Auga fyrir auga, líf fyrir líf

aftakaEr aldrei réttlætanlegt að taka líf þeirra sem hafa brotið af sér? Hvað með barnaníðinga, eða fjöldamorðingja? Getur þjóðfélagið einhvern tímann notað dauðarefsingar til að halda uppi aga?

aftakaÞað eru ekki mörg ríki sem nota dauðarefsingar. Flest þeirra eru í þriðja heiminum þótt Bandaríkin hafi um árabil notað þessa umdeildu aðferð. 38 fylki Bandaríkjanna auk alríkisins hafa tekið menn af lífi undanfarin ár, marga að því er virðist saklausa. Texas, heimaríki George W. Bush, hefur drepið flesta en önnur ríki Suðursins hafa einnig verið dugleg.

Reyndar eru Bandaríkin í hópi örfárra ríkja sem taka þroskahefta og greindarskerta af lífi. Jafnframt eru þau eina ríki heims sem leyfir aftökur á börnum undir 18 ára aldri. Ekki einu sinni Kínverjar, sem hingað til hafa ekki lagt mikla áherslu á mannréttindi, leyfa aftökur á börnum.

Stuðningur við dauðarefsingar er víðast hvar mikill. Þannig er meirihluti almennings í Bandaríkjunum fylgjandi aðferðinni, Bretar hafa í auknum mæli viljað taka hana upp og í öðrum Evrópuríkjum er til hópur fólks sem styður hana. Líklega er þó nokkur hópur Íslendinga tilbúinn að nota dauðarefsingar í ákveðnum tilvikum.

Sjálfur skil ég þær hvatir sem verða til þess að fólk vilji refsa glæpamönnum á slíkan hátt. Barnaníðingar eru til að mynda hópur manna sem ég væri tilbúinn að afgreiða sjálfur. Fjöldamorðingjar virðast hafa fyrirgert öllum rétti til lífs, er ekki miklu snyrtilegra að drepa þá bara?

Vandamálið verður hins vegar til í réttarkerfinu. Er hægt að treysta því að dómarar, lögfræðingar og aðrir þeir sem hafa slíkt vald í hendi sér sinni sínu starfi. Reynslan frá Bandaríkjunum sýnir svo ekki verður um villst að saklausir menn eru teknir af lífi. Þeir sem eru fátækir, svo ekki sé talað um litaða, eiga frekar á hættu að verða teknir af lífi heldur en hvítir og þeir sem eru efnaðir. Konur eru mun sjaldnar teknar af lífi en karlar.

Það að taka saklausan mann af lífi er aldrei réttlætanlegt. Fælingarmáttur dauðarefsinga er takmarkaður og því erfitt að halda því fram að þær fækki glæpum. Það væri því glapræði að taka þær upp hér á landi eða í öðrum ríkjum.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)