Andi liðinna tíma

Öll spjót standa á Árna Johnsen þessi dægrin vegna umsýslu hans á vegum hins opinbera. Þótt að mörgu leyti megi finna til með þingmanninum vegna orrahríðarinnar sem hann gengur nú í gegnum, verður að segjast að um sjálfskaparvíti hans er að ræða.

Öll spjót standa á Árna Johnsen þessi dægrin vegna umsýslu hans á vegum hins opinbera. Þótt að mörgu leyti megi finna til með þingmanninum vegna orrahríðarinnar sem hann gengur nú í gegnum, verður að segjast að um sjálfskaparvíti hans er að ræða. Augljóst virðist að Árni hefur í umsýslu sinni ekki umgengist opinbera fjármuni með þeim hætti sem staðan hans og umboð krefjast. Hegðun Árna er hugsanlega nokkuð í takt við anda liðinna tíma, þegar ekkert tiltökumál þótt að opinberir starfsmenn tæku sér opinbert fé „að láni“ til að fjármagna ýmis hugðarefni sín, t.a.m. kjólakaup og fleira í þeim dúr. En sem betur fer hefur sú þróun átt sér stað síðasta áratuginn, að vitund almennings og fjölmiðla um góða stjórnsýsluhætti hefur aukist – ekki síst vegna gjörbyltingar á réttarumhverfinu. Vonandi draga menn lærdóm af því sem nú virðist hafa gerst og betrumbæta þetta umhverfi enn frekar.

Viðbrögð stjórnarandstöðunnar við þessu máli hafa verið nokkuð forvitnileg. Steingrímur J. Sigfússon hefur tjáð sig af varfærni og sama hefur Sverrir Hermannsson gert, enda hefur sá síðarnefndi upplifað álíka hremmingar og Árni Johnsen fær nú að reyna. Talsmaður Samfylkingarinnar í málinu, Skagamaðurinn Gísli S. Einarsson, fer hins vegar mikinn og hefur að eigin sögn verið milliliður almennings og fjölmiðla í tengslum við sögusagnir af Árna Johnsen, sbr. ummæli Gísla í Kastljósi 16. júlí 2001. Ábúðarfullur og með vandlætingarsvip lætur Gísli málið til sín taka og kemur fram sem málsvari siðbótar í íslenskum stjórnmálum. Líkt og gildir um áfengissjúklinga, sem á stundum verða ofsafullir bindindismenn og úthrópa brennivín og þá sem það nota, þá er við hæfi að Gísli S. Einarsson taki að sér hlutverk siðapostulans í þessu máli. Þess er skemmst að minnast, að Gísli beitti áhrifum sínum sem alþingismaður til að aðstoða náinn vandamann sinn tollafgreiðslu nokkurra innfluttra jeppabifreiða, auk þess sem hann sem þingmaður Samfylkingarinnar átti þátt í útsendingu 18.000 sendibréfa á kostnað almennings, en í þágu innanflokksstarfs Samfylkingarinnar.

Það er auðvitað óþolandi fyrir stjórnmálamenn sem eru vandir að virðingu sinni, að óorði skuli komið á störf þeirra með framgöngu annarra stjórnmálamanna. Það gildir raunar um allar starfstéttir. Deiglan dregur í efa að Árni Johnsen sé eini syndaselurinn í íslenskum stjórnmálum, en það breytir engu um ábyrgð hans á eigin framgöngu. Fari svo að Árni Johnsen ákveði að sitja áfram á þingi, þrátt fyrir allt sem á undan er gengið og allt sem á eftir að ganga á, þá verður að teljast harla ólíklegt að hann verði nokkuð nema þingmaður í orði. Eftir áralanga þjónustu við umbjóðendur sína og mikla kappsemi um að koma hagsmunamálum þeirra til leiðar, verður Árni Johnsen axla ábyrgð á mistökum sínum – þessum góða dreng er ekki annað samboðið.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.