Á að birta álagningu skatta á netinu?

SkattlagningarseðlarÁlagningarseðlar eru birtir í takmarkaðan tíma á hverju ári og einungis á fáum stöðum. Þrátt fyrir þetta eru viðhöfð stór orð um áhrif birtingarinnar. Það vekur því nokkra furðu að enginn tali um enn frekari birtingu. Það er líklega vegna þess að áhrifin eru stórlega ýkt.

SkattlagningarseðlarFyrir verslunarmannahelgi biðu margir eftirvæntingarfullir við póstkassann eftir álagningarseðlunum. Í framhaldi af birtingu álagningaseðlanna gerðu fjölmiðlar sér mat úr því að ræða hver hefði fengið hvað í laun á seinasta ári. Einnig gaf Frjáls verslun út bæklinginn Tekjur 2400 Íslendinga, sem ákafir Íslendingar tóku með sér í þúsundatali í verslunarmannahelgarfríið. Voru þar tilteknir einstaklingar sem líklegt var talið að fólk hefði áhuga á að fá upplýsingar um innkomu. Fréttastofur útvarps- og Sjónvarpsstöðva gerðu sér góðan mat úr því hvað þeir sem virðast berast mest á hafa í laun.

Skattstjórar víðsvegar hafa upplýst að birting þessara upplýsinga hafi áhrif bæði sem forvarnargildi og jafnframt hafi fjölmörg mál verið upplýst þar sem ábendingar þegnanna hafi leitt til margra rannsókna, þótt ekki hafi verið hægt að greina frá einstökum málum.

Það vekur hins vegar gríðarlega athygli að þrátt fyrir allt það gagn sem þessar upplýsingar eiga að veita eru þær eingöngu í boði í tvær vikur í senn einu sinni á ári. Ekki nóg með það heldur eru gögnin bara í boði hjá viðkomandi skattstjóra, þannig að ef einhver grunar fólk um skattsvik víðsvegar um landið er eins gott að taka vikurnar tvær frá svo viðkomandi geti lagt land undir fót. Það er líka eins gott að muna eftir þeim á þessum tíma, því á öðrum tíma eru upplýsingarnar eingöngu fyrir starfsmenn skattstjóra að skoða.

Fyrst á annað borð það er verið að birta þessar upplýsingar af hverju eru þær þá bara ekki almennilega opnar, settar á netið og hafðar aðgengilegar 365 daga ársins? Skatturinn hefur líklega verið duglegasta ríkisstofnun landsins við að nota netið. Gagnið virðist ekki vera meira en svo að starfsmenn skattstjóra hafa ekki lagt í mikla baráttu til að fá þessu framgengt eða hafa þeir svo mikið sem bent á þennan möguleika.

Staðreyndin er sú að birting skránna hefur lítinn annan tilgang en að svala forvitni náungans. Líklega eru mál sem hafa verið leyst út frá þessum gögnum teljandi á fingrum annarar handar. Þau laun sem ég hef eru einkamál mitt, enda geri ég upp þá skatta sem ég á að borga. Trúi skattstjóri því ekki getur hann tekið mig í rannsókn eins og hann hefur gert við þá aðila sem hann grunar um svindl. Eins og það sem gildir nú um hina tæplega 350 daga, ætti líka að gilda í þessar tvær vikur. Það er á milli mín og launagreiðandamíns annars vegar og hins vegar skattstjóra, hversu mikið mér er greitt í laun. Það er ekki hlutverk skattstjóra að upplýsa þjóðina um hver mín laun eru.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.