Fimmtán hillumetrar af EES-gerðum

Fjölmargar EES-gerðir hafa lagagildi hér á landi, en hversu upplýstir skyldu íslenskir ríkisborgarar vera um efni þeirra, þannig að þeir viti hvernig eiga að haga sér í samræmi við það?

Hér til hliðar er mynd af byggingu sem fæstir landsmenn þekkja og enn færri hafa heimsótt. Þetta er Lögberg, aðsetur lagadeildar Háskóla Íslands við Suðurgötu í Reykjavík. Á þriðju hæð í þessari byggingu er lítið tölvuver sem hýsir þrettán tölvur. Á suðurvegg tölvuversins eru þéttskipaðar bókahillur og á þeim er að finna réttargerðir Evrópusambandsins frá 1993 til 2000, alls fimmtán hillumetra af þéttskrifuðum lagatexta, á ensku. Samkvæmt 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2 frá 1993, er meginhluti þessara gerða bindandi á EES-svæðinu og þar með hluti af íslenskum landsrétti. Það er ein meginregla réttarríkisins að lög séu birt. Tilgangur birtingar er sá, að gefa borgurunum kost á að kynnast lögunum, enda ekki hægt að ætlast til þess að þeir fari eftir reglum sem þeir hafa enga hugmynd um að séu til, hvað þá að þeir þekki efni þeirra. Þessi regla er bundin í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, sbr. 27. gr. hennar, og um birtingu laga gilda lög nr. 64/1943.

Árið 1997 tók umboðsmaður Alþingis til athugunar að eigin frumkvæði hvernig staðið væri að birtingu og miðlun upplýsinga um ofangreindar gerðir. Í niðurstöðu umboðsmanns frá 8. janúar 1998 kemur fram, að nauðsynlegt sé að framkvæmd á birtingu þessara gerða yrði tekin til endurskoðunar. Í kjölfarið skipaði forsætisráðherra nefnd sem ætlað var að athuga með hvaða hætti reglum, sem settar hafa verið á hinu evrópska efnahagssvæði, hefði verið veitt gildi hér á landi og hvort sá háttur, sem þar hafði verið hafður á, samrýmdist reglum íslenskrar stjórnskipunar. Nefndin skilaði skýrslu sinni 17. september 1998 og þar var að finna sérstakan kafla um birtingu EES-gerða. Nefndin tók undir álit umboðsmanns og gerði tillögur til úrbóta. Af niðurstöðum nefndarinnar má ráða, að gífurlegur kostnaður er því fylgjandi að birta gerðirnar með stjórnskipulega gildum hætti.

Álitaefnið um hvað telst nægileg birting ofangreindra gerða er í raun óskylt því álitaefni, hvort innganga Íslands í Evrópusambandið er æskileg eða ekki. Hér er um grundvallarsjónarmið réttarríkisins að ræða, þ.e.a.s. hvort lög, sem borgararnir vita ekki um og þekkja þ.a.l. ekki efni þeirra, geta mælt fyrir um háttsemi þeirra. Í ofangreindu áliti umboðsmanns segir hann „vafa leika á um hvort íþyngjandi ákvæðum „gerða“ yrði beitt gagnvart almenningi, þegar þær hefðu verið teknar upp í íslenskan rétt með því einu að vísa til nafns og númers þeirra í lögum eða reglugerð“. Þessar gerðir eru gefnar út af útgáfumiðstöð EFTA í Brüssel og eftir því sem Deiglan kemst næst, eru þær nú aðeins aðgengilegar hér á landi í títtnefndu tölvuveri í Lögbergi.

Annað hvort hafa íslenskir borgarar ekki hugmynd um að þessar gerðir megi nálgast í tölvuveri Lögbergs eða þá – og það sem líklega er – að þeim sé nákvæmlega sama þótt sú vissa sé til staðar. Í öllu falli hvíla gerðirnar í friði og halda áfram að sölsa undir sig fleiri og fleiri hillumetra í húsinu við Suðurgötu.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.