt snjóflóðavarnargarða í hverjum firði og grafið göng í gegnum öll fjöll landsins án þess að það hafa nein áhrif á atvinnuþróun íslenskra byggða. Það er landsmönnum til heilla að horfast í augu við vandamálin strax og grípa til aðgerða.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)