Tvískipta eyjan í suðri

Eyjan Kýpur fyrir botni Miðjarðarhafs hefur í aldaraðir verið bitbein stórvelda og deildur Tyrkja og Grikkja á síðustu öldum eru hvergi meira áberandi en á þessari fallegu eyju.

Deiglan/ÞK

Þann 20. júlí 1974 réðust tyrkneskar hersveitir inn í Kýpur og náðu til sín rúmum þriðjungi alls landsvæðisins. Enn í dag er þessari litlu eyju skipt í tvö ríki. Annað þeirra heitir Kýpur og er viðurkennt af alþjóðasamfélaginu, hitt ríkið var stofnað árið 1983 og heitir Tyrkneska lýðveldið á Norður-Kýpur og er einungis viðurkennt af Tyrklandi. Í höfuðborg beggja þessara ríkja, Nicosiu, er veggur sem skilur að norður og suðurhluta borgarinnar. Veggurinn er á hinni svokölluðu “grænu línu” og er gætt að friðargæsluliðum Sameinuðu þjóðanna. Hefðbundinn skilningur á vandræðunum á Kýpur er þannig að spenna á milli tyrkneska minnihlutans og gríska meirihlutans hafi verið óbærileg og því hafi komið til hernaðarátaka á eyjunni. En það þarf mikið til þess að heil samfélög splundrist í stríðandi fylkingar og gjarnan virðist það vera vegna einbeitts vilja örfárra einstaklinga að friðsæl lönd breytast í vígvelli án þess að saklausir íbúarnir fái rönd við reist.

“Við unnum saman, skemmtum okkur saman og litum öll svo á að við værum fyrst og fremst Kýpverjar, ekki Tyrkir eða Grikkir, eða múslimar og kristnir. Núna trúa allir að þessir tveir hópar hafi barist á banaspjót. En það er rangt. Það hefðu Bretarnir átt að vita en þeir vildu frekar reyna að koma í veg fyrir sameiningu Grikklands og Kýpur með því að ýta undir átök af því þeir vissu að Tyrkirnir vildu alls ekki að Grikkir eignuðust Kýpur. Þetta gerðist þrátt fyrir að í þjóðaratkvæðagreiðslu á sjötta áratugnum hafi 97% eyjaskeggja kosið að sameinast Grikklandi. Það var sátt um þetta bæði meðal íbúa af tyrknesku og grísku bergi brotnu.”

Þetta sagði mér veitingamaður á Kýpur. Vinalegur og gáfaður maður um sextugt sem neyddist til þess að læra ensku til þess að geta átt samskipti við fyrstu kærustuna sína sem var frá Englandi, en Kýpur var hluti af breska heimsveldinu frá 1925 til 1960.

Veitingamaðurinn heitir Ayis. Hann hefur áhyggjur af því að ef vandamálin á milli Tyrkja og Kýpur verða ekki leyst á næstu árum þá verði það aldrei mögulegt. “Mannkynssagan er þannig að hún getur stjórnað afstöðu á milli þjóða. Mín kynslóð gerir sér grein fyrir því að skærurnar á milli hópanna tveggja voru til komnar vegna þess að nokkrir einstaklingar sáu hagsmuni í því en ekki, vegna landlægs haturs á milli kynþátta, eins og sögubækur segja nú. Venjulegt fólk vildi ekki taka þátt í þessu en með tímanum þá er hægt að kenna fólki að hata. Ef mín kynslóð, sem man hvernig þetta var í raun og veru, hverfur á brott án þess að viðunandi lausn finnist á deilunni þá verður engin eftir til þess að hrekja þá bábilju að hér hafi verið erfiðleikar á milli kynstofna. Það var aldrei þannig. Hér voru auðvitað vandamál eins og í öðrum samfélögum en sögur af kynþáttaerjum eru ekkert nema tilbúningur.”

Samfélagið á Kýpur var svo einsleitt að múslimar höfðu tileinkað sér að ákalla heilaga Guðsmóður þegar þeim var brugðið “jafnvel þótt þeir tryðu ekki á hana. Þetta var bara orðtak. En þetta er dæmi um samheldnina á eyjunni, burtséð frá uppruna. Fólk hugsaði ekki út í upprunan fyrr en okkur var allt í einu skipað að gera það.” Ayis segist hafa þurft að sóa mörgum árum ævi sinnar í tilgangslaust stríðsbrölt, sem engum tilgangi hafi þjónað, og þar með hafi honum reynst ómögulegt að öðlast menntun, ferðast um heiminn og lifa því lífi sem hann vildi. “Mér er alveg sama hvort forseti Kýpur sé Tyrki eða Grikki. Það skiptir mig engu máli. Mikilvægast er að íbúar eyjunnar geti sameinast á ný.”

Sl. miðvikudag kom kýpverska þingið saman til þess að minnast valdaránsins á eyjunni árið 1974 sem var undanfari innrásarinnar frá Tyrklandi. Demetris Christofias, forseti þingsins, sagði að mikill meirihluti íbúa væri mótfallinn hersetunni. Þessu til stuðnings má nefna að tyrkneskir Kýpverjar í tyrkneska hluta eyjunnar stóðu fyrir miklum mótmælum í gærkvöldi þar sem þeir komu á framfæri þeim vilja sínum að Tyrkir létu eyjaskeggjum eftir stjórn í eigin málum og drægju herlið sitt til baka.

Tvískipting Kýpur er klárlega gegn vilja íbúanna og er sorglegt dæmi um hvernig örfáir einstaklingar, séu þeir í aðstöðu til þess, geta þröngvað vilja sínum upp á þjóðir, splundrað þeim, att þeim hver gegn annarri, fóstrað hatur og leitt þær til hörmunga í þeim eina tilgangi að uppfylla persónulega drauma um völd og sess í sögu mannskyns. Stríðsþjáðar þjóðir eru það aldrei samkvæmt eigin vali og þótt auðvelt sé að taka afstöðu með eða á móti málstað þjóðar þá gleymist oft að þjóðir eru samansafn einstaklinga og málstaður stríðsþjóða byggist sjaldnast á raunverulegum vilja einstaklinganna sem þjóðina byggja því venjulegt fólk hefur það sameiginlega markmið að vilja verja þeim fáu árum sem því er ætlað á jörðinni í aðra hluti en að drepa eða vera drepnir fyrir hagsmuni sem koma þeim ekki við. Venjulegt fólk, eins og Ayis veitingamaður, vill ekki fórna framtíð sinni, menntun og möguleikum til þess að taka þátt í sjálfsfróun stjórnmálamanna og stríðsherra sem hirða ekki um skoðanir, drauma eða líf þeirra sem þurfa að færa hinar raunverulegu fórnir í stríði.

Þannig sitja Kýpverjar, tyrkneskir og grískir, eftir með sárt ennið. Þeim var att út í stríð, sem engu skilaði nema eymd og óánægju fyrir þá. Það er ekki skrýtið að íbúarnir séu margir pirraðir á endalausum afskiptum erlendra ríkja af málefnum eyjunnar. “Við getum lifað í sátt og samlyndi og friði bara ef ríkisstjórnir annarra þjóða hætta að nota eyjuna til þess að tryggja eigin hagsmuni. Stríðið var gegn vilja okkar” sagði Ayis, fluggreindur maður sem átti framtíðina fyrir sér þegar einhver annar tók þá ákvörðun að láta hann verja stærstum hluta æsku sinnar í að arka um með vélbyssu í stað námsbóka svo hann mætti berjast í stríði sem enginn trúði á nema nokkrar erlendar ríkisstjórnir og öfgafullir málaliðar þeirra.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.