Vopnahlé og vegvísir

Enn sem fyrr eru blikur á lofti fyrir botni Miðjarðarhafs. Ísraelsmenn réðust í fyrradag frá landi og úr lofti á hús í Askar-flóttamannabúðunum í Nablus á Vesturbakkanum. Tveir liðsmanna Hamas-samtakanna voru felldir í árásinni. Hamas-samtökin hóta að hefna dauða mannanna. Ljóst er að árásin er ekki til þess fallin að róa öldur ófriðar í Ísrael og Palestínu.

Enn sem fyrr eru blikur á lofti fyrir botni Miðjarðarhafs. Ísraelsmenn réðust í fyrradag frá landi og úr lofti á hús í Askar-flóttamannabúðunum í Nablus á Vesturbakkanum. Tveir liðsmanna Hamas-samtakanna voru felldir í árásinni. Hamas-samtökin hóta að hefna dauða mannanna. Ljóst er að árásin er ekki til þess fallin að róa öldur ófriðar í Ísrael og Palestínu.

Fyrir rúmum mánuði lýstu nokkur hryðjuverkasamtök á svæðinu yfir vopnahléi, m.a. Hamas og Heilagt stríð. Haft var eftir ráðherra í palestínsku stjórninni að fulltrúar þessara samtaka hefðu, allt fram að árásinni í fyrradag, verið jákvæðir í garð vopnahlésins. Líklegt er að árásin í fyrradag hafi veruleg áhrif á það hvernig þessi samtök horfa til vopnahlésins nú.

Dagana og vikurnar fyrir árásina höfðu verið stigin nokkur skref af hálfu Palestínumanna og Ísraelsmanna sem líkleg voru til að halda friðarferlinu gangandi svo að vegvísirinn svonefndi til friðar gæti komið til framkvæmda. Skrefin hafa þó oft og tíðum verið of stutt. Enn álasa báðir aðilar hvorum öðrum um að gera ekki nóg til að viðhalda friðarferlinu og vegvísinum. Ísraelsmenn benda m.a. á að palestínsk yfirvöld hafi ekki gripið til nægjanlega markvissra aðgerða gegn hryðjuverkasamtökum og Palestínumenn benda m.a. á að Ísraelsmenn hafi reist múr sem skilja á að landsvæði ríkjanna á Vesturbakkanum.

Í rauninni er staðan sú að ríkin deila um atriði sem ekki koma fram í vegvísinum sjálfum. Eitt slíkt atriði er lausn palestínskra fanga úr ísraelskum fangelsum, en nokkur hundruð föngum var sleppt í vikunni. Palestínumönnum þótti of skammt gengið og töldu að fleiri hefði átt að láta lausa. Ísraelska dagblaðið Haaretz, sem oft er gagnrýnið á ísraelsk stjórnvöld, bendir á að mörgum þessara fanga hefði átt sleppa fljótlega hvort eð var. Sumum Ísraelsmönnum þykja Palestínumenn þó vanþakklátir vegna lausnar fanganna. Gideon Meir, einn yfirmanna í ísraelska utanríkisráðuneytinu, sagði í vikunni: „Við erum að koma til móts við Palestínumenn en í staðinn fáum við bara kvartanir frá þeim“.

Annað atriði sem ekki er minnst á í vegvísinum en er orðið vandamál er múrinn umdeildi sem Ísraelsmenn eru að reisa. Bush Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir vanþóknun sinni á honum og jafnframt að Bandaríkjamenn hyggist draga úr fjárframlögum til Ísraelsmanna haldi þeir áfram að reisa hann.

Af þessu má ráða að hindranir sem ekki er minnst á í vegvísinum sjálfum standa honum í vegi. Aukaatriðin byrgja mönnum sýn á aðalatriðin. Ekki bæta árásir, eins og sú sem Ísraelsmenn gerðu á Askar-flóttamannabúðirnar í fyrradag, heldur úr skák. Skref deilenda í friðarátt eru ekki nægjanlega markviss. Auk þess virðist skorta á að þau smáu skref sem þó eru stigin séu stigin af heilum hug.

Palestínumenn hafa nú þegar skipt um forystumann. Mahmoud Abbas er orðinn forsætisráðherra í Palestínu og hefur tekið við af Arafat við að leiða samningaviðræður við Ísrael. Kannski er kominn tími til að hinn aðilinn, Ísrael, skipti einnig um kall í brúnni.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)