Lifandi þorsk á markað

ÞorskeldiUm daginn var ég á fyrirlestri með Ragnari Árnasyni þar sem hann setti fram ýmsar nýstárlegar hugmyndir. Meðal annars vildi hann veiða þorsk í gildrur og flytja hann lifandi á markað í tönkum. Ástæðan var sú að þeim mun ferskari sem fiskurinn er, þeim mun hærra verð fæst fyrir hann á markaði, og hæst er verðið ef hann er lifandi.

ÞorskeldiÉg var á ráðstefnu um framtíð fiskiðnaðar á Íslandi fyrir skemmstu á vegum Verk- og Tækifræðingafélagsins. Einn fyrirlesaranna var Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði.

Í upphafi útskýrði Ragnar að verð á mörkuðum væri hærra eftir því sem fiskurinn væri ferskari. Hæsta verðið næðist ef hægt væri að afhenda fiskinn lifandi. Kom Ragnar með hugmyndir hvernig mætti veiða fiskinn lifandi í gildrur, setja hann í lífmassatank og fiskurinn væri þannig fluttur lifandi á markað. Teiknaði Ragnar ansi skrautlegar myndir af þessu.

Á meðan á fyrirlestrinum stóð hristi ég hausinn yfir þessum hugmyndum, ásamt fleiri verkfræðingum sem voru þarna. Þótt þetta væri hugsanlega tæknilega framkvæmanlegt yrði kostnaðurinn svo gífurlegur að þetta myndi aldrei borga sig í framkvæmd.

Þegar betur er að gáð er hins vegar ekki þörf á því að setja upp gildrur á hafsbotn í risastærð og koma fisknum í framhaldi af því lifandi í tanka til flutnings. Nú þegar er hægt að nálgast lifandi fisk í gildrum og flytja hann lifandi eða mjög ferskan á markað, en þetta er hægt með þorskseldi.

Íslendingar hafa verið að gera tilraunir með þorskeldi, en þrátt fyrir miklar framfarir í þorskeldinu er staðan enn þá þannig að framleiðsluverð er of hátt (200-240 kr/kg) til þess að þorskeldið geti keppt við villtan þorsk. Hins vegar verði hægt að flytja þorskinn á markað lifandi eða mun ferskari en það sem gengur og gerist með villta þorskinn. Þannig má fá hærra verð samanborið við það sem annars væri hægt, og munurinn á milli minnkar.

Á undanförnum árum hefur mikið verið gert til að gera þorskeldi hagkvæmt. Stærstu vandamálin hafa þegar verið yfirstigin, en þó er nokkuð langt í land með að kostnaðarverð verði sambærilegt á eldisþorskinum og villta þorskinum. Hins vegar má búast við að með áframhaldandi þróun verði hægt að lækka kostnaðinn t.d. með því að seinka enn frekar kynþroska eldisþorskisins.

Von er á að þessi geiri vaxi mjög hratt, og búast menn við að árið 2010 verði 10 þúsund tonn framleidd á Íslandi og einhverstaðar á milli 30 – 400 þúsund tonn í Noregi. Með þorskeldi er hægt að jafna eftirspurnina og koma með þorsk á markað þegar lítið framboð er af villtum þorski og verðið hátt á mörkuðum. Jafnframt tryggir jafnt framboð á markaði að neytendur halda áfram að kaupa þorsk en snúa sér ekki að annarri vöru þegar þorskinn vantar í hillurnar.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.