„Ég ætla alla vega ekki að þagna”

Eins og greint var frá í Deiglufréttum í gær verður Silfur Egils ekki á dagskrá Skjás eins í vetur. Deiglan kafaði ofan í málið og heyrði í Agli Helgasyni, stjórnanda Silfursins.

„Að mörgu leyti fannst mér orðið verulega að mér þrengt á Skjánum, það lá ákveðið vantraust í loftinu og ég var í raun farinn að vera miklu gætnari en mér er eiginlegt að vera,” segir Egill Helgason.

Eins og greint var frá í Deiglufréttum í gær verður Silfur Egils ekki á dagskrá Skjás eins í vetur. Deiglan kafaði ofan í málið og heyrði í Agli Helgasyni, stjórnanda Silfursins, en yfirmenn Skjás eins tilkynntu Agli uppsögnina um helgina.

Þátturinn hefur verið meðal vinsælasta dagskrárefnis á Skjá einum frá því að hann hóf göngu sína fyrir fjórum. Flestir eru sammála um að vinsældari þáttarins byggi einkum á stjórnandanum og hans sérstaka stíl. Segja má að tilkoma Silfursins hafi valdið vissum straumhvörfum í stjórnmálaumræðum á Íslandi. Egill var valinn sjónvarpsmaður ársins á Eddu-hátíðinni 2002.

Átök á bak við tjöldin

Það hefur legið í loftinu í nokkurn tíma að breytingar væru í vændum með Silfrið. Mikill titringur varð á Sjá einum fyrir kosningar sl. vor og var Egill þá óspar á óbeinar skeytingasendingar til yfirboðara sinna í þættinum. Egill staðfesti í viðtali við Deigluna í dag að samstarfið hafi ekki verið upp á marga fiska:

„Það eru komnir nýjir stjórnendur að stöðinni sem hafa ekki kunnað að meta það sem ég geri. Fyrir kosningarnar í vor vildu þeir gera miklar breytingar á þættinum en gáfust upp á þvi eftir nokkur átök. Því kemur þessi niðurstaða ekkert sérstaklega á óvart. Ég hefði þó verið tilbúinn að halda áfram með þættina, mér finnst ekki að ég sé búinn að ljúka mér af á þessum vettvangi. Ég hef miklar taugar til Skjás eins og margra sem þar starfa, en ég veit að ég er ekki einn um að sakna þeirra sem áður stjórnuðu fyrirtækinu og byggðu það upp. Að mörgu leyti fannst mér orðið verulega að mér þrengt á Skjánum, það lá ákveðið vantraust í loftinu og ég var í raun farinn að vera miklu gætnari en mér er eiginlegt að vera. Þeir sem nú hafa yrirráð yfir Skjánum eru að sækja fram í fleiri menningarfyrirtækjum, það held ég að sé visst áhyggjuefni.”

Þessi ummæli Egils verða vart skilinn á annan veg en þann að hagsmunaárekstrar hafi orðið vegna framgöngu hans í þættinum. Ekki er þó endilega víst að þar hafi verið um flokkspólitíska hagsmuni að ræða, enda voru ýmis viðkæm mál til umræðu í þátttunum sem ekki tengdust stjórnmálaflokkunum eða íslenskri pólitík í sjálfu sér.

Breytingar á Skjá einum urðu upphafið að endalokum Silfursins

Segja má að frægðarsól Egils hafi skotið jafn hratt upp á stjörnuhimininn og Skjá einum sjálfum. Þeir Árni Þór Vigfússon, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Skjás eins, munu hafa átt prýðisgott samstarf. Á fyrstu árum Silfursins var það hispurslausara og snarpara en síðar varð, og má einkum rekja það til þess að ritstjórnarvaldið var algjörlega í höndum Egils sjálfs.

Þegar nýir stjórnendur komu að Skjánum og Kristinn Geirsson tók við af Árna varð fljótlega ljóst að breytingar voru í vændum með Silfrið. Kristinn mun hafa lagt áherslu á því að minnka pólitíska umfjöllun í þættinum enda ætti Skjár einn fyrst og fremst að senda út skemmtiefni. Þetta mun hafa farið illa í Egil og ákveðinn trúnaðarbrestur orðið á milli þeirra tveggja.

Silfrið á Stöð 2?

Þegar óvissa ríkti í fyrrasumar um áframhaldandi sýningar á Silfrinu á Skjá einum, var því haldið fram að Stöð 2 myndi taka þáttinn til sýninga hjá sér. Heimildir Deiglunnar herma að þá hafi verið vilji fyrir því á Stöð 2 að skoða málið. Sömu heimildir herma hins vegar að nú sé fremur takmarkaður áhugi innan Stöðvarinnar á að taka við Silfrinu.

Á það sér einkum þær ástæður að undanfarið hefur Stöð 2 sagt upp mörgum fréttamönnum og í raun sé fullskipað í allt sem fréttastofan gæti haft umsjón með. Árni Snævarr hafi tekið við Íslandi dag sem sé í raun orðið mjög líkt Silfrinu.

Því hefur raunar verið haldið fram að þróun spjallþátta hér á landi hafi mótast nokkuð mikið af velgengni Silfurs Egils. Áþekkir þættir hafi skotið upp kollinum og aðrir dagsrkárgerðarmenn tekið mið af Silfri Egils við sína dagskrárgerð. Þetta hefur leitt til þess að „markaðurinn” fyrir pólitíska umræðu hafi sumpart mettast.

Markaðsleg greining jákvæð

Þrátt fyrir það sem hér er sagt um mettun markaðar, hefur Deiglan áreiðanlegar heimildir fyrir því að í sumar hafi Skjár einn látið gera könnun til að kanna markaðsstöðu Silfurs Egils, meðal annarra þátta. Kom sú könnun vel út og sýndi fram á að þátturinn næði til fólks sem annars horfði litið á Skjá einn. Þá mun fjármögnun þáttarins ekki hafa verið vandamál og stóð hann algjörlega undir sér.

En hvort sem um er að kenna persónulegri togstreitu eða markaðslegum ástæðum er í öllu falli ljóst, að Silfur Egils verður ekki á Skjá einum næsta vetur. Litlar líkur eru á því að þátturinn verði tekinn til sýninga á Stöð 2 og útilokað má telja að Ríkissjónvarpið taki þáttinn til sín. En hvað hyggst Egill taka sér fyrir hendur?

Í samtali við Deigluna sagðist Egill ætla að taka haustinu rólega, hann nyti þess að vera í útlöndum á þessum árstíma, en Egill er staddur í Berlín. Hann sagðist ekki mikið um veturinn:

„… en ég ætla alla vega ekki að þagna,” sagði Egill að lokum við Deigluna.