Tækifæri til nýskipunar ráðuneyta

Síðustu daga hafa fjölmiðlar og stjórnmálamenn verið mjög uppteknir af stjórnarmyndun, málefnasamningi í tengslum við hana og síðast en ekki síst skipan manna og kvenna í ráðherrastóla. Fáir virðast hafa velt því fyrir sér að nú gefist upplagt tækifæri til róttækra breytinga á skipan ráðuneyta í íslenska stjórnarráðinu.

Eftir því sem næst verður komist af fréttum fjölmiðla gengur stjórnarmyndun Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vel. Svo virðist sem samstaða sé að nást um málefni og þá er verkaskiptingin eftir. Fjölmiðlar hafa reynt að fylgjast með hverju skrefi í hvoru tveggja en engum virðist hafa dottið í hug að velta fyrir sér hvort stjórnarflokkarnir myndu nota þetta tækifæri, þegar þeir sigla inn í sitt þriðja kjörtímabil saman, til að stokka upp sjálfa skipan ráðuneytanna.

Deiglan hefur áður hvatt til þess að verkaskiptingu ráðuneyta íslenska stjórnarráðsins verði breytt, einstök ráðuneyti hverfi af sjónarsviðinu og önnur verði sameinuð. Í pistli sem undirritaður skrifaði fyrir einu og hálfu ári, eða 1. nóvember 2001, Um tilverugrundvöll sérstaks ferðamálaráðuneytis sagði:

En skyldi það nú kannski vera mergurinn málsins, að þessi krafa hagsmunaaðila í ferðaþjónustu, sýnir okkur hvað best fram á fáránleika þess, að halda hér uppi næstum tuttugu ráðuneytum. Vitaskuld á að fella alla atvinnuvegina undir eitt atvinnuvegaráðuneyti. Síðan skyldu umhverfis-, skipulags- og samgöngumál falla undir umhverfisráðuneyti. Heilbrigðis, – trygginga-, félags- og menntamál féllu undir velferðarráðuneytið (úff!) og ráðuneyti dómsmála, fjármála, utanríkismála stæðu óbreytt, auk forsætisráðuneytisins (hér er gert ráð fyrir að menn sjái loks vitið í því að ríkið reki hvorki kirkju né menningu, en annars félli það væntanlega undir velferðarmál!). Sumsé sjö ráðuneyti í stað sextán, og jafnvel mætti ganga lengra – t.a.m. gætu utanríkismál verið í höndum forsætisráðherra.

Þetta var hugmynd sem þá var sett fram. Hún er auðvitað ekki gallalaus, sumpart róttæk en gengur að vissu leyti ekki nógu langt. Hún var einkum sett fram í því augnamiði að hagræða og spara. Önnur sjónarmið kunna að vera allt eins gildi sem kveða á um aðra verkaskiptingu.

En sú umræða er einfaldlega ekki uppi á borðinu. Menn virðast hafa skoðun á nánast öllu sem viðkemur stjórnarmynduninni, en þegar kemur að þessum grundvallarspurningum eru sömu menn alveg blankir.

Það er nokkuð furðulegt að íslenskir fjölmiðlar skuli ekkert velta þessu upp, að engin umræða skuli skapast um nýskipan ráðuneytanna – að menn einblíni algjörlega á það hvort þessi maður eða hinn setjist í þetta ráðuneytið eða hitt.

Það er auðvitað allt eins við flokkana að sakast. Þeir hafa ekki sett nýskipan ráðuneyta ofarlega á dagskrá. Það þýðir þó ekki að slík nýskipan sé ekki á borðinu. Vel má vera að menn hafi ekki viljað gera slíkar hugmyndir að kosningamála, þar sem málið er flókið og hefði hugsanlega dregið athygli frá öðrum málum sem auðveldara var að koma á framfæri.

Það er hins vegar bjargföst skoðun undirritaðs að nýskipan ráðuneytanna sé brýn og að nú gefist upplagt tækifæri til þess að gera róttækar breytingar.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.