Með lögum skyldi land byggja

Eftir hryðjuverkaárásirnar þann 11. september 2001 bjuggust flestir við róttækum aðgerðum af hálfu Bandaríkjamanna. Fjölmargir stríðsfangar hafa verið í haldi á Kúbu undanfarna mánuði en nýjustu tíðindi þaðan hafa valdið mörgum áhyggjum. Hugmyndir um sérstakan stríðsglæpadómstól eru sérstaklega varhugaverðar.

Þegar Íslendingar hugsa um réttarhöld í Bandaríkjunum koma eflaust upp í hug margra myndir af prúðbúnum lögfræðingum sem reyna að sannfæra kviðdóm um sekt eða sakleysi hins ákærða. Enda eru Bandaríkjamenn ávallt tilbúnir að dásama eigið réttarkerfi, eigin réttlætiskennd og hugmyndir um sakleysi uns sekt er sönnuð. Þegar hlutirnir eru skoðaðir í návígi koma hins vegar í ljós alvarlegar brotalamir í kerfinu sem ástæða er til að skoða nánar.

Innrás Bandaríkjamanna í Afganistan naut víðtæks stuðnings þótt vissulega hafi verið uppi efasemdir um ágæti hennar. Bandarísk stjórnvöld réttlættu hana með yfirlýsingum þess efnis að uppbygging ríkisins fylgdi í kjölfarið, að þjóðin yrði hamingjusamari vegna lýðræðislegrar og efnahagslegrar uppbyggingar. En efndir hafa varla fylgt orðum. Vissulega hefur frjálsræði og öryggi aukist í Kabúl, höfuðborg Afganistan, en á öðrum svæðum ríkir sannkölluð skálmöld. Stríðsherrar ráða ríkjum fyrir utan borgarmúrana, hlutskipti kvenna er jafnslæmt og áður og nokkur hundruð manns bíða réttarhalda sem fyrirfram virðast töpuð.

Tímaritið The Economist fjallaði ítarlega um hugmyndir Bandaríkjamanna um sérstakan stríðsglæpa- eða öllu heldur hryðjuverkamannadómstól í síðasta tölublaði sínu. Þar kemur meðal annars fram að hefðbundin réttindi fanga eru ekki virt af réttinum. Í bandarísku réttarkerfi hefur sakborningur rétt á borgaralegum lögmanni og hann hefur rétt á að velja hann sjálfur. Hægt er að fara fram á réttarhöld fyrir opnum tjöldum og notast er við kviðdóm í flestum tilfellum. Einnig fær sakborningur aðgang að öllum sönnunargögnum gegn sér, trúnaður ríkir á milli hans og lögmanns og hann á rétt á að áfrýja til hlutlausra aðila. Ekkert af ofangreindu á við í hinum nýja dómstóli.

Eini réttur sakbornings er að tjá sig ekki en óvíst er að það hjálpi honum. Í réttarhöldum yfir liðsmönnum IRA á Englandi og á tímum aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku var ekki brotið jafngróflega á réttindum meintra glæpamanna.

Stuðningsmenn þessa sérstaka dómstóls mótmæla allri gagnrýni á hann og segja að sérstakar aðstæður krefjist sértækra aðgerða. Rétturinn verði að geta gengið nærri meintum hryðjuverkamönnum auk þess sem allar upplýsingar séu sérstaklega viðkvæmar vegna öryggishagsmuna ríkisins. Nauðsynlegt geti verið að grípa til ákveðinna úrræða en ólíklegt að það verði gert í öllum tilfellum.

Erfitt er að ímynda sér það að traust myndist á milli fanga, sem dvalið hefur í ókunnu landi undir hergæslu í marga mánuði, og lögmanns sem einnig er hermaður. Þegar við bætist að rétturinn hefur heimild til að hlera samtöl þeirra án þess að láta þá vita má ætla að málsvörnin verði sannkallaður skrípaleikur. Helsta áhyggjuefni mannréttindarsinna er samt sem áður það að einungis er hægt að áfrýja dómnum til varnarmálaráðherra eða forseta Bandaríkjanna.

Þrír til sjö yfirmenn í hernum munu skipa dóminn, þar af að minnsta kosti einn löglærður en þrír fjórðu hlutar dómenda verða að sammælast um sektardóm. Allir sjö þurfa að samþykkja dauðarefsingu. Úrskurðirnir eru síðan yfirfarnir af nefnd sem skipuð er öðrum yfirmönnum úr hernum. Harla ólíklegt má telja að félagarnir Donald Rumsfield og George Bush sýkni þá sem dæmdir hafi verið. Þeir hafa þegar lýst því yfir að fangarnir á Kúbu séu úrhrök og morðingjar. En hvort heldur sem menn eru dæmdir sekir eða saklausir þá geta þeir búist við sömu niðurstöðu, það er ævilangri vist í fangabúðum. Jafnvel þótt ekki sé hægt að sanna að fangarnir hafi tekið þátt í hryðjuverkum hefur herinn rétt á því að halda þeim í fangavist sem óvinveittum bardagamönnum.

Bandaríkin hreykja sér að því að vera boðberi frelsis í heiminum. Það er því umhugsunarvert hvers vegna bandarískir ríkisborgarar munu ekki falla undir lögsögu réttarins heldur aðeins erlendir. Í stað þess að koma nýjum lögum um aðgerðir gegn hryðjuverkum í gegnum þingið hefur George Bush kosið að stofna þennan skuggadómstól utan lögsögu allra nema hans sjálfs.

Vissulega er engin reynsla komin á dómstólinn. Hann gæti sannað sig sem gagnlegt tæki í baráttunni gegn hryðjuverkum. Bandarísk stjórnvöld verða þó að átta sig á því að þau hafa komið á fót sams konar herrétti og þau hafa gagnrýnt í öðrum ríkjum heims um áraraðir. Þau eiga því á hættu að missa allan sannfæringarkraft þegar kemur að mannréttindabrotum í öðrum ríkjum.

Síðustu tvo sunnudaga hefur verið fjallað um væntanlegar forsetakosningar í Bandaríkjunum. Flest bendir til þess að George W. Bush nái endurkjöri. Það segir sitt hvað um bandarískt þjóðfélag að vafasamar hugmyndir á borð við sérstakan stríðsglæpadómstól dragi lítið úr möguleikum hans.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)