Fer þetta ekki að ganga yfir?

Það kemur í hlut Menningarskrifstofu Deiglunnar (áður menningardeildar) að útbúa helgarnestið fyrir lesendur nú þegar dæmalaus veðurblíða geisar á landinu – ekki hafa allir ástæðu til að kætast yfir veðrinu.

Klædd fyrir sólina

Halir og fljóð endurspegla veðurblíðuna og skarta sínu fegursta í sólinni.

Menningarskrifstofa (áður menningardeild) Deiglunnar hefur látið lítið fyrir sér fara síðustu vikur og mánuði en eins einhverjir lesendur muna eflaust vöktu pistlar skrifstofunnar (þá deildar) mikla athygli síðasta sumar. Þóttu efnistök og einkum framsetning efnis óvenjuleg og sérlega frískleg.

Í dag er þráðurinn tekinn upp að nýju þar sem frá var horfið og umfjöllunarefnið er auðvitað hin magnaða veðurblíða sem bylur á landsmönnum þessa dagana. Eins og gildir um aðrar skrifstofur er sólskin og hiti lítið fagnaðarefni fyrir verkefnum hlaðna Menningarskrifstofuna. Þegar starfsmenn hennar hafa lokið störfum er degi jafnan tekið að halla og hafgolan tekin við.

Það er nefnilega þannig, að þegar heitt er í veðri hitnar landið og loftið yfir því verður heitara og þá um leið eðlisléttara en loftið yfir hafinu í kring. Þetta skapar tómarúm lofts yfir landinu og „þunga“ loftið yfir hafinu „sígur“ inn í þetta tómarúm með þeim afleiðingum að talað er um hafgolu. Dæmið snýst hins vegar við á nóttunni þegar loftið yfir landinu kólnar meira en loftið yfir sjónum. Þess vegna, þegar gott er veður, stendur gola oft af landi snemma á morgnana. Þetta þekkja auðvitað árrisulir starfsmenn Menningarskrifstofu Deiglunnar mætavel.

Fyrir starfsmenn skrifstofunnar þýðir veðurblíðan þess vegna að það er vindur af fjöllum á leið til vinnu, óvinnandi yfir daginn vegna hita og loftleysis á skrifstofunni, og þegar vinnudeginum er loksins lokið mætir starfsmönnum nöpur og nístandi hafgolan.

Sumarfrí þekkjast auðvitað ekki á Menningarskrifstofunni, því þar er aðhalds gætt í rekstri og menningin sjálf er auðvitað sívarandi og kvik, og þess vegna dauðasök á sofna á verðinum gagnvart henni.

En burtséð frá raunum starfsmanna Menningarskrifstofu (áður menningardeildar) Deiglunnar, ber auðvitað að fagna veðrinu. Eins og þjóðskáldið sagði: „Sumarið er tíminn, þegar mér líður best/með stúlkunni minni, upp’á Arnarhól’/óójáaáá…/“. Þessi litli lagbútur er auðvitað fyrir löngu orðinn ódauðlegur.

Um það var einmitt rætt á samráðsfundi starfsmanna Menningarskrifstofu (áður menningardeildar) á dögunum hversu gaman væri að ganga um miðbæ Reykjavíkur þegar veðrið er gott. Hafði einn starfsmaður á orði hversu holdafar Íslendinga hefði batnað mikið á síðustu árum, bæði karlar og konur, ungir/ungar sem gamlir/gamlar, skörtuðu sínu fegursta léttklæddir/léttklæddar á slíkum sólskinsdögum. Er þar vafalítið fyrir að þakka aukinni áherslu á hreyfingu og hollt mataræði.

Það er með vissu um þá gleði sem góða veðrið veitir öllum þorra landsmanna sem starfsmenn Menningarskrifstofu (áður menningardeildar) Deiglunnar bera harm sinn í hljóði á meðan veðurblíðan gengur yfir.

menning@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Menningarhorns (see all)