Vændi til framfærslu

Í almennum hegningarlögum er það gert refsivert að stunda vændi sér til framfærslu. Umræður voru um það á Alþingi fyrir rúmum áratug að afnema ætti þetta ákvæði en meirihluti allsherjarnefndar taldi að það ætti að standa þar sem því væri ætlað að senda skilaboð til þjóðfélagsins um hug löggjafans til verknaðarins. Þau skilaboð virðast hins vegar á ýmsan hátt vera brengluð.

Í 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga er lögð refsing við því að stunda vændi sér til framfærslu og varðar það allt að tveggja ára fangelsi. Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu þarf að vera um að ræða hátterni sem stundað er í svo ríkum mæli að endurgjald fyrir það skipti verulegu máli í framfærslu viðkomandi. Aldrei hefur reynt á þetta ákvæði fyrir dómstólum og afar fá mál af þessu tagi hafa verið rannsökuð innan lögreglunnar.

Erfitt er að greina af hverju lítið hefur reynt á þetta ákvæði innan réttarkerfisins, en víst er að sönnunarstaðan samkvæmt því er afar erfið. Rannsóknir sýna hins vegar að vændi er til staðar á Íslandi eins og annars staðar, þó ekki sé vitað nákvæmlega hvert umfang þess er.

Miklar umræður urðu um þetta ákvæði á Alþingi við endurskoðun þess árið 1992. Meirihluti allsherjarnefndar taldi að ákvæðið ætti að vera áfram í íslenskum hegingarlögum, með þeim rökum að ákvæði sem þessu væri ætlað að hafa áhrif á almennt siðgæði í landinu og hafa almenn varnaðaráhrif. Með þessu ákvæði væri þannig verið að senda þjóðfélaginu skilaboð um hug löggjafarvaldsins til verknaðarins.

Það er erfitt að fallast á þessa röksemdafærslu. Ef það eru siðferðileg skilaboð löggjafans að ekki eigi að stunda vændi sér til framfærslu, er þá siðferðilega í lagi að stunda vændi alveg þangað til það fer að skipta máli fyrir framfærslu viðkomandi? Rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að þeir sem stunda vændi búa í langflestum tilvikum við erfiðar félagslegar eða fjárhagslegar aðstæður; ýmist vegna kynferðislegrar misnotkunar, erfiðra fjölskylduaðstæðna eða vímuefnaneyslu. Við endurskoðun dönsku hegningarlaganna árið 1999 var sambærilegt ákvæði numið úr þeim lögum, með þeim rökum að hjálpa þyrfti því fólki sem hefði komið sér í þessa stöðu en ekki refsa því. Núgildandi ákvæði íslensku hegningarlaganna sendir hins vegar þau skilaboð að vændi sé ekki fyrst og fremst félagslegt vandamál, heldur séu þeir sem það stunda afbrotamenn- sem beri að refsa.

Fyrir tveimur árum var skipuð nefnd sem falið var að gera tillögur um úrbætur vegna kláms og vændis. Nefndin komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að afnema ætti 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga sem gerði það refsivert að stunda vændi sér til framfærslu, meðal annars með þeim rökum að hér væri í flestum tilvikum um einhvers konar fórnarlömb að ræða. Því hefur verið haldið fram að við þetta gæti vændi orðið sýnilegra en áður. Lagði nefndin því það til að setja ætti lagaákvæði sem gerði það refsivert að bjóða sölu á kynlífsþjónustu á almannafæri og myndi brot gegn slíku ákvæði varða sektum.

Full ástæða er fyrir löggjafann að taka þessa niðurstöðu nefndarinnar til alvarlegrar skoðunar. Með því að afnema þetta ákvæði um að refsivert sé að stunda vændi sér til framfærslu, er ekki verið að hvetja til vændis eða lögleiða það og lagði nefndin ríka áherslu á það. Aðeins er verið að gefa þeim einstaklingum sem stunda vændi möguleika á að leita sér hjálpar- án þess að eiga yfir höfði sér refsingu. Eftir sem áður munu önnur ákvæði laganna um vændi standa, sem gera það meðal annars refsivert að hafa milligöngu um vændi.

Latest posts by Drífa Kristín Sigurðardóttir (see all)