Hin mikla friðþæging

Nú er orðið ljóst að Milosevic verður framsendur. En þótt honum verði refsað þá þarf „alþjóðasamfélagið“ samt sem áður að skoða sín mál og endurheimta trúverðugleika sinn.

Nú fyrir helgi varð sá sögulegi atburður að fyrrum þjóðhöfðingi var framseldur til alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins í Haag þar sem honum verður gert að sæta ábyrgð gjörða sinna. Þessi þjóðarleiðtogi, Slobodan Milosevic, hefur ýmislegt viðbjóðslegt á samviskunni. Milosevic er kærður fyrir glæpi gegn mannkyninu en sú ákæra gengur næst þjóðarmorði að alvarleik. Stríðið á Balkanskaga var ógeðslegt stríð. Þar voru fjöldaaftökur saklausra borgara og hópnauðganir daglegt brauð og ábyrgð Serbaforingjans því mikil. Hins vegar er ekki hægt að líta framhjá því að allir aðilar deilunnar beittu sömu aðferðum og því ráða vart málefnalegar forsendur því að hörmungar stríðsins séu persónugerðar í einum manni, þótt sá maður sé sannkallaður óskapnaður.

Stríðið á Balkanskaga var áreiðanlega ekki ólíkt fjölmörgum öðrum stríðum sem háð hafa verið í gegnum tíðina. Þarna urðu nágrannar skyndilega hatrammir óvinir og heiftúðlegt hatur á milli þjóðarbrota, sem lifað höfðu í sátt frá tímum Titós, hlýtur að hafa haft óafturkallanlegar afleiðingar á viðhorf borgaranna til samfélagsins og almenns siðferðis. Þarna gengu ungir menn í heri, menn sem fram að því höfðu gert sér framtíðaráætlanir í þeirri trú að framtíð þeirra yrði friðsöm. Þeir, sem áður ætluðu að verða verslunarmenn, læknar eða skáld, þurftu skyndilega að horfast í augu við þann bitra veruleika að öll tilvera þeirra og framtíð varð duttlungum sprengna og byssukúlna háð og neyddust því til þess að setja á sig búning og byssu, bindast tryggðarböndum við stríðsfélaga sína og keppast að því að drepa sem flesta úr liði andstæðingsins. Andstæðingsins sem áður var nágranni og vinur. Við þessar aðstæður tekur mannskepnan á sig mynd sem enginn sem lifir í friði og öryggi, hefur nokkrar forsendur til að skilja.

Það er víst að þeir þjóðhöfðingjar sem kjósa að gera tilraun til að auka vald sitt með því að egna þjóð sína til stríðsátaka gera sér grein fyrir þeim hörmungum sem slíkum ákvörðunum fylgja. Stríðsátökin á Balkanskaga voru auk þess frá upphafi líklegt til þess að taka á sig viðurstyggilega mynd og heiftin sem magnast upp í borgarastríðum sá svo sannarlega til þess. En það er barnaskapur að halda því fram að heimurinn sé mikils bættari við það að dæma einn einstakling ábyrgan fyrir óhugnaðinum, en Vesturlönd hafa um árabil unnið markvisst að því að persónugera óhugnaðinn í Slobodan Milosevic, sennilega með það að markmiði að sannfæra heiminn um að með réttarhöldum yfir honum séu öll kurl komin til grafar. En svo er auðvitað ekki.

Samfélag þjóðanna horfði aðgerðarlaust á mestu grimmdarverk Serba án þess að grípa til aðgerða. Þúsundum var slátrað í Srebrenica svo að segja í beinni útsendingu með fullri vitund friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna, sem hrökkluðust mótspyrnulaust burt, með skottið á milli lappana, þegar Serbar réðust þar inn til þess að slátra varnarlausu fólki. Þær þúsundir sem þar höfðu leitað sér skjóls höfðu fengið fullvissu um að borgin væri griðarstaður, undir vernd Sameinuðu þjóðanna. Sú fullvissa reyndist banabiti þeirra, og virtist engu líkara en að samfélag þjóðanna hefði ginnt fólkið í vel skipulagða gildru fyrir grimmdarverk Serba. Svo var auðvitað ekki en getuleysi friðargæsluliða varð til þess að afskipti alþjóðasamfélagsins virtist fremur vera til bölvunar heldur en blessunar. Það er því ekki skrýtið að þjóðir heimsins leggi áherslu á að “klára málin” á sannfærandi hátt í þeirri von um að endurheimta megi þann trúverðugleika sem þær hafa gert tilkall til við lausnir á stríðsátökum.

Fleiri en Milosevic stóðu fyrir stríðsglæpum í Balkanskagastríðunum. Miklu fleiri. Alþjóðasamfélagið vill sannfæra almenning um að til séu illmenni sem á eigin spýtur valda þjáningu og dauða milljóna. Þetta er rangt. Það þarf hundruð samverkamanna og milljónir sem þegja þunnu hljóði. Þeirra ábyrgð er líka mikil. Heimurinn má ekki láta sem svo að framsal eins manns sé einhvers konar friðþæging. Sú blekking gæti reynst heiminum jafn dýrkeypt og loforðið um griðarsvæði reyndist þeim sem sóttu skjól í Srebrenica forðum.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.