Geta vélar hugsað?

HeiliBreski snillingurinn Alan Turing birti merka grein árið 1950 þar sem hann spurði spurningarinnar „Geta vélar hugsað?“. Grein hans og þær hugmyndir sem hann setur fram í henni eru jafn áhugaverðar í dag eins og þær voru fyrir rúmum 50 árum.

HeiliTuring hélt því fram að í tímans rás yrði hægt að forrita vélar með þeim hætti að þær byggju yfir greind og hugsun sem gæfi hugsun og greind manna ekkert eftir. Þó að tölvur eigi enn nokkuð langt í land þá hafa rannsóknir síðustu ára á sviði svokallaðar gervigreindar gefið tilefni til bjartsýni og vakið upp væntingar um að innan fárra ára líti fyrsta hugsandi tölvan dagsins ljós.

Í stað þess að reyna að skilgreina hvað sé hugsun og reyna að nota skilgreininguna til þess að athuga hvort vél geti uppfyllt hana velti Turing fyrir sér annarri spurningu „Ef vél gæti hugsað hvernig gætum við tekið eftir því?“. Þannig gat hann komið sér hjá því að þurfa að skilgreina hvað sé hugsun enda það erfitt og umdeilanlegt.

Hugmynd Turings felst í stuttu máli í einföldum eftirhermuleik sem hefur verið nefndur Turing prófið. Leikurinn felst í því að vél og maður eru sett í sitt hvort herbergið. Dómari sem veit að í öðru herberginu er vél en í hinu sé maður reynir svo að spyrja spurninga til þess að komast að því í hvoru herberginu maðurinn sé á meðan bæði vélin og maðurinn reyna að sannfæra dómarann með svörum sínum að þau séu í raun maðurinn. Hugmynd Turings gengur því út á það að ef vélinni tekst að blekkja dómarann ítrekað þá sé vélin óaðgreinanleg í þessu tilliti frá manni og búi samkvæmt því yfir sambærilegri hugsun.

Þó að hugmyndin sé snjöll og prófið einfalt að framkvæma þá hafa margir gagnrýnt það á þeirri forsendu að það mæli ekki endilega hugsun. Þannig í stað þess að menn hafi deilt um hvað sé hugsun þá hafa menn deilt um hvað prófið mæli. Sumir hafa haldið því fram að prófið sé of létt að vél gæti staðist það án þess að búa yfir hugsun. Aðrir hafa haldið því fram að prófið sé of þungt á þeirri forsendu að hugsun geti verið til staðar án þess að hægt sé að koma henni til skila sem svörum við spurningum og jafnframt að greindar verur sem ekki hefðu sama menningarlega bakgrunn og við myndu falla á því.

Engu að síður hefur próf hans verið mikill hvati fyrir rannsóknir á þessu svið. Árlega eru haldnar keppnir á milli forrita og verðlaun veitt til þeirra sem standa sig best í prófinu.

Enginn dregur það í efa að tölvur í dag geta leyst mörg verkefni hraðar og betur en við. Sífellt eru að bætast við verkefni sem engum dettur í hug að reyna að leysa án aðstoðar tölvu. Yfirburðir þeirra eru algjörir þegar kemur að því að leysa verkefni sem hægt er að lýsa á stærðfræðilegan hátt enda er reiknigeta þeirra margfalt meiri en okkar. Með því að búa til tölvu sem getur hugsað opnast heill heimur af spennandi verkefnum sem hægt væri að leysa.

Það sem óneitanlega greinir menn ennþá frá tölvum er greind og hugsun okkar en ef til vill ekki mikið lengur. Tækninni fleygir fram og hvert vígi okkar hefur fallið á fætur öðru. Ekki er langt síðan að heimsmeistarinn í skák tapaði einvígi við tölvu í fyrsta sinn. Á netinu eru nú forrit sem geta haldið uppi samræðum og gefið upplýsingar og í raun bara stigsmunur á þeim og forriti sem gæti staðist Turing prófið en ekki eðlismunur. Það verður því spennandi að fylgjast með þróuninni næstu árin.

Latest posts by Eðvarð Jón Bjarnason (see all)